Mál 142/2023
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 142/2023
Föstudaginn 14. apríl 2023
A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Með kæru, dags. 10. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála svar Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. mars 2023, vegna fyrirspurnar kæranda um greiðslur í fæðingarorlofi.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 10. mars 2023 og vísaði til þess að kærð væri sú ákvörðun að kærandi fengi einungis hálfan mánuð í ágúst og síðan september 2022 til útreiknings vegna væntanlegrar fæðingar barns í apríl næstkomandi. Ekki hafi verið tekið tillit til þess að kærandi hafi verið í námi í Danmörku og svo á vinnumarkaði í kjölfarið. Kærandi krefst þess að fá hærri úthlutunargreiðslur frá Fæðingarorlofssjóði og að tekið verði tillit til þess að hann var í vinnu í Danmörku.
Með erindi úrskurðarnefndar til kæranda, dags. 16. mars 2023, var óskað eftir að hann sendi nefndinni afrit af hinni kærðu ákvörðun. Kærandi svaraði ekki erindi nefndarinnar. Úrskurðarnefndin óskaði einnig upplýsinga frá Fæðingarorlofssjóði um hvort til staðar væri ákvörðun í máli kæranda. Í svari Fæðingarorlofssjóðs kom fram að engin ákvörðun hefði verið tekin í máli kæranda, en umsókn hafi fyrst borist 15. mars 2023 og vinnsla hennar væri ekki hafin.
II. Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndarinnar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá segir í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof að úrskurðarnefnd velferðarmála skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.
Af kæru og upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði er ljóst að ekki hefur verið tekin stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda. Þar sem engin stjórnvaldsákvörðun liggur fyrir í máli kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Kæranda er leiðbeint um að hann getur kært niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs vegna áðurnefndrar umsóknar hans, sem sjóðnum barst 15. mars síðastliðinn, til úrskurðarnefndar velferðarmála þegar hún liggur fyrir.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson