Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 41/2006

Þriðjudaginn, 14. nóvember 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. september 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 14. september 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 11. ágúst 2006 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Undirrituð sótti um fæðingarstyrk til TR en fékk synjun sökum þess að hafa ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám skv. 19. gr. laga nr. 95/2000 (sjá bréf dagsett 4. júlí 2006). Undirrituð sendi þá aftur bréf og bað um endurskoðun á afgreiðslu fæðingarstyrks þar sem ekki þótti tekið tillit til þess að verið var að ljúka námi (sjá bréf dagsett 17. júlí 2006). Beiðni um endurskoðun var synjað á sama grundvelli og fyrri umsókn (sjá bréf dagsett 11. ágúst 2006). Skv. 20. gr. reglugerðar 1056/2004 er veitt undanþága þó foreldri fullnægi ekki skilyrðum um fullt nám á lokaönn ef verið er að ljúka ákveðinni prófgráðu. Undirrituð lauk námi við B-háskóla þann 24. júní sl. en uppfyllir ekki skilyrði TR um fullt nám á haustönn 2005. Skv. meðfylgjandi gögnum frá B-háskóla þurfti að ljúka 4 einingum á haustönn 2005 en 12 einingum á vorönn 2006 til að ljúka námi. Ekki var hægt að ljúka náminu á einni önn eða hliðra til fögum þar sem þau eru einungis kennd á fyrirfram gefnum önnum. Hefði náminu háttað þannig að í upphafi skólaárs 2005-2006 hefðu þær 16 einingar sem eftir stóðu skipst á milli haust- og vorannar þannig að 4 einingar væru eftir á vorönn en 12 á haustönn (en ekki öfugt eins og reyndin var), þá hefði undirrituð fullnægt 20. gr. reglugerðar 1056/2004. Af þessum sökum vill undirrituð fá á það reynt hvort sanngjarnt sé að hún hljóti fulla skerðingu á fæðingarstyrk sínum þar sem hún fékk ekki um það ráðið hvernig einingarnar skiptust á milli anna á lokaári til prófgráðu.“

 

Með bréfi, dagsettu 26. september 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 10. október 2006. Í greinargerðinni segir meðal annars:

„Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 25. júlí 2006 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 25. júlí 2005 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsyfirliti frá B-háskóla stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2005 og vorönn 2006. Lauk kærandi 4 einingum á haustönn 2005. Á vorönn 2006 lauk kærandi 12 einingum og brautskráðist jafnframt með B.Ed. próf í D-fræðum.

Lífeyristryggingasvið leitaði í kjölfar kærunnar upplýsinga um lengd námsmissera hjá B-háskóla. Í svari frá B-háskóla sem barst með tölvuskeyti, dags. 10. október 2006, kemur fram að haustmisseri 2005 hafi varað frá 29. ágúst til 20 desember 2006, eða í um þrjá mánuði og þrjár vikur. Þá kemur fram að vormisseri 2006 hafi varað frá 9. janúar til 20. maí 2006, eða í um 4 mánuði og tvær vikur. Eins og fram kemur hér að framan þarf foreldri að uppfylla skilyrðið um samfellt fullt nám a.m.k. sex mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns. Til að ná sex mánaða samfelldu námi þarf því að líta bæði til haustmisseris 2005 og vormisseris 2006.

Þegar um er að ræða nám við háskóla hér á landi teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11-15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur lífeyristryggingasvið svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingardag barns. Liggur fyrir að kærandi telst hafa verið í fullu námi á vormisseri 2006 en ekki á haustmisseri 2005. Í lögum nr. 95/2000 er enga heimild að finna fyrir undanþágu frá mati um fullt nám vegna námsskipulags skóla eða utanaðkomandi þátta, svo sem kennaraverkfalls.

Nokkrar undanþáguheimildir er að finna frá skilyrðinu um fullt nám í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Þannig er samkvæmt 8. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt, hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 9. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 19. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Þá segir í 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, sbr. 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í fullt nám og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá er skv. 20. gr. reglugerðarinnar heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda var ekki talið að nokkur þessara undanþáguheimilda, frá skilyrðinu um að foreldri skuli hafa verið í 75–100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ætti við um aðstæður kæranda.

Í kæru kæranda er vikið að því að hún teljist uppfylla undanþáguskilyrði 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Verður ákvæði 20. gr. reglugerðarinnar ekki skýrt á annan veg en að undanþágan taki aðeins til mats á fullu námi á því misseri sem foreldri lýkur námi. Fyrir liggur að kærandi lauk námi sínu með prófgráðu á vormisseri 2006, en samkvæmt framansögðu þá telst kærandi hafa stundað fullt nám á því misseri. Því er ekki þörf á að líta til undanþáguákvæðis 20. gr. reglugerðarinnar varðandi mat á námi kæranda á misserinu. Þá veitir ákvæðið ekki undanþágu vegna náms kæranda á öðrum misserum.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi, sbr. bréf lífeyristryggingasviðs, dags. 4. júlí 2006. Þá telur Tryggingastofnun ríkisins að greiðsluyfirlit lífeyristryggingasviðs, dags. 11. ágúst 2006, beri með sér réttan útreikning á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 13. október 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kærandi ól barn 25. júlí 2006. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er því frá 25. júlí 2005 fram að fæðingu barns. Við mat á því hvort kærandi uppfylli skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns þarf því bæði að líta til náms hennar á haustmisseri 2005 og vormisseri 2006.

Hjá B-háskóla er almennt miðað við að 100% nám sé 15 eininga nám á misseri. Staðfest er að kærandi lauk 4 einingum á haustmisseri 2005 og 12 einingum á vormisseri 2006. Hún lauk B.Ed. prófi í D-fræðum vorið 2006. Þar sem kærandi var ekki í fullu námi á haustmisseri 2005 uppfyllir hún ekki skilyrði um sex mánaða fullt nám á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns sbr. 1. mgr. 19. gr. ffl. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Í kærunni vísar kærandi til undanþáguákvæðis 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt 20. gr. er heimilt á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó að foreldri fullnægi ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu. Ekki verður talið að ákvæði 20. gr. eigi við um aðstæður kæranda þar sem hún heimilar eingöngu undanþágu frá skilyrði um fullt nám á síðustu önn í námi.

Fram kemur í kæru að kærandi hafi ekki getað lokið því sem eftir var af náminu á einu misseri. Samkvæmt vottorði B-háskóla, dags. 11. september 2006, er staðfest að námskeið sem kærandi tók á haustmisseri voru eingöngu kennd á haustmisseri og námskeið sem hún tók á vormisseri voru eingöngu kennd á vormisseri. Hins vegar er hvorki í lögum nr. 95/2000 né reglugerð nr. 1056/2004 að finna heimild til að veita undanþágu frá skilyrði um fullt nám vegna námsskipulags skóla. Ekki er þar heldur að finna heimild til undanþágu frá skilyrði um fullt nám þegar seinkun verður á námi foreldris vegna barneignar eða verkfalls.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 og ekki hafi verið heimilt að veita undanþágu frá þeim skilyrðum. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta