Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 4/2001

Fimmtudaginn, 31. maí 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 22. mars 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum kæranda í fæðingarorlofi.

Málavextir eru þeir að A sendir inn kæru, dags. 19. mars 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Hún tilkynnti sínum atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs 1. nóvember 2000. Í janúar 2001 sækir hún um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum nr. 95/2000 (ffl.). Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 15. janúar 2001 til 14. apríl 2001. A ól barn 12. febrúar 2001.

Kærandi fer þess á leit að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um mánaðarlegar greiðslur fæðingarstyrks í fæðingarorlofi verði hafnað, en henni verði ákvarðaðar mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Kærandi máls þessa réði sig til starfa hjá núverandi vinnuveitanda sínum; B sem útstillingahönnuður og sölumaður með undirritun ráðningasamnings þann 15. nóvember 1999 (skjal nr. 5). Í ráðningasamningi þessum kemur fram að kærandi er ráðinn til starfa í 60% starf hjá fyrirtækinu frá og með 7. október 1999. Um ráðningarsamband skyldi að öðru leyti fara eftir kjarasamningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, þ.m.t. um orlofsréttindi. Vegna persónulegra aðstæðna kæranda sem fram koma í umsókn hennar þ.e. veikindi barna og erfiðleika á meðgöngu, gerðu hann og vinnuveitandi hans með sér viðauka (skjal nr. 6) við umræddan ráðningarsamning þann 1. mars 2000. Í viðaukanum samdist aðilum um að kærandi hefði heimild til töku launalauss leyfis á tímabilinu 11. mars 2000 til 31. júlí 2000 og ennfremur frá 1. október 2000 til 31. desember 2000. Í viðaukanum segir síðan orðrétt. "Að öðru leyti en að ofan greinir gildir ráðningarsamningur sem gerður var milli ofanritaðra þann 15. nóvember 1999."...

Byggt er á því í kæru þessari að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki verið heimilt að hafna umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Af gögnum málsins má ekkert annað ráða en að kærandi hafi verið í samfelldu 60% starfi hjá sama vinnuveitanda síðan 7. október 1999. Ekkert liggur fyrir um að ráðningasambandi því sem komið var á með undirritun umrædds samnings í nóvember 1999 hafi verið slitið á nokkurn hátt. Ber því að líta svo á að það ráðningarsamband sé í fullu gildi og að skyldur aðila samkvæmt samningnum, hvort sem er skyldur launþega eða vinnuveitanda hafi haldist óbreyttar síðan hann var undirritaður. Fráleitt er að halda því fram, gegn andmælum aðila, að einhvers konar rof hafi komið á ráðningarsamband kæranda og vinnuveitanda hans með samkomulagi þeirra um launalaust leyfi kæranda. Í greinargerð með lögum um fæðingarorlof nr. 95/2000 er þar að auki orðrétt tekið fram í skýringum við 13. grein framvarpsins að við mat á sex mánaða samfelldu starfi foreldris skal ekki draga frá þann tíma sem starfsmaður hefur verið í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunaður sé að hluta eða öllu leyti. Í úrskurði Tryggingastofnunar ríkisins er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því að einhver önnur sjónarmið eigi að ráða för hjá kæranda þessa máls enda ekki hægt í fljótu bragði að koma auga á nein sérafbrigði sem réttlæta aðrar grundvallarreglur í þessu tilfelli. Þykir það einnig augljóst að um væri að ræða töluverða breytingu á framkvæmd fæðingarorlofsmála hér á landi ef nýju lögin um fæðingar- og foreldraorlof eiga að vera til þess að skerða orlofsrétt foreldra þar sem megintilgangur laganna er sá að auka réttindi og sveigjanleika til töku fæðingarorlofs."

Með bréfi 22. mars 2001 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 27. apríl 2001. Í greinargerðinni segir m.a.:

"Með umsókninni fylgdi samkomulag A við vinnuveitanda sinn, B ehf. dags. 1. mars 2000 um að hún taki sér launalaust frí frá 11. mars 2000 til og með 31. júlí 2000 og geti ef þannig standi á tekið viðbótar frí án launa frá 1. október 2000 til og með 31. desember 2000. Í samræmi við það fékk hún skv. staðgreiðsluskrá RSK greidd laun á árinu 2000 fyrir janúar, febrúar, hluta af mars, ágúst og september eða samtals í 5 mánuði á árinu."

Síðan segir:

"Það að þeim væri heimilað að skila inn nýrri umsókn vegna mistaka við útfyllingu á fyrri umsókn sem vörðuðu ekki grundvöll greiðslna til A gaf ekki tilefni til að ætla að tilkynna þyrfti að nýju um þá ákvörðun að synja A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði enda fengu þau þegar umsókn þeirra var afgreidd (sem mun hafa verið 7. mars) senda skriflega tilkynningu um það hverjar greiðslur til þeirra yrðu og þar með staðfestingu á því að ákvörðunin um synjunina stæði óbreytt.

Í 2. mgr. 8. gr. laganna [fæðingar- og foreldraorlofslaga nr. 95/2000 (ffl.)] segir m.a.:

Starfsmaður er í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 13. gr. laganna [ffl.] segir m.a. í 1., 2. og 4. mgr..:

Foreldri...öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs....

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmans í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum [um] tryggingagjald.

Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25%-49% starfi í hverjum mánuði skal þó aldrei vera lægri en sem nemur [57.057] kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50%-100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur [79.077] kr. á mánuði.

[Fjárhæðir á árinu 2001 eru breyttar frá upprunalegum lagatexta. HJ]

Í 3. mgr. 15. laganna segir:

Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Í 1. mgr. og a.-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir.:

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Til samfellds starfs telst enn fremur:

  1. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Í 1. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir:

Þegar meta á starfshlutfall starfsmanns skv. 4. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof skal fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Foreldri sem hefur unnið 86-172 vinnustundir á mánuði telst vera í 50-100% starfi en foreldri sem hefur unnið 43-85 stundir telst vera í 25-49% starfi. Þó skal jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem teljast fullt starf samkvæmt kjarasamningi.

Sé foreldri ekki í sama starfshlutfalli á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir upphafsdag fæðingarorlofs skal miða við meðaltal starfshlutfalls yfir tímabilið. Þó má foreldri aldrei vera í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 4. gr. Starfshlutfall miðast eingöngu við störf sem unnin eru á innlendum vinnumarkaði.

A sem skv. ráðningarsamningi dags. 15. nóvember 1999 hóf störf þann 7. október 1999 vann á árinu 2000 í rúma 4 mánuði og launatekjur hennar skv. staðgreiðsluskrá RSK á tímabilinu nóvember 1999-október 2000 (12 mánaða tímabil sem lýkur 2 mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs) voru samtals kr. 452.275 eða að meðaltali kr. 37.690 á mánuði. Á síðustu 6 mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs vann hún einungis í 2 mánuði, þ.e. í ágúst og september, sem miðað við 60% starfshlutfall hennar samkvæmt ráðningarsamningi er að meðaltali 20% starf.

A var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að ákvæði a.-liðar 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar feli ekki í sér að umsækjandi um greiðslur sem hefur ekki unnið í 8 mánuði á síðustu 10 mánuðunum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs geti með umsókn framvísað samkomulagi um launalaust frí frá vinnu og fengið þannig greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þrátt fyrir að vinnuframlag á síðustu 6 mánuðunum hafi að meðaltali verið minna en 25% starf."

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. maí 2001, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Hinn 28. maí 2001 bárust viðbótargögn, launaseðlar kæranda frá nóvember 1999 til og með mars 2000, svo og fyrir ágúst og september 2000.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum til A vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 15. janúar 2001 til og með 14. apríl 2001.

Þann 15. nóvember 1999 gerði B ehf. ráðningasamning við kæranda um 60% starf hjá fyrirtækinu. Kærandi og B ehf. gera síðan með sér samkomulag, dags. 1. mars 2000, um launalaust leyfi kæranda frá og með 11. mars 2000 til og með 31. júlí 2000 og að hún geti ef þannig standi á tekið viðbótarfrí án launa frá og með 1. október til og með 31. desember 2000.

Samkvæmt framangreindu samkomulagi er kæranda veitt heimild til þess að taka launalaust leyfi í ákveðinn tíma sem hún og gerir. Í viðkomandi samkomulagi um launalaust leyfi er jafnframt kveðið á um að ráðningasamningurinn sem undirritaður var 15. nóvember 1999 milli aðila skuli gilda að öðru leyti.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar með talið leyfi samkvæmt ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Upphafsdagur fæðingarorlofs er 15. janúar 2001, kærandi þarf því samkvæmt framangreindu að hafa verið samfellt í starfi sex mánuði fyrir þann tíma. Samkvæmt staðgreiðsluskrá var kærandi ekki á launaskrá í janúar 2001, þegar af þeirri ástæðu, uppfyllir hún því ekki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingastyrks staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta