Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 13/2005

Þriðjudaginn, 23. ágúst 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 23. febrúar 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 21. mars 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 29. desember 2004 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Kærandi hefur stundað nám í B-fræði við E-háskóla síðastliðin 5 ár (frá 1999). Fluttist til (haft lögheimili) Íslands sumarið 2003 og ætlar að ljúka lokaárinu á Íslandi. Kærandi eignast svo barn í september 2004. Ágreiningur er á milli kæranda og TR um hvort nám á 10 önn teljist fullt nám (75-100) eða ekki. Lauk kærandi BA gráðu í faginu sumarið 2002 og stefnir á að ljúka mastersgráðu næsta sumar (sumarið 2005) er fæðingarorlofstíma hennar lýkur.

Annir eru að jafnaði í 5 mánuði nema á lokaári þar sem lengd fer eftir verknámsstað og rannsóknum að hverju sinni. Einnig er einingafjöldi mjög misjafn á milli anna. Enda er námið uppbyggt svo að best henti námi sem samanstendur bæði af akademískum kröfum og verklegri færni í B-fræði. Ekki er mögulegt að velja sér hvaða áfangar og hvenær þeir eru teknir og prófum ekki raðað upp eftir einingum. Námið er mjög fastmótað og miðast við að útskrifa einstaklinga sem bæði eru hæfir til að sinna sjúklingum sínum og að vinna viðurkennda rannsóknarvinnu. Námið er samþykkt af LÍN.

9. önnin hófst í ágúst 2003 er kærandi byrjar í launalausu verknámi á D. Þessu verknámi lauk í desember. Í janúar var verkefnagerð og prófundirbúningur og próf fór fram í F-borg í febrúar 2004. Þetta próf er það eina á 9. önn og jafnframt seinasta prófið í náminu. Það jafngildir 42 einingum.

10. önnin hófst er heim var komið að prófi loknu. Henni lýkur með mastersritgerð. Kærandi undirbjó og framkvæmdi rannsókn til að byggja ritgerðina á. Mikil áhersla er lögð á að byggja svona stór verkefni á rannsóknum bæði í þessu námi sem og öðrum sambærilegum. Sérstaklega leggja Íslendingar mikið upp úr rannsóknarvinnu og lítið mark tekið á verkefnum sem ekki byggja á rannsóknarlegum grunni. Mastersritgerðin telst til 30 eininga. Meðfylgjandi er tímayfirlit sem sýnir hvernig og hvers vegna nauðsynlegt var að taka svona langan tíma í þetta lokaverkefni.

Rannsókninni lauk í september 2004 stuttu fyrir fæðingu barnsins og hefur kærandi því ekki náð að ljúka ritgerðinni. Þetta námsferli er með fullu samþykki háskólans og deildarinnar og telst eðlilegur námsárangur og námsframvinda.

Kærandi vill auk þess koma á framfæri kvörtun yfir Tryggingastofnun sem dró málið á langinn í marga mánuði með því að biðja um fleiri og fleiri upplýsingar og gögn, erlendis frá, sem síðan ekki hefur verið tekið mark á...

Þar sem ekki er ágreiningur um að nám á 9. önn uppfyllir kröfur Tryggingastofnunar (september-febrúar) snýst málið um sjötta mánuðinn til að kröfur, um að a.m.k. sex mánaða samfellda mánuði, hafi verið að ræða. Kærandi telur sig hafa verið í fullu námi (100%) síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns síns. Hún hefur lagt fram vottorð frá yfirmönnum deildarinnar í háskólanum þar sem þetta er staðfest. Starfsmenn Tryggingastofnunar hafa valið að taka ekki mark á því vottorði. Þeir óskuðu eftir að fá að senda skriflegar fyrirspurnir til deildarinnar úti og var þeim fyrirspurnum svarað og studdu þau mál kæranda. Aftur velja starfsmennirnir að taka svörin ekki til greina. Í reglugerðinni á heimasíðu TR og í þeim upplýsingum sem kærandi fékk þegar hún kynnti sér málið upphaflega frá starfsmönnum TR, kemur hvergi fram að önn teljist vera ákveðinn mánaðarfjöldi, né að nám þurfi að vera visst margar einingar til að uppfylla kröfur um fullt nám... Kærandi vill einnig mótmæla því að henni sé refsað fyrir að vinna veglegt lokaverkefni og fyrir þær ströngu reglur sem gilda á Íslandi í sambandi við rannsóknir (Vísindasiðanefnd) og hversu tímafrekt sé að uppfylla þær kröfur.

Meðfylgjandi eru vottorð frá skólanum ásamt því að gögn eru lögð fram sem sýna tímalínu á 10. önn. Þær upplýsingar hafa starfsmenn TR ekki haft áhuga á. Mikilvægt var að taka tillit til þátttakenda rannsóknarinnar og meðferðin var á þeirra forsendum og var þess vegna nauðsynlegt að nota þrjá mánuði í sjálfa meðferðina. Ekki var mögulegt að framkvæma rannsóknina í þeirri mynd sem hún var skipulögð og útvega fyrir það tilskildu leyfi á styttri tíma.“

 

Með bréfi, dagsettu 7. apríl 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 18. apríl 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Kærandi sótti með umsókn, dags. 28. júlí 2004, sem móttekin var 10. ágúst 2004, um fæðingarstyrk námsmanna í þrjá mánuði frá 1. október 2004 að telja. Umsókn hennar varðar barn, sem fætt er 22. september 2004, en áætlaður fæðingardagur þess var 19. september 2004.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu fyrir vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 31. júlí 2004, yfirlit yfir námsframvindu kæranda við E-háskóla dags. 29. júlí 2004, staðfestingar E-háskóla, dags. 6. júlí 2004 og 19. október 2004, upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands og staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, auk tölvupóstssamskipta starfsmanns lífeyristryggingasviðs við kæranda og starfsmann E-háskóla.

Með bréfum lífeyristryggingasviðs, dags. 20. september, 23. september og 17. nóvember 2004, hafði verið óskað eftir frekari upplýsingum og gögnum frá kæranda varðandi nám hennar.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 29. desember 2004, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrðið um 6 mánaða samfellt nám á síðustu 12 mánuðunum fyrir fæðingardag barns hennar, þar sem ekki lægju fyrir gögn sem sýndu námsframvindu hennar frá febrúar 2004. Í bréfinu var tekið fram að þess í stað yrði kæranda greiddur fæðingarstyrkur sem foreldri utan vinnumarkaðar í 3 mánuði frá 1. október 2004 að telja og var kæranda jafnframt sent greiðsluyfirlit, dags. 29. desember 2004, varðandi þær greiðslur.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er, eins og að framan greinir, fætt 22. september 2004. Til að fullnægja skilyrðunum um fullt nám þurfti kærandi því að hafa verið í 75-100% samfelldu námi í a.m.k. sex mánuði á tólf mánaða tímabili fyrir fæðingu barnsins, þ.e. frá 22. september 2003. Af hálfu lífeyristryggingasviðs var á það fallist að kærandi hefði, sbr. framlögð gögn, stundað fullt nám í skilningi ffl. í E-háskóla á tímabilinu 22. september 2003 til og með 6. febrúar 2004, er hún lauk 9. önn í námi sínu, eða í u.þ.b. 4 ½ mánuð.

Fyrir liggur jafnframt að kærandi átti eftir eina önn í námi sínu og var hún skráð í það nám. Skyldi nám hennar þessa síðustu önn felast í mastersverkefni. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu E-háskóla skyldi mastersverkefni á 10. önn í námi kæranda svara til ½ árs náms, þ.e. einnar annar náms, sem næmi 30 ects. Kærandi hafði ekki lokið þessari síðustu önn sinni í námi við fæðingu barns hennar þann 22. september 2004. Þá hafa engar staðfestar upplýsingar verið lagðar fram um að kærandi hafi sýnt viðunandi námsárangur umrædda önn.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám í ákveðnum tilvikum. Þannig er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 14. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Í 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getið stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu engar upplýsingar fyrir sem bentu til að einhver þessara undanþáguheimilda, frá skilyrðinu um að foreldri skuli hafa verið í 75–100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ætti við um aðstæður kæranda.

Með vísan til framangreinds, einkum þess að kærandi hefur engin staðfest gögn lagt fram um framvindu náms hennar frá 6. febrúar 2004, sem var einnar annar nám til 30 ects, telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. ffl.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 19. apríl 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 27. apríl 2005, þar segir meðal annars:

„Ágreiningur undirritaðar og TR liggur í hve eðlilegur námstími fyrir lokaverkefni sé. TR bendir á klausu á heimasíðu E-háskóla þar sem stendur að eðlileg önn sé ½ ár–ein önn. Ég hef aftur á móti bent þeim á að þótt að almennt í E-háskóla sé miðað við að 10. önnin taki aðeins 5 mánuði er það ekki svo í raun í deild B-fræði. Ástæður þess eru nokkrar og velþekktar og viðurkenndar innan deildarinnar.

Sú stærsta er krafa samfélagsins um að mastersritgerðir séu byggðar á rannsóknum. Rannsóknir eru tímafrekar og þess vegna hvetur háskólinn nemendur sína að nýta verknámstíma 9. annar til þess. Í mínu tilfelli var ég í verknámi á D. Allir þeir sjúklingar sem ég vann með lágu banaleguna og taldi ég það ekki forsvaranlegt að leggja á þá eða aðstandendur þeirra að taka þátt í slíku. Enda er slíkum rannsóknum á svona viðkvæmum sjúklingum haldið í lágmarki og ekki framkvæmdar nema óframkvæmanlegt sé að afla upplýsinga annarsstaðar frá. Mjög mikil áhersla er lögð á rannsóknarvinnu á Íslandi og einfaldlega nauðsynlegt fyrir mig sem er að ljúka námi sem er frekar nýtt og óþekkt á Íslandi að framkvæma slíka.

Önnur ástæða þess að lokaverkefnið tók svona langan tíma er einfaldlega kerfið á Íslandi. Samskipti við þær tvær stofnanir sem að ég þurfti sem mest að kljást við í undirbúningi rannsóknarinnar, Vísindasiðanefnd og Landspítalinn voru tímafrek. Starfsmaður vísindasiðanefndar tjáði mér að hún væri sú strangasta í Evrópu og það er ekki einfalt mál að uppfylla hennar skilyrði. Eins og ég hef bent á áður varð meðferðartíminn einnig að henta sjúklingunum sem voru í erfiðri krabbameinsmeðferð og því tók rannsóknin/meðferðin sjálf þrjá mánuði...“

Kæranda var sent bréf dagsett 2. júní 2005 þar sem úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála fór fram á nánari upplýsingar um nám hennar á vorönn 2004. Með tölvupósti 22. júní 2005 bárust upplýsingar frá kæranda um að hún gæti ekki fengið neitt nánar frá skólanum þar sem um sjálfstætt háskólanám væri að ræða og hún hefði unnið þetta á Íslandi.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kærandi ól barn 22. september 2004. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 22. september 2003 fram að fæðingardegi barnsins.

Staðfest er að kærandi var við nám í E-háskóla frá 22. september 2003 í B-fræði. Þann 6. febrúar 2004 lauk hún við 9. önn námsins og hóf síðan undirbúning lokaverkefnis. Þegar barnið fæðist hafði hún ekki lokið við það verkefni.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi eftir lok 9. annar að undirbúa og framkvæma rannsókn sem mastersritgerð hennar skyldi byggð á. Það er mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að gögn málsins staðfesti ekki að hún hafi verið í fullu námi eftir lok 9. annar námsins. Hún uppfyllir því ekki það skilyrði að hafa verið í sex mánuði í námi á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta