Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 73/2002

Mál nr. 73/2002

Fimmtudaginn, 19. júní 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, Jóhanna Jónasdóttir og Hanna S. Gunnsteinsdóttir.

Þann 19. nóvember 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 18. nóvember 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 31. október 2002 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 8. ágúst 2002, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, svo og með bréfum dags. 17. september og 31. október sama ár.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Mér var neitað um fæðingarorlof vegna þess að ég komst ekki nokkrum sinnum til skráningar vegna atvinnuleysisbóta.

Ég var veik þá daga sem ég komst ekki til skráningar og er ég með læknisvottorð þar um og er Tryggingastofnun ríkisins með þau vottorð. Finnst mér því afar ósanngjarnt að fá aðeins fæðingarstyrk en ekki fæðingarorlof.“

Með bréfi, dags. 19. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 7. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dagsettri 18. júlí 2002 sem barst 22. júlí 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 21. ágúst 2002 vegna væntanlegrar fæðingar barns sama dag. Á umsókninni var tekið fram að móðir hefði fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 21.febrúar – 21. ágúst 2002 að fæðingu. Með fylgdi yfirlit yfir greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar frá 21. febrúar – 26. júní 2002. Þar kom fram að hún hafði ekki verið skráð tímabilin 28. febrúar- 26. mars, 30. – 31.mars, 16. - 22. maí og 1.- 2 .júní.

Tímabilin 30.- 31. mars og 1.- 2. júní skipta reyndar ekki máli vegna þess að þar var um að ræða laugardag og sunnudag en atvinnuleysisbætur eru greiddar fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 8. ágúst 2002 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Af gögnum sem hún hafi lagt fram og upplýsingum í staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hún hafi ekki verið á vinnumarkaði í mars mánuði 2002.

13. september 2002 barst læknisvottorð til atvinnurekanda vegna fjarvista dags. 5. september þess efnis að hún hefði verið óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms tímabilið 27. febrúar - 27. mars 2002. Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags 17. september var henni tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn vegna umsóknar hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og að viðbótargögnin breyti ekki fyrri afgreiðslu.

Læknisvottorð til atvinnurekanda vegna fjarvista dags. 29. október 2002 þess efnis að hún hefði verið óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms tímabilið 24. apríl – 8. maí 2002 barst með faxi 30. október og aftur 4. nóvember frá umboði Tryggingastofnunar ríkisins hjá sýslumanninum á B. Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 31. október var aftur henni tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn sem breyttu ekki fyrri afgreiðslu, synjunarbréf dags. 8. ágúst standi enn.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 kemur fram í 1. mgr. 1. gr. að það er skilyrði fyrir því að eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði að vera í atvinnuleit og fullfær til vinnu. Í IV kafla laganna er síðan fjallað um missi bótaréttar og þar segir m.a. í 2. og 3. mgr. 12. gr.:

“Þeim ... er skylt að skrá sig vikulega hjá viðurkenndum skráningaraðila. Geti umsækjandi ekki látið skrá sig vegna veikinda skal hann láta skrá sig næsta dag sem honum er unnt.

Skrái hinn atvinnulausi sig ekki á tilskildum degi skal hann sæta missi bóta fyrir þá daga sem liðnir eru frá síðustu skráningu þar til hann skráir sig á ný.“

Í ffl. og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er ekki að finna heimild til að taka tillit til læknisvottorðs um óvinnufærni vegna tímabila sem vantar í samfellda atvinnuleysisskráningu. Jafnframt verður ekki séð að kærandi hafi áunnið sér rétt á annan hátt, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar, t.d. með því að sækja um sjúkradagpeninga.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. apríl 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu í fæðingarorlofi úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Á þeim tíma sem um ræðir í máli þessu taldist enn fremur til samfellds starfs, sbr. þágildandi 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Barn kæranda er fætt 18. ágúst 2002, sem er upphafsdagur fæðingarorlofs. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hún starfaði ekki á vinnumarkaði né ávann sér rétt á annan hátt nema hluta þess tímabils, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Hvorki í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 eða reglugerð nr. 909/2000 er að finna heimild til að víkja frá skilyrði 13. gr. laganna um sex mánaða samfellt starf.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Hanna S. Gunnsteinsdóttir

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta