Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 11/2005

Föstudaginn, 13. maí 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. febrúar 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 24. nóvember 2004 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„A var að vinna og bjó í B-landi til aprílloka 2004 og var með fullgilda pappíra þar. Hún kom til Íslands í byrjun maí 2004 og byrjaði að vinna strax eftir giftingu þann 10. maí. Hún borgaði öll gjöld hér á landi í 6 mánuði fyrir fæðingu eins og lög Tryggingastofnunar kveða á um. Hún fékk fullt dvalar- og atvinnuleyfi þann 4. júní 2004 en borgaði gjöld einnig fyrir maímánuð. Ég talaði við Vinnumálastofnun og skattayfirvöld sem báðir sögðu í lagi að hún byrjaði að vinna þó svo að leyfin væru ekki tilbúin þar sem það væri bara formsatriði. Nú hafnar Tryggingastofnun greiðslum út af sama formsatriði. A hefði getað unnið einum mánuði lengur í B-landi og fengið það metið ef ríkisstofnanir hérna hefðu sagt strax að hún yrði að bíða eftir stimplun á pappíra.“

 

Með bréfi, dagsettu 15. febrúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 1. mars 2005. Í greinargerðinni segir:

Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 15. september 2004, sem móttekin var 16. september 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 1. nóvember 2004 að telja. Umsóknin varðar barn sem fætt er 12. nóvember 2004 en áætlaður fæðingardagur þess var 19. nóvember 2004.

Umsókn kæranda fylgdu vottorð um væntanlegan fæðingardag, dags. 14. september 2004, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 15. september 2004 og launaseðlar fyrir júlí og ágúst 2004. Þá lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda staðfest yfirlýsing (E-104) útgefin af D-bæjarfélagi 24. júní 2004, upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 24. nóvember 2004, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2000 um fæðingar- og foreldraorlof að hafa verið samfellt í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs hennar.

Eftir að umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafði verið synjað barst lífeyristryggingasviði frá eiginmanni hennar afrit af dvalarleyfiskorti hennar og launaseðlar fyrir tímabilið maí til og með október 2004.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í 3. mgr. 8. gr. ffl. er kveðið á um að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda gat því samkvæmt 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. í síðasta lagi verið fæðingardagur barns hennar en eins og að framan greinir er barn hennar fætt 12. nóvember 2004. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. er því frá 12. maí 2004 til fæðingardags barnsins.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum kom kærandi til Íslands í maí 2004 og hóf í þeim mánuði störf hjá einkahlutafélagi eiginmanns hennar. Kærandi lauk tryggingatímabili í B-landi þann 10. maí 2004 og var skráð á utangarðsskrá Hagstofu Íslands frá 7. maí 2004 til 4. júní 2004 er henni var veitt dvalarleyfi hér á landi með rétti til atvinnuþátttöku.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 er útlendingi óheimilt að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt hér á landi nema leyfi hafi verið veitt til þess samkvæmt lögunum. Slíkt leyfi var gefið út til handa kæranda með útgáfu fyrrnefnds dvalarleyfis hennar þann 4. júní 2004. Lífeyristryggingasvið telur ekki vera unnt að fallast á að kærandi hafi byrjað að ávinna sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði fyrr en hún hafði fengið tilskilin leyfi til atvinnuþátttöku á innlendum vinnumarkaði, þ.e. frá 4. júní 2004. Því telur lífeyristryggingasvið að kærandi hafi þegar af þeirri ástæðu ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði við fæðingu barns hennar þann 12. nóvember 2004, þar sem hún á þeim tíma hafði ekki starfað með lögmætum hætti á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði.

Með vísan til alls framangreinds og framlagðra gagna telur lífeyristryggingasvið kæranda ekki uppfylla skilyrðið um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og því hafi verið rétt að synja umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Að lokum þykir rétt að taka fram að lífeyristryggingasvið hefur ekki óskað eftir gögnum sem staðfesta hvaða dag í maí kærandi byrjaði að starfa fyrir einkahlutafélag eiginmanns hennar né heldur hvort hún hafi verið á vinnumarkaði 1. – 11. nóvember 2004.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 8. mars 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Foreldri öðlast rétt skv. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofs­sjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi hjá fyrirtækinu Laufás-Trulli ehf. frá maí 2004 til og með október sama ár. Samkvæmt staðgreiðsluskrá fékk hún fyrir hvern þann mánuð laun að fjárhæð 120.000 kr. Áður en hún fluttist til Íslands hafði hún búið og starfað í B-landi og lauk tryggingatímabili hennar þar þann 10. maí 2004.

Kærandi stofnaði til hjúskapar með íslenskum ríkisborgara 7. maí 2004. Samkvæmt c-lið 14. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga eru erlendir makar íslenskra ríkisborgara undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi.

Kærandi ól barn 12. nóvember 2004 en áætlaður fæðingardagur þess hafði verið 19. nóvember. Með umsókn dagsettri 15. september 2004 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. nóvember 2004. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 1. maí 2004 til 1. nóvember sem telst upphafsdagur fæðingarorlofs.

Með hliðsjón af framangreindu og fyrirliggjandi gögnum telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli 1. mgr. 13. gr. ffl.

 

    

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta