Mál nr. 32/2021-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 32/2021
Þriðjudaginn 11. maí 2021
A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 21. janúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs vegna umsóknar hennar um greiðslur úr sjóðnum.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barnsfæðingar X. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. janúar 2021, var fallist á umsókn kæranda. Í greiðsluáætlun með ákvörðun kom fram að mánaðarleg greiðsla til hennar yrði 499.749 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. janúar 2021. Með bréfi, dags. 26. janúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 5. febrúar 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. ferbúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi fer fram á að greiðsluáætlun miði við laun hennar síðustu ár.
Í kæru kemur fram að kærandi hafi eignast barn X 2021 og væri því að byrja á sínu öðru fæðingarorlofi á tveimur árum, en fyrra fæðingarorlof hófst X 2019 og lauk X 2020. Vegna þessa inniheldur útreikningur greiðslna fyrir núverandi fæðingarorlof greiðslur Fæðingarorlofssjóðs frá fyrra fæðingarorlofi og skerðir því greiðslur til kæranda umtalsvert. Kærandi kveðst hafa verið með laun yfir 750.000 krónur á mánuði frá því í febrúar 2017 sem veiti henni rétt til hámarksgreiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, eða 600.000 krónur á mánuði. Núverandi áætlun hljóði upp á 499.749 krónur á mánuði þar sem greiðslur frá fyrra fæðingarorlofi dragi niður meðaltalið sem útreikningurinn byggir á. Kærandi kveður þessa skerðingu hafa mikil háhrif á getu sína til að standa við rekstrarkostnað heimils og sjái hún fram á að vera komin í umtalsverða skuld að fæðingarorlofinu loknu.
Kærandi kveðst meðvituð um að laun sín lækki mikið á meðan á fæðingarorlofi standi en hún telji það ekki geta talist sanngjarnt að miða núverandi greiðsluáætlun við annað en laun hennar, ekki undantekninga frá norminu sem fyrra fæðingarorlof var.
III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs
Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kæranda hafi verið send greiðsluáætlun, dags. 14. janúar 2021, þar sem fram komi að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla til hennar miðað við 100% fæðingarorlof verði 499.749 krónur.
Í 1. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) sé kveðið á um gildissvið laganna. Þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn og/eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.
Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 21. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður samkvæmt 4. tölul. 4. gr. ffl.
Í 1. mgr. 23. gr. ffl. sé meðal annars kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex almanaksmánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 22. gr. Aldrei skal þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 144/2020 kemur fram að átt sé við almanaksmánuði og að miðað sé við samfellt tímabil sem stendur í tólf almanaksmánuði á undan fæðingarmánuði barns.
Í 4. mgr. 23. gr. ffl. kemur fram að til launa á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1.-3. mgr. teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a-e-liðum 2. mgr. 22. gr. ffl. Auk þess skuli telja til launa greiðslur samkvæmt a- og b-liðum 5. gr. laga um Ábyrgðarsjóð launa. Þegar um sé að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili í tengslum við tilvik sem falla undir a-e-liði 2. mgr. 22. gr., sem foreldri átti rétt á, skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við. Hafi foreldri hins vegar kosið að dreifa greiðslum, í tengslum við tilvik sem falla undir a-e-liði 2. mgr. 22. gr., hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræðir. Sama eigi við hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum, í tengslum við tilvik, sem falla undir a-e-liði 2. mgr. 22. gr., hlutfallslega á lengri tíma, enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en sem nemur viðmiðunartekjum sem miða skal við samkvæmt framangreindu, enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna, í tengslum við tilvik sem falla undir a-e-liði 2. mgr. 22. gr., og meðaltals heildarlauna bættan samhliða greiðslunum. Þegar greiðslur samkvæmt a- og b-liðum 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa nr. 88/2003 koma til á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við.
Í 2. mgr. 22. gr. kemur fram að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist samkvæmt a-lið, orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli. Greiðslur vegna fæðingarorlofs, sbr. 3. gr. ffl., teljast því til launa samkvæmt 4. mgr. 23. gr. ffl.
Í 5. mgr. 23. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 1.-3. mgr.
Fæðingardagur barns kæranda hafi verið X og því hafi, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið júlí 2019 – júní 2020.
Samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá skattyfirvalda um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í nóvember og desember 2019 og mars til júní 2020 þáði kærandi greiðslur frá vinnuveitanda sínum B sem höfð eru með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Kærandi var auk þess í 60% fæðingarorlofi á tímabilinu júlí 2019 til febrúar 2020 en hún hafði dreift greiðslum með eldra barni fæddu þann 18. apríl 2019 á 10 mánaða tímabil frá apríl 2019 til febrúar 2020 og þáði þannig 60% greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á þeim tíma.
Í 4. mgr. 23. gr. ffl. kemur skýrt fram að hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum sem falla undir a-e-liði 2. mgr. 22. gr., hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræðir. Það hafi verið gert í tilfelli kæranda og þannig hafi greiðslur til hennar frá Fæðingarorlofssjóði fyrir það tímabil sem hún var í 60% fæðingarorlofi með eldra barni verið uppreiknaðar um 111.320 kr. á mánuði, eða í 471.320 kr. á mánuði úr 360.000 kr. Það sé einnig í samræmi við úrskurði úrskurðarnefndar í málum nr. 2/2013, 29/2013 og 42/2013 sem féllu í gildistíð eldri laga.
Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof sé ekki að finna neina heimild til þess að víkja frá 4. mgr. 23. gr. ffl. við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda.
Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að hin kærða ákvörðun beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. janúar 2021, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 499.749 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort viðmiðunartímabil og útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skuli byggja á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrra barns.
Í 1. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir það skilyrði laganna og á tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. ffl. felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 21. gr. í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. ffl. telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði enn fremur samkvæmt a-lið ákvæðisins, orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli.
Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skal þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Í 4. mgr. 23. gr. ffl. kemur svo fram að hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum, í tengslum við tilvik sem falla undir a-e-liði 2. mgr. 22. gr., hlutfallslega til lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræðir. Samkvæmt gögnum málsins voru greiðslur til kæranda uppreiknaðar með tilliti til þessa þar sem hún var í 60% fæðingarorlofi með eldra barni sínu.
Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl. skal Fæðingarorlofssjóður við útreikning á greiðslum til kæranda miða við 80% af heildarlaunum þá mánuði sem kærandi telst vera á innlendum vinnumarkaði. Sá hluti tímabilsins júlí 2019 til júní 2020 sem kærandi var í fæðingarorlofi telst einnig til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1. og 2. mgr. 22. gr. ffl.
Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. janúar 2021, um mánaðarlegar greiðslur til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson