Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 17/2001

Þriðjudaginn, 23. apríl 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

 

Þann 21. maí 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 16. maí 2001.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 5. mars 2002, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

"Í reiknuðu fæðingarorlofi mínu er miðað við meðaltal launa síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu en á seinni hluta meðgöngu fékk ég grindargliðnun og þurfti að hætta að vinna.

Undanfarin 6 ár hef ég unnið sleitulaust hjá sama fyrirtæki og hef verið með að meðaltali B kr. á mánuði. En í veikindum á meðgöngu fékk ég bætur frá Tryggingast. sem eru um D kr. á mánuði. Því eru mér reiknaðar um E kr. á mánuði í stað um F kr. á mánuði. Mér finnst ekki rétt að taka meðaltal launa síðustu 12 mánuði þegar ég er veik síðustu fimm mánuðina. Nær væri að sleppa síðustu fimm mánuðum og miða upphæð út frá því þegar ég var vinnufær og þau laun sem ég hafði þá eða þá 12 mánuði sem ég var í vinnu fyrir veikindin. Það getur hvaða kona lent í því að fá meðgöngusjúkdóm og óþarfi að refsa henni fyrir það þegar fullgilt læknisvottorð er til staðar. Því bið ég ykkur að endurskoða þá upphæð sem mér er úrskurðað í fæðingarorlof ."

 

Með bréfi, dags. 25. maí 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 31. janúar 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærð er upphæð fæðingarorlofs og farið fram á að við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði tekið verði tillit til þess að laun á síðari hluta meðgöngu hafi lækkað verulega vegna veikinda.

 

Samkvæmt 1.-3. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og skal mánaðarleg greiðsla til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

 

Í 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er kveðið á um að með samfelldu starfi sé átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í framhaldi af því er talið upp hvað fyrir utan launaða vinnu skuli teljast til samfelds starfs og þar á meðal er sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að slíka greiðslur skuli teljast til launa við útreikning á fæðingarorlofi.

 

Kærandi lagði niður launuð störf í ágúst 2000 og barnið fæddist 8. febrúar 2001. Til þess að uppfyllt væru skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóð að um samfellt starf í sex mánuði fyrir upphaf fæðingarorlofs hafi verið að ræða var nauðsynlegt að reikna með þeim tíma sem sjúkradagpeningar voru greiddir fyrir og biðtíma eftir þeim. Útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði var því í samræmi við ákvæði 13. [gr.] ffl. byggður á tekjum kæranda, þ.á.m. sjúkradagpeningum."

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. febrúar 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.

 

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í framangreindu ákvæði er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði til þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við meðaltal heildarlauna á tólf mánaða samfelldu tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar.

 

Kærandi málsins lagði niður launuð störf í ágúst 2000 vegna veikinda á meðgöngu, vegna þeirra veikinda fékk hún greidda sjúkradagpeninga. Þar sem upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda var í janúar 2001, reiknast tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá nóvember 1999 til og með október 2000.

 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A, í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta