Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 8/2005

Þriðjudaginn, 26. apríl 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 1. febrúar 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 31. janúar 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 12. nóvember 2004 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Undirrituð A, óskar eftir því að greiðslur úr fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar úr J kr. á mánuði í K kr. í samræmi við reglugerð 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks með áorðnum breytingum.

Samkvæmt 14. gr. framangreindrar reglugerðar telst umsækjandi um fæðingarstyrk hafa verið í fullu námi ef hann er í 75-100% námi við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns og hafa náð viðunandi námsárangri. Í reglugerð nr. 915/2002 um breytingar á framangreindri reglugerð nr. 909/2000 var 14. gr. breytt á þann veg að heimilt væri að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrðum um viðunandi námsárangur enda hafi hún ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna.

Undirrituð hóf nám við B-deild D-skóla haustið 2003. Áður hafði hún lokið námi við E-skóla í janúar 2003 og starfaði síðan á almennum vinnumarkaði frá febrúar þar til nám við D-skóla hófst. Í lok nóvember 2003 þurfti hún að draga úr námi vegna veikinda sem rekja mátti til meðgöngu, sjá afrit af sjúkradagpeningavottorði undirritað af G dags. 17. febrúar 2004. Þrátt fyrir veikindi tók hún próf í desember 2003 og náði tveimur af fimm prófum sem hún tók. Hins vegar hóf hún ekki aftur nám eftir áramót 2003/2004 vegna veikinda. Í kjölfar þessara veikinda leitaði hún til þjónustufulltrúa hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) til að afla sér upplýsinga um réttindi sín og hvernig hún ætti að bregðast við svo að þau skertust ekki. Að höfðu samráði við starfsmenn TR sótti hún um sjúkradagpeninga. Í framhaldi af því fór hún á atvinnuleysisbætur þar sem of langt var liðið á vorönn í D-skóla þannig að hún gæti unnið það upp og náð prófi með fullnægjandi árangri. (Í þessu sambandi má nefna að undirrituð var með hæstu meðaleinkunn úr F-deild E-skóla samanber afrit af prófskírteini þaðan.) Á haustönn 2003 vann hún hlutastarf hjá H sem jafna má við 10% starf. Hún hefur hins vegar ekki unnið þar síðan um áramót 2003/2004. Samtals námu laun hennar fyrir þessa vinnu kr. 20.287.

Þann 6. september 2004 fékk undirrituð sent yfirlit yfir greiðslufjárhæð fyrir ágúst – janúar 2005. Þar er miðað við að fæðingarstyrkur nemi J kr. í stað K kr. eins og búist hafði verið veð enda fylgt fyrirmælum starfsmanna TR. Kom í ljós þegar gengið var á fæðingarorlofsdeild TR, um ástæðu þess að ekki fengist fullur fæðingarstyrkur, að merkt hafi verið ranglega við í umsókninni og sendi því undirrituð bréf með beiðni um að umsóknin yrði endurskoðuð, sbr. Meðfylgjandi bréfi til TR dagsett 3. nóvember 2004. Því bréfi var aftur hafnað.

Það er mat undirritaðrar að hún uppfylli skilyrði um greiðslu á fullum fæðingarstyrk sem er nú K kr. þar sem hún hafi verið skráð í fullt nám við viðurkennda menntastofnun á Íslandi en vegna heilsufarsástæðna þurfti hún að hætta námi fyrr en gert var ráð fyrir. Þegar það var ljóst leitaði hún til starfsmanna TR til að fá upplýsingar um það hvernig hún ætti að halda í réttindi sín samanber hér að framan. Það er ljóst að það er ekki markmið laganna að fæðingarstyrkur skerðist vegna veikinda á meðgöngu sem hafa áhrif á námsframvindu móður og því erfitt að átta sig á því á hverju úrskurður fæðingarorlofsdeildar TR byggist.“

 

Með bréfi, dagsettu 2. febrúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 16. febrúar 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Kærandi sótti með umsókn, dags. 24. maí 2004, sem móttekin var 25. maí 2004, um fæðingarstyrk, sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi, í sex mánuði frá fæðingardegi barns. Umsókn hennar var vegna barns, sem fætt er 1. ágúst 2004, en áætlaður fæðingardagur þess var 5. ágúst 2004.

Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 24. maí 2004, námsferilsyfirlit D-skóla, dags. 16. febrúar 2004, greiðsluseðill atvinnuleysisbóta, dags. 18. maí 2004, sjúkradagpeningavottorð læknis, dags. 17. febrúar 2004 og vottorð tveggja launagreiðenda, annars vegar H, dags. 10. mars 2004 og hins vegar I, dags. 25. mars 2004.

Þá lágu einnig fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, auk upplýsinga frá sjúkratryggingasviði Tryggingastofnunar ríkisins um sjúkradagpeningagreiðslur til kæranda.

Lífeyristryggingasvið sendi kæranda greiðsluáætlun, dags. 6. september 2004, þar sem fram kom að samþykkt hefði verið umsókn hennar um fæðingarstyrk, sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi, í sex mánuði frá og með ágúst 2004.

Þann 5. nóvember 2004 var móttekið bréf kæranda, dags. sama dag, þar sem fram kom að misskilnings hefði gætt hjá kæranda við útfyllingu umsóknar hennar um fæðingarstyrk og hún því ranglega sótt um fæðingarstyrk, sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi, í stað þess að sækja um fæðingarstyrk sem námsmaður.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 12. nóvember 2004, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um fæðingarstyrk hefði verið endurskoðuð að beiðni hennar. Enn fremur var kæranda í bréfi þessu tilkynnt að umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna væri synjað á þeim grundvelli að hún hvorki uppfyllti almenna skilyrðið um 6 mánaða samfellt nám né skilyrði undanþáguheimildar 14. gr. a. reglugerðar nr. 909/2002, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Samkvæmt framlögðum gögnum var kærandi skráð í fullt nám eða 15 einingar á haustönn 2003. Lauk hún 6 þeirra með tveimur prófum en féll í þremur prófum til samtals 9 eininga. Á vorönn 2004 var kærandi skráð í 15 einingar en samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í kæru hóf hún ekki nám á vorönn 2004 vegna veikinda. Með vísan til þessa telur lífeyristryggingasvið kæranda ekki uppfylla framangreint skilyrði um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðunum fyrir fæðingu barns hennar.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn sem barn fæðist, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 14. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Í 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getið stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.

Vegna fyrirliggjandi upplýsinga um veikindi kæranda á meðgöngu og greiðslu sjúkradagpeninga til hennar var tekið til athugunar hvort undanþáguheimild 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, ætti við um aðstæður kæranda. Kærandi var, eins og að framan er getið, sannanlega skráð í fullt nám bæði á haustönn 2003 og vorönn 2004. Kærandi sótti um sjúkradagpeninga og var af hálfu sjúkratryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins samþykkt að greiða henni sjúkradagpeninga í 53 daga eða frá 15. febrúar til 7. apríl 2004. Samkvæmt upplýsingum frá sjúkratryggingasviði Tryggingastofnunar ríkisins var kærandi talin eiga rétt á sjúkradagpeningum frá 1. febrúar 2004 og hófust greiðslur til hennar þann 15. febrúar þegar biðtíma hennar eftir greiðslunum lauk.

Kærandi fékk þannig hvorki greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður á haustönninni 2003 né var á biðtíma eftir þeim á þeim tíma. Því telur lífeyristryggingasvið að kærandi uppfylli ekki skilyrði þau sem sett eru í 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002 og þar með að kærandi geti ekki byggt rétt til fæðingarstyrks sem námsmaður á þeim grunni.

Vegna fyrirliggjandi upplýsinga um að kærandi hefði fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 26. apríl 2004 og teldist þar með vera í samfelldu starfi samkvæmt b-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. a-lið reglugerðar nr. 186/2003, hefur jafnframt verið tekið til athugunar hvort undanþáguheimild 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001, ætti við um aðstæður kæranda.

Niðurstaða lífeyristryggingasviðs var að síðastnefnd undanþáguheimild ætti ekki við um aðstæður kæranda, þar sem kærandi hafði ekki lokið einnar annar námi þegar greiðsla atvinnuleysisbótanna hófst á þann hátt að um væri að ræða samfellt nám og starf í a.m.k. sex mánuði.

Vegna þess sem fram kemur í kæru kæranda varðandi það að hún hafi leitað til starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins til að fá upplýsingar um það hvernig hún ætti að halda í réttindi sín og farið eftir þeim leiðbeiningum sem henni voru veittar skal tekið fram að ómögulegt er að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar voru veittar, við hvaða forsendur þær miðuðust eða hvaða skilningur var lagður í þær af hálfu kæranda. Þá verður ekki séð að gefnar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi til greiðslna enda eru þau réttindi og skilyrði þeirra bundin í lög.

eð vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. ffl.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 22. febrúar 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. sbr. reglugerð nr. 915/2002 skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur.

Kærandi elur barn 1. ágúst 2004. Með hliðsjón af því er tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá 1. ágúst 2003 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt upplýsingum frá D-skóla telst fullt nám vera 15 einingar á misseri. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi var skráð í nám á haustmisseri 2003, hún var skráð í 15 einingar, en féll í 9 einingum og lauk sex einingum. Hún var einnig skráð í 15 eininga nám á vormisseri 2004 en hóf ekki nám vegna veikinda. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði um sex mánaða samfellt nám á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Í 14. gr. a reglugerð nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðarbreytingar nr. 915/2002 er kveðið á um heimild til að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þótt hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 14. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum frá þeim tíma.

Kærandi var skráð í fullt nám bæði á haustmisseri 2003 og vormisseri 2004. Samkvæmt sjúkradagpeningavottorði var hún óvinnufær frá 1. desember 2003 Hún fékk greidda sjúkradagpeninga frá 15. febrúar 2004 til 7. apríl 2004. Réttur til greiðslu sjúkradagpeninga stofnaðist ekki frá 1. desember 2003 þar sem kærandi stundaði 10% starf á þeim tíma, en lauk störfum 31. janúar 2004. Þar sem kærandi fékk ekki greidda sjúkradagpeninga né var á biðtíma eftir dagpeningum á haustmisseri 2003 er eigi uppfyllt skilyrði ákvæðis 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðarbreytingar nr. 915/2002 um undanþágu frá viðunandi námsárangri og/eða ástundun vegna heilsufarsástæðna.

Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sbr. 1. gr. reglugerðarbreytingar nr. 969/2001 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 14. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Þar sem kærandi hafði ekki lokið einu misseri af námi við D-skóla kemur þetta ákvæði þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar. Önnur undanþáguákvæði í 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 koma ekki til álita.

Kærandi uppfyllir ekki skilyrði um sex mánaða samfellt nám á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 19. gr. ffl. og 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Hún uppfyllir heldur ekki skilyrði 14. gr. og 14. gr. a. sömu reglugerðar um heimild til undanþágu frá því skilyrði. Með hliðsjón af því hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

    

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta