Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 61/2001

Þriðjudaginn, 14. maí 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

 

Þann 23. nóvember 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, ódags.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi.

 

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:

"...Ég fer í feðraorlof í desember og fékk yfirlit yfir greiðslur þar sem fram kemur að miðað er við 10 mánuði fyrir fæðingu barnsins. Þar sem ég var í námi á þeim tíma en hef verið í fullu starfi síðan í vor munar þetta mjög miklu fyrir mig í tekjum...

 

Kæra þessi byggir á skilgreiningu laga um fæðingarorlof (2000 nr. 95 22. maí) um sjálfstæðan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Segir í 4. kafla, 8. grein: "Foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr. eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur." Samanber þessa skilgreiningu er réttur föðurs til fæðingarorlofs óháður rétti móður. Ennfremur segir í 4. kafla 13. grein: "Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

 

Tel ég brotið á mér hvað þessar greinar varðar þar sem sonur okkar hjóna fæðist í júní 2001 og tekur kona mín sitt fæðingarorlof um leið og hann fæðist. Eftir 6 mánuði tek ég minn mánuð í orlof eins og ég á rétt til og er heima við í desember 2001. Skv. áður nefndum lagagreinum tel ég að miðað við sjálfstæðan rétt minn til greiðslna eigi að miðast við þann tíma sem ég fer í fæðingarorlof en ekki þann tímapunkt sem konan mín hefur sitt fæðingarorlof. Meðfylgjandi er úrskurður Tryggingastofnunar byggður á tekjuupplýsingum og er miðað við tímabilið júní 2000 til mars 2001, en ég tel að miða ætti við tímabilið janúar 2001 til október 2001, fyrstu 10 af 12 mánuðum áður en ÉG fer í fæðingarorlof sbr. tilhögun greiðslna úr fæðingarorlofssjóði.

 

Ég  óska eftir leiðréttingu á þessum úrskurði og miðað verði við tímabil þar sem ég starfaði áður en ég tók mér leyfið, enda skýrt tekið fram að réttur minn sé sjálfstæður, en ekki sé miðað við tímabil það sem konan mín tók í fæðingarorlof."

 

Með bréfi, dags. 6. mars 2002 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 19. mars 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, og óskar kærandi eftir því að viðmiðunartímabil tekjuútreiknings hans verði annað en litið var til við afgreiðslu máls hans.

 

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveim mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með lagafrumvarpinu er tekið fram að hér sé átt við almanaksmánuði og að heimilt er að reikna með færri mánuðum ef foreldri hefur verið á vinnumarkaði í skemmri tíma ef um samfellt starf (a.m.k. 25% starfshlutfall) hefur verið að ræða í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

 

Afgreiðsla lífeyristryggingasviðs miðaðist við 80% meðaltekna kæranda á tímabilinu frá 1. júní 2000 til og með mars 2001, en barn hans er fætt í júní 2001.

 

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur, í máli nr. 42/2001, kveðið úr um það hvað skuli teljast upphafsdagur fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. laganna. Er þar miðað við að upphaf orlofs sé í síðasta lagi við fæðingu barns. Samkvæmt því skuli útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðast við þau tímamörk, jafnvel þótt annað foreldrið nýti rétt sinn til töku orlofs á síðara tímabili.

 

Lífeyristryggingasvið telur að ágreiningsefni máls þessa sé sambærilegt því sem um ræddi í máli nr. 42/2001 og vísar til niðurstöðu þess máls og rökstuðnings fyrir þeirri niðurstöðu."

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. mars 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi.

 

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna þess að beðið var eftir gögnum sem úrskurðarnefndin hafði óskað eftir frá kæranda málsins.

 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) stofnast réttur foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Framangreind regla er skoðuð þegar finna á út hvort viðkomandi foreldri á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns, ákvæðið veitir konu þó heimild til þess að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram varðandi þá undantekningu að ekki verði litið á þetta sem mismunun þar sem það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nú 22. gr. laga nr. 96/2000). Þá segir í 3. mgr. 8. gr. ffl. að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

 

Upphafsdagur fæðingarorlofs foreldra er skilgreindur í 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er lýst óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákvarðað upphafsdag fæðingarorlofs. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. fellur réttur til fæðingarorlofs niður er barnið nær 18 mánaða aldri. Sveigjanleiki til töku fæðingarorlofs breytir  ekki upphafsdegi fæðingarorlofs eða grundvelli útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að átt sé við almanaksmánuði. Viðmiðunartímabilið geti þó verið styttra hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði, þá skuli miða við heildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldrið hefur  unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

 

Samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 8. gr. ffl. var upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda fæðingardagur barnsins, þann 3. júní 2001. Kærandi var í námi í Háskóla Íslands á vormisseri 2000, með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði frá júní 2000 til og með mars 2001.

 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu í fæðingarorlofi til A, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl. 

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta