Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 24/2006

Þriðjudaginn, 27. júní 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 5.maí 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A dagsett 3. maí 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 20. mars 2006, um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Þann 19. apríl ´04 eignaðist ég barn og fór í 15 mánaða fæðingarorlof og lét dreifa fæðingarorlofsgreiðslunni á þann tíma. 20. mars ´06 eignaðist ég annað barn og var því bara á vinnumarkaðnum í 6 mánuði. Þar sem stutt er á milli barnanna minna finnst mér ekki ásættanlegt að miða við greiðsludreifingu frá fyrri fæðingarorlofsgreiðslu. Fékk ég senda greiðsludreifingu fyrir fæðingarorlof mitt frá mars 2006 - mars 2007. Samkvæmt því eru mánaðarlaun mín X kr á mánuði. Réttu laun mín á vinnumarkaðinum voru um X kr á mánuði. Finnst mér tekjufallið hjá minni fjölskyldu mikið þar sem að þið miðið við mánaðargreiðslur síðustu 2 árin.“

 

Með bréfi, dagsettu 9. maí 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 15. maí 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með ódagsettri umsókn sem móttekin var 25. janúar 2006, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 12 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 18. mars 2006. Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 11. janúar 2006, tilkynning um fæðingarorlof til vinnuveitanda, dags. 18. janúar 2006 og launaseðlar kæranda, dags. 1. og 31. desember 2005. Þá lágu ennfremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda, upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Þá hafði lífeyristryggingasviði þegar borist vottorð vinnuveitanda kæranda, dags. 1. febrúar 2006 um að hún hafi lagt niður störf vegna veikinda frá og með 27. janúar 2006.

Varðandi lengingu á fæðingarorlofi kæranda vegna veikinda á meðgöngu, þá leitaði lífeyristryggingasvið eftir upplýsingum frá vinnuveitanda kæranda um veikindarétt kæranda. Bárust lífeyristryggingasviði þær upplýsingar frá vinnuveitanda kæranda með tölvuskeyti, dags. 14. mars 2006, að kærandi héldi fullum launum fram að áætluðum fæðingardegi. Sendi lífeyristryggingasvið kæranda því bréf, dags. 15. mars 2006, þar sem fram kom að hún teldist ekki eiga rétt á lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu, þar sem hún héldi fullum launum í veikindunum frá vinnuveitanda, sbr. 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Er þessari ákvörðun lífeyristryggingasviðs ekki kærð í kæru kæranda.

Barn kæranda fæddist 20. mars 2006, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000, stofnast réttur til töku fæðingarorlofs við fæðingu barns.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þá segir einnig að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir enn fremur að mánaðarleg greiðsla til foreldris á innlendum vinnumarkaði, sem sé starfsmaður og leggi niður störf, skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þar segir einnig að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og að jafnframt teljist til launa þær greiðslur sem koma til samkvæmt a.-d. liðum 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði, en skv. a. lið telst þar m.a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum taldist kærandi hafa verið starfandi á innlendum vinnumarkaði, í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, almanaksárin 2004 og 2005. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafði kærandi tekjur allt framangreint tímabil.

Kærandi tekur fram að henni þyki ekki ásættanlegt að miðað sé við greiðslur til hennar úr fyrra fæðingarorlofi, þegar meðaltekjur hennar til grundvallar nýju fæðingarorlofi séu ákvarðaðar. Telur kærandi sig verða fyrir miklu greiðslufalli sökum þessa og að ákvarðaðar greiðslur til hennar úr Fæðingarorlofssjóði endurspegli ekki rauntekjur hennar á vinnumarkaði.

Lífeyristryggingasvið dregur ekki í efa að þær tekjur sem fram koma í staðgreiðslukerfi ríkisskattstjóra frá ágústmánuði 2005, gefi rétta mynd af rauntekjum kæranda þegar hún stundar fulla vinnu hjá vinnuveitanda sínum. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að þau úrræði og heimildir sem lífeyristryggingasvið hefur til að ákvarða meðallaun foreldris fyrir viðmiðunartímabilið eru skýrt tilgreind í lögum og reglugerð. Meðal annars kemur fram í a-lið 2. mgr. 3. gr., sbr. 3. ml. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, að orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, skuli teljast til launa sem leggja skal til grundvallar meðaltali heildarlauna skv. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Hefur þessi túlkun lífeyristryggingasviðs á framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum verið staðfestur með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 33/2005, dags. 15. nóvember 2005.

Þá greinir í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004 að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Hefur lífeyristryggingasvið hagað verklagi sínu til samræmis við framangreint ákvæði í þeim skilningi að í því fælist bindandi og tæmandi talning á heimildum til ákvörðunar á tekjugrundvelli foreldris. Fær túlkun þessi einnig stoð í athugasemdum við frumvarp að 5. gr. laga nr. 90/2004 þar sem greinir að gert sé ráð fyrir að einungis verði greitt úr fæðingarorlofssjóði á grundvelli skattframtala, staðgreiðsluskrár og tryggingagjaldsskrár skattyfirvalda.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að greiðsluáætlun sem send var kæranda, dags 20. mars 2006, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 17. maí 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004 skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar skulu að auki teljast til launa greiðslur sem koma til skv. a-d liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Greiðslur í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr., teljast samkvæmt því með launum við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Til þátttöku á vinnumarkaði teljist enn fremur orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Barn kæranda er fætt 20. mars 2006. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2004 og 2005 sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna allt viðmiðunartímabilið, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. og 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Greiðslur sem kærandi fékk við töku fæðingarorlofs á viðmiðunartímabilinu skulu lagðar til grundvallar við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eins og önnur laun hennar sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Engar undantekningar er að finna í lögunum eða reglugerðinni hvað þetta varðar. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um breytingu á útreikningi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest. 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta