Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 10/2010

Föstudaginn 28. maí 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 1. mars 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. febrúar 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 18. desember 2009, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

Með bréfi, dags. 1. mars 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 9. mars 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. mars 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að eldra barn hennar, fætt árið 2005, hafi verið tekið með bráðakeisaraskurði eftir misheppnaða gangsetningu vegna meðgöngueitrunar. Í miðri aðgerð hafi hins vegar komið í ljós að hún var ekki nógu vel deyfð og því hafi verið gripið til svæfingar. Nokkrum klukkutímum eftir aðgerðina hafi komið í ljós að henni blæddi innvortis og hún hafi því verið send í annan uppskurð með svæfingu. Mánuði eftir fæðinguna hafi kærandi fengið gallsteina og í kjölfarið hafi gallblaðran verið fjarlægð. Eftir þá aðgerð hafi komið í ljós að gallgöngin voru stífluð en mjög sársaukafullt hafi verið að hreinsa þau þar sem skera þurfti til að víkka þau og kærandi hafi verið vakandi á meðan. Kærandi hafi verið mjög kvalin í kviðarholinu eftir aðgerðina en þá hafi komið í ljós að hún var með bráðabrisbólgu og hún hafi þurft að liggja í nokkra daga inni á skurðdeild.

Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast sitt annað barn Y. október 2009 en í samráði við fæðingarlækni var ákveðið að barnið yrði tekið með keisaraskurði vegna fæðingarsögu kæranda. Þá greinir kærandi frá því að fæðingarlæknir hafi ákveðið að best væri að hafa samband við svæfingarlækni vegna reynslu kæranda af mænudeyfingu en hinn síðarnefndi hafi lagt til annars konar deyfingu, sem sjaldgæft væri að myndi ekki virka, þar sem mikil áhætta fylgdi svæfingum. Deyfingin hafi hins vegar ekki virkað nógu vel. Svæfingarlæknirinn hafi hvatt hana áfram og sagst grípa til sterkra verkjalyfja þegar barnið væri komið í heiminn. Eftir að kærandi fékk verkjalyfin hafi hún enn kennt mikið til og grátbeðið um svæfingu sem þá hefði verið gripið til. Þegar kærandi hafi vaknað um tveimur tímum eftir aðgerð hafi læknirinn hennar sagt að kærandi hefði verið með mikla samvexti í leginu og því hafi þurft að sauma mjög mikið. Þá hefði læknirinn greint henni frá því að ef vitað hefði verið hversu umsvifamikil fyrri fæðing kæranda hefði verið hefði hún haft annan sérfræðing viðstaddan.

Kærandi hafi í kjölfarið verið lögð inn á sængurkvennagang þar sem hún hafi náð góðum og hröðum líkamlegum bata en á hana hafi leitað ótti um að eitthvað í líkingu við fyrri fæðingu ætti eftir að gerast, sérstaklega þar sem læknirinn hefði sagt henni að meiri möguleikar væru á blæðingu þar sem það hefði þurft að sauma mikið. Á þriðja degi eftir fæðingu barnsins kveðst kærandi hafa fundið til mikils kvíða, depurðar og vanlíðunar og hún hafi grátið mikið. Kærandi kveðst hafa látið starfsfólk vita af þessu og hún hafi verið frædd um „sængurkvennagrátinn“ svokallaða. Kærandi kveðst hafa farið heim 9. október 2009. Andleg líðan hennar hafi versnað mikið og hún hafi leitað til læknis. Læknirinn hafi boðið henni innlögn en hún afþakkað þar sem hún hafi treyst á aðstoð mannsins síns með börn þeirra. Kærandi kveðst hafa talað við sálfræðing sem hafi gefið henni tíma. Þá segir kærandi að hún hafi gert hvað hún gat til að stunda sjálfshjálp sem sálfræðingur hafi leiðbeint henni með en hún hafi ekki fundið mun til batnaðar. Í lok nóvember hafi hún leitað til heimilislæknis í samráði við sálfræðinginn og rætt við hann um lyfjagjöf. Hann hafi ávísað henni þunglyndislyfi. Kærandi hafi ekki farið að finna fyrir bata fyrr en í lok desember en fram til þess tíma hafi hún treyst alfarið á manninn sinn með umönnun barna þeirra þar sem hún hafi verið óstarfhæf í móðurhlutverkinu.

Kærandi telur það undarlegt að fæðingarþunglyndi geti ekki flokkast sem veikindi sem rekja megi til fæðingar, sérstaklega þegar mikið hefur gengið á. Kærandi hafi fengið þau svör frá Fæðingarorlofssjóði að til þess að til framlengingar á fæðingarorlofi vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu geti komið þurfi að uppfylla tvö meginskilyrði og sérfræðilæknir þurfi að rökstyðja þörf á framlengingu. Skilyrðin séu annars vegar að veikindi móðurinnar verði að vera rakin til fæðingarinnar (þ.e. eitthvað gerist í fæðingunni sjálfri) og hins vegar þurfi móðirin að vera ófær að annast um barn sitt af þeim völdum. Þá segi að í svarinu að samkvæmt læknisvottorði kæranda sé ekki að sjá að neitt hafi komið upp á í fæðingunni sjálfri heldur að þremur dögum eftir fæðingu hafi komið upp kvíði og depurð. Læknisskoðun hafi farið fram 25. nóvember 2009 og fæðingin verið Y. október 2009. Kærandi bendir á að í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) sé tekið fram í 17. gr. að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Þar sé ekkert rætt um að eitthvað þurfi að gerast í fæðingunni sjálfri líkt og komi fram í svari Fæðingarorlofssjóðs.

Kærandi bendir á að báðar fæðingarnar hafi reynt mjög mikið á hana andlega, meðal annars vegna þess hve illa deyfð hún hafi verið og því óski hún eftir framlengingu.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 13. ágúst 2009, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, vegna barns hennar sem fæddist Y. október 2009. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 28. ágúst 2009, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof. Í bréfinu hafi jafnframt komið fram að ekki væri unnt að senda henni greiðsluáætlun með endanlegum útreikningum fyrr en ljóst væri hvenær barn hennar myndi fæðast. Þann 7. október 2009 hafi kæranda verið send greiðsluáætlun.

Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að þann 16. desember 2009 hafi sjóðnum borist læknisvottorð, dags. 12. desember 2009, vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu en sjóðurinn hafi synjað kæranda um framlengingu með bréfi, dags. 18. desember 2009, þar sem ekki væri séð að veikindi hennar mætti rekja til fæðingarinnar. Kærandi hafi sent tölvubréf 25. janúar 2010 og óskað eftir nánari útskýringum á synjuninni. Kæranda hafi verið svarað samdægurs með tölvubréfi þar sem gerð hafi verið grein fyrir ástæðum synjunarinnar.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 3. mgr. 17. gr. ffl., sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati sérfræðilæknis ófær um að annast barn sitt. Í 5. mgr. 17. gr. ffl. segi að þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði sérfræðilæknis.

Jafnframt vísar sjóðurinn til þess að í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga sé tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingarinnar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Síðar í athugasemdunum segi að önnur veikindi foreldra lengi ekki fæðingarorlof. Þá bendir sjóðurinn á að þetta hafi verið staðfest í úrskurðum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í málum nr. 11/2008, 16/2008 og 43/2009.

Í samræmi við framangreint hafi það verið skilningur Fæðingarorlofssjóðs að einungis sé átt við þau veikindi móður sem hægt er að rekja beint til fæðingarinnar sjálfrar. Önnur veikindi móður sem kunni að koma upp síðar og ekki sé hægt að rekja til fæðingarinnar sjálfrar svo og veikindi móður sem koma upp á meðgöngu en ekki í fæðingunni sjálfri, jafnvel þó þau haldi áfram eftir fæðingu, falli þá utan umrædds ákvæðis.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í læknisvottorði B, dags. 12. desember 2009, komi fram að sjúkdómsgreining sé fæðingarþunglyndi. Í lýsingu á sjúkdómi móður eftir fæðingu segi orðrétt: „Í sjúkraskrá kemur fram 25.11.2009: Eignaðist barn Y.10.2009. 3 dögum eftir fæðingu barnsins helltist yfir hana mikill kvíði og depurð og hún er búin að vera í viðtölum við sálfræðing vikulega síðan en líður enn illa og sálfræðingur metur það svo að hún þurfi einnig á lyfjameðferð að halda. Gögn frá sálfræðingi eru ókomin, ráðl eftirlit hjá hl eftir c.a. viku. Samkvæmt sögu uppfyllir hún skilmerki meðalslæms þunglyndis. Var hún sett á lyfið Sertral. Borist hefur staðfesting frá C sálfræðing á Landspítala að A sé í meðferð hjá henni.“ Á læknisvottorðinu komi fram í reit fyrir niðurstöðu skoðunar: „Merki þunglyndis.“ Sjúklingur var fyrst skoðaður þann 25.11.2009 en sjúkdómseinkenna var fyrst vart Y.10.2009.

Þá bendir sjóðurinn á að af læknisvottorðinu verði ekki séð að veikindi móður megi rekja til fæðingarinnar. Ekkert virðist hafa komið upp á í fæðingunni sjálfri heldur hafi hellst yfir hana kvíði og depurð þremur dögum eftir fæðingu barnsins. Kærandi hafi fyrst verið skoðuð af lækni þann 25. nóvember 2009 eða tæpum tveimur mánuðum eftir fæðingu barnsins og uppfylli hún þá skilmerki meðal slæms þunglyndis. Því telur Fæðingarorlofssjóður að ekki verði heldur séð að um alvarleg veikindi móður sé að ræða sem hafa valdið því að hún hafi verið ófær að annast um barn sitt.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf dags. 18. desember 2009, þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 17. gr. ffl. og 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um að veikindi móður megi rekja til fæðingarinnar sjálfrar og að hún hafi verið ófær af þeim völdum að annast barn sitt.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 18. desember 2009, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda hennar eftir fæðingu barns.

Í 3. mgr. 17. gr. ffl. er kveðið á um að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í athugasemdum með 17. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2000 er tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Jafnframt segir í athugasemdunum að önnur veikindi foreldra eða barna lengi ekki fæðingarorlof. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati sérfræðilæknis ófær um að annast barn sitt. Í 5. mgr. 17. gr. ffl., sbr. 14. gr. laga nr. 74/2008, kemur meðal annars fram að rökstyðja skuli þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. með vottorði sérfræðilæknis.

 

Kærandi ól barn Y. október 2009. Í læknisvottorði B, dags. 12. desember 2009, er heiti sjúkdóms hennar tilgreint sem fæðingarþunglyndi og tekið fram að samkvæmt sögu uppfylli kærandi skilmerki meðalslæms þunglyndis.

Samkvæmt læknisvottorði er því staðfest að kærandi þjáðist af meðalslæmu þunglyndi í kjölfar fæðingar barns. Af gögnum málsins verður á hinn bóginn ekki talið að veikindi kæranda hafi verið þess eðlis að hún hafi verið ófær um að annast barnið, svo sem áskilið er í 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, sbr. einnig greinargerð með frumvarpi til 17. gr. laga nr. 95/2000. Með hliðsjón framangreindu verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 17. gr. ffl. um rétt til lengingar fæðingarorlofs í tilviki kæranda. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta