Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 61/2008

Fimmtudaginn, 8. janúar 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 8. október 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 5. október 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 9. september 2008 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Samkvæmt úrskurði Fæðingarorlofssjóðs á ég ekki rétt á greiðslu frá sjóðnum þar sem ég hef ekki náð 25% starfshlutfalli, hvorki sem launþegi né sjálfstætt starfandi sem B.

Ég fer fram á að tekjur mínar sem sjálfstætt starfandi sem B og launþegi verði lagðar saman og metnar til útreikninga fyrir greiðslur úr fæðingarorlofssjóði, Einnig að þær greiðslur séu viðmiðið við útreikningana en ekki starfaflokkur hjá ríkisskattstjóra.

Síðustu tvö ár hef ég hlotið starfslaun sem B hjá Menntamálaráðuneytinu og auk þess kennt nokkra mánuði á ári við D-skólann auk annarra smærri verkefna Ég hef því vissulega verið starfandi á vinnumarkaði bæði sem sjálfstætt starfandi og sem launþegi þó að launin hafi ef til vill ekki verið mjög há Laun mín sem sjálfstætt starfandi sem B eru sveiflukennd en sem betur fer tekst mér að lifa af þessum

launum. Mér finnst því eðlilegt að litið sé til þessara launa og þau lögð saman þegar úrskurðað er um hversu háar greiðslur ég á að fá úr Fæðingarorlofssjóði, því af fæðingastyrknum einum saman er ekki hægt að lifa.“

 

Með bréfi, dagsettu 9. október 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 10. nóvember 2008. Í greinargerðinni segir:

„Þann 9. september 2008 sendi Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður kæranda bréf þar sem honum var bent á að skv. upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra væri ráðið að hann hefði ekki verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli mánuðina apríl – september 2008. Jafnframt var kæranda bent á hvað teldist til þátttöku á vinnumarkaði.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna eru skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum telst starfsmaður skv. lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er aftur á móti sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, segir að þegar meta skuli starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008 segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Barn kæranda er fætt þann Y. október 2008. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er frá Y. apríl 2008 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á tímabilinu sbr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra var kærandi með X kr. í laun frá F í júlí 2008. Hann er með X kr. á mánuði í reiknað endurgjald mánuðina apríl – júní og lága greiðslu frá E í apríl og maí. Kærandi er B og ætti því að vera í starfaflokki C5 en samkvæmt þeim flokki telst fullt starf vera Y kr. á mánuði. Kærandi hefði því þurft að reikna sér að lágmarki Z kr. á mánuði til að teljast vera í 25% starfi. Kærandi hefur auk þess ekki sýnt fram á þátttöku á innlendum vinnumarkaði frá ágúst og fram að fæðingu barns. Því var talið að kærandi hefði ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf til kæranda dags. 9. september 2008. Kærandi á þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks lægri sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 24. nóvember 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. ffl. er starfsmaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. er sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Þegar foreldri hefji töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr., skuli þó miða við þann dag er foreldrið hefur fæðingarorlof að því er það foreldri varðar.

Í 1. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Í 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, segir að þegar meta skuli starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir.

Fæðingardagur barns kæranda er Y. október 2008. Samkvæmt því er sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. tímabilið Y. apríl til Y. október 2008.

Samkvæmt útskriftum úr skrám ríkisskattstjóra reiknaði kærandi sér X kr. endurgjald á mánuði vegna eigin reksturs í apríl, maí og júní 2008. Frá E fékk hann greidd laun í apríl X kr. og í maí X kr. Í júlí 2008 fékk hann launagreiðslu að fjárhæð X kr. frá F. Ekki koma fram launagreiðslur eða reiknað endurgjald í skrám ríkisskattstjóra í ágúst 2008 og í september er eingöngu launagreiðsla frá E X kr.

Það sem fram kemur í gögnum málsins um tekjur kæranda sex mánuði fyrir fæðingardag barns, staðfestir ekki að hann uppfylli það skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. að hafa þann tíma verið í samfelldu starfi á vinnumarkaði í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 1. mgr. 13. gr. a. Samkvæmt því verður að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta