Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 27/2006

Þriðjudaginn, 12. september 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 29. maí 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 24. maí 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 11. maí 2006 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég er námsmaður í fullu námi og er búin að vera það síðastliðin 2 ½ ár frá því að ég ákvað að klára stúdentsprófið mitt og fara í háskóla erlendis. Ég er búin að vera að taka allt að 28 einingar á önn á meðan ég var í B-framhaldsskóla en á vorönn 2005 átti ég 18 einingar eftir til þess að uppfylla inntökukröfuna fyrir D-fræði hjá E-háskóla í F-borg. Ég skráði mig í eftirfarandi 18 einingar: STÆ 303, STÆ 403, EÐL 103 og LOL 103. En þar sem STÆ 403 og EÐL 203 byggir á STÆ303 og EÐL 103 sá ég ekki fram á að geta staðist alla áfangana í einu og samdi við kennara skólans um að fá að taka lokaprófið í STÆ 403 og EÐL 203 í lok júní í staðin fyrir lok maí. Ég varð að klára fyrir 1. júlí, þar sem skólinn í G-landi gerði kröfur um það. Þannig drógust lokaprófin í þessum tveimur áföngum fram í júní og þess vegna stendur á stúdentsskírteininu að ég hafi lokið þessum síðustu einingum á sumarönn, en ekki vorönn 2005.

Mér finnst það svolítið hart að synja mér um fæðingarstyrkinn vegna þessa. Ég tel að ég sé búin að vera í jafn miklu námi þrátt fyrir að síðustu prófin hafi verið tekin 4 vikum seinna. Ég hefði auðvitað gjarnan bara viljað vera í sumarfríi í júní í staðin. Ég hefði verið í sumarfríi allt sumar, þá hefði þetta væntanlega ekki verið neitt vandamál með styrkinn. Ég hef ekki haft neinar tekjur meðan á náminu á Íslandi stóð og hef heldur engar núna. Þar sem ég er búsettur í G-landi á ég engan annan rétt til bóta hjá Tryggingastofnun. Ég á heldur engin réttindi í G-landi.“

 

Með bréfi, dagsettu 15. júní 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 23. júní 2006. Í greinargerðinni segir m.a.:

„Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 10. febrúar 2006 og þarf því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að líta hvort tveggja til náms hans á vor-, sumar- og haustönn 2005.

Samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja mun almennt vera miðað við að fullt nám (100%) við E-háskóla sé 60 ECTS einingar á einu skólaári. Samkvæmt upplýsingum frá E-háskóla, og upplýsingum sem lífeyristryggingasvið hefur aflað sér frá vefsíðu skólans, skiptist námsárið í fjóra hluta, en þó sé ekki hægt að ganga út frá því að 15 ECTS einingar reiknist sem 100% nám á hverjum fjórðungi, sökum mismunandi framvindureglna í þeim tveimur áföngum sem stundaðir eru á fyrsta árinu. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi verið skráður í fullt nám á hausti 2005 við E-háskóla. Þá kemur fram að hann hafi lokið fyrsta áfangaprófi með fullnægjandi árangri. Var það því mat lífeyristryggingasviðs að kærandi hafi stundað fullt nám í skilningi framangreindra ákvæða frá 1. september 2005.

Nám kæranda við E-háskóla fram að fæðingu barns nær þó aðeins fimm mánuðum af þeim sex, sem gerð er krafa um, skv. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Verður því einnig að líta til náms kæranda á tímabilinu 10. febrúar 2005 til 1. september 2005.

Almennt mun vera við það miðað, og hefur lífeyristryggingasvið áður fengið á því staðfestingu, að fullt nám (100%) við B-framhaldsskóla teljist vera 17,5 einingar á önn. Samkvæmt upplýsingum frá B-framhaldsskóla var kærandi skráður í 9 einingar á vorönn 2005 og 6 einingar á sumarönn 2005. Stóðst kærandi öll námskeiðin. Þá liggur fyrir staðfesting á því frá B-framhaldsskóla að áfangar þeir er kærandi stundaði á sumarönn 2005 hafi ekki verið endurtektaráfangar. Telur lífeyristryggingasvið því sýnt að kærandi hafi stundað um 51% nám á vorönn 2005 og um 35% nám á sumarönn 2005. Má því ljóst vera að kærandi stundaði ekki fullt nám á tímabilinu 10. febrúar 2005 til 1. september 2005 í skilningi 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þá ber þess að geta að litið hefur verið svo á að óheimilt væri að líta til meðaltals námsárangurs tveggja anna, þegar nám á annarri þeirra er minna en 75%, sbr. úrskurð nefndarinnar 26. október 2004 í máli nr. 21/2004.

Hvað varðar rökstuðning í kæru kæranda, þá kemur þar fram að hann hafi samið um að taka lokapróf í 6 einingum, mánuði síðar en hann tók önnur lokapróf. Virðist kærandi halda því fram að hann hafi stundað nám í þessum námskeiðum (STÆ 403 og EÐL 203) á haustönn, en ekki á sumarönn. Sé því um staðreyndarvillu að ræða í gögnum málsins, sem skýrist af því hvenær kærandi tók lokapróf.

Í gögnum málsins kemur hins vegar fram að kærandi hafi verið skráður í nám við B-framhaldsskóla á vorönn 2005, sem stóð frá 3. janúar til 15. júní 2005, og að kærandi hafi einnig verið skráður í nám á sumarönn sem hafi staðið frá 10. júní til 17. eða 18. ágúst 2005. Þá kemur einnig fram í tölvuskeytum frá áfangastjóra B-framhaldsskóla að kærandi hafi haldið áfram námi við skólann á sumarönn 2005 og lokið þá umræddum 6 einingum. Að auki tekur áfangastjórinn fram í tölvuskeyti, dags. 3. apríl 2006, að ekki hafi verið um endurtektaráfanga að ræða. Er því ekkert að finna í gögnum málsins sem rennir stoðum undir þessar röksemdir kæranda. Þá hafa engar upplýsingar eða vísbendingar þess efnis borist lífeyristryggingasviði sem sýna fram á að kærandi hafi lokið umræddum prófum í júní, en ekki í lok annar, eins og eðlilegt mætti þykja.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 26. júní 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda en staðfest var af B-framhaldsskóla að kærandi hafi stundað 15 eininga nám við skólann á vorönn 2005 en fengið að fresta próftöku í tveimur þriggja eininga fögum fram í júní 2005.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr reglugerðar þessarar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 10. febrúar 2006. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er því frá 10. febrúar 2005 fram að fæðingu barns.

Óumdeilt er að kærandi hafi verið í fullu námi við E-háskóla í G-landi frá 1. september 2005 fram að fæðingu barnsins. Kærandi lauk stúdentsprófi af málabraut við B-framhaldsskóla haustið 2004. Til undirbúnings fyrirhugaðs háskólanáms stundaði hann síðan 15 eininga nám í raungreinum við skólann á vorönn 2005, hann lauk níu einingum í maí og fékk leyfi hjá skólanum til að taka próf í tveimur þriggja eininga áföngum í júní.

Fullt nám á önn í B-framhaldsskóla telst að meðaltali vera 17,5 einingar. Með hliðsjón af því sem fram er komið um nám og námsframvindu kæranda telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 18. reglugerðar nr. 1056/2004 um a.m.k. sex mánaða fullt nám á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta