Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 53/2002

Mál nr. 53/2002

Þriðjudaginn, 4. mars 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 6. ágúst 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 31. júlí 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni, með bréfi dags. 2. maí 2002.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Við ákvörðun greiðslu er tekið mið af síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag. Ég var skrifuð þann 3. mars 2002 og rek ég hér síðustu 12 mánuði.

Vorið 2001 stundaði ég 100% nám við háskólann D. Sumarið 2001 vann ég hjá B í 100% starfi.

Haustið 2001 hóf ég nám við háskólann E og var skráð í 12 einingar sem jafngildir 80% námi. Eftir að nám hófst fékk ég eitt fag metið úr háskólanum D sem leiddi til þess að ég skráði mig úr því fagi og var ég þar með skráð í 9 eininga nám. Í október byrjuðu blæðingar hjá mér vegna meðgöngunnar sem enduðu með aðgerð og mér ráðlagt að hafa hægt um mig og bæta ekki á mig meira álagi í skólanum.Vorið 2002 var ég síðan aftur skráð í 12 eininga nám.

Eins og fram kemur uppfylli ég öll skilyrði til að fá fullan styrk nema þessir 3 mánuðir haustið 2001. Samkvæmt læknisráði var mér ráðlagt að hafa hægt um mig og mátti ekki bæta neinu við mig. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við einungis 50% styrk sem er rétt um 40.000 kr. á mánuði. Er rétt að borga einungis 50% þegar ég uppfylli öll skilyrði í 9 mánuði af 12? Í samtölum við starfsmenn Tryggingastofnunar hefur komið fram það sjónarmið þeirra að engu skipti hvort þeir sem eru námsmenn séu veikir á tímanum því þeir fái fæðingarstyrk en aðrir fái fæðingarorlof. Almenn jafnræðisregla laga tekur á því að þegnar séu jafnsettir þótt sama hlutnum sé gefið mismunandi nöfn. Ekki er hægt að mismuna þegnum svo herfilega að vinnandi þegnar njóti veikindaréttar en námsmenn ekki í þessu tilliti. Fer ég fram á fullan fæðingarstyrk og viðurkenningu veikinda minn enda uppfylli ég öll skilyrði Tryggingastofnunar í 9 mánuði og mun ekki fallast á ólögleg sjónarmið stofnunarinnar gagnvart veikindum mínum í 3 mánuði.“

Með bréfi, dags. 14. nóvember 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 16. desember 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 97/2000 (ffl.). Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er Tryggingastofnun ríkisins heimilað að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur. Í ffl. og reglugerðinni er ekki að finna heimild til að gera undanþágu frá skilyrðinu um samfellt 75-100% nám í a.m.k. sex mánuði vegna veikinda námsmanns.

Kærandi kveðst hafa upphaflega verið skráð í 12 eininga nám á haustönn en þar sem metið hafi verið eitt fag úr háskólanum D hafi hún skráð sig úr því fagi og verið þar sem skráð í 9 eininga námi á haustönn 2001. Auk þess hafi komið upp hjá henni veikindi vegna meðgöngunnar.

Með umsókn dags. 8. mars 2002 sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna vegna væntanlegrar fæðingar 31. mars. Með umsókninni fylgdi vottorð frá háskólanum E dags. 21. janúar um að hún væri skráður stúdent við skólann háskólaárið 2001-2002 í fullu námi og yfirlit yfir námsferil dags. sama dag þar sem fram kemur að á sumarönn 2001 hafi verið metið sem 12 einingar nám í háskólanum D, á haustönn hafi hún verið skráð í 6 fög, hvert þeirra 3 einingar eða samtals 18 einingar, en sagt sig úr þremur prófum og tekið þrjú sem hún hafi fallið í tveimur af. Á vorönn 2002 hafi hún upphaflega verið skráð í fimm fög, hvert þeirra 3 einingar eða samtals 15 einingar, en skráð sig úr einu, 3 einingum og var því skráð í 12 eininga nám.

Kæranda var með bréfi dags. 2. maí 2002 synjað um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að nám á haustönn 2001 hefði verið 9 einingar, sem nær ekki 75% námi, sé miðað við að fullt nám sé 15 einingar. Greiddur yrði lægri fæðingarstyrkur.

Almennt er miðað við að 100% nám við háskólann E nemi 15 einingum á önn. Í yfirliti yfir námsferil kemur fram að hún hafi tekið próf í þremur fögum, þ.e. 9 einingum, en fallið í tveimur af þeim. Hún lauk því 3 einingum á haustönn 2001. Það hefur ekki áhrif á mat á námshlutfall hennar á haustönn 2001 að á sumarönn var metið nám sem hún hafði áður stundað í öðrum skóla. Ekki er heldur í ffl. eða reglugerðinni að finna heimild til að taka tillit til þess þegar veikindi námsmanna á meðgöngu koma í veg fyrir að þeir stundi nám sitt.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. desember 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Samkvæmt upplýsingum frá háskólanum E er almennt miðað við að fullt nám á misseri sé 15 einingar. Það skilyrði er sett í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að um sé að ræða 75-100% samfellt nám í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Samkvæmt því yrði viðkomandi að vera í a.m.k. 75% námi í hverjum mánuði á framangreindu sex mánaða tímabili.

Kærandi elur barn 4. apríl 2002. Með hliðsjón af því er tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá apríl 2001 til og með mars 2002. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fullu námi á vorönn 2001, á haustönn 2002 var hún skráð í 9 eininga nám við háskólann E, en lauk þremur einingum og á vorönn 2002 var hún skráð í 12 eininga nám.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur. Með hliðsjón af því verður ekki talið að skráning í nám geti ein sér talist nægjanleg til að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanns í fæðingarorlofi óháð framvindu náms. Samkvæmt gögnum málsins um námsframvindu og námsárangur verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið í 75-100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi því ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta