Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 29/2002

Þriðjudaginn, 22. október 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

 

Þann 18. maí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 8. maí 2002.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanns, með bréfi dags. 22. apríl 2002.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Vísað er til bæklings Tryggingarstofnunar ríkisins frá því í febrúar 2001 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, þar sem segir, að fullt nám teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

 

Eins og fram kemur í meðfylgjandi staðfestingu frá Fjölbrautarskóla B, dagsettri 27.4.2002 hefur kærandi stundað nám bæði á haustönn og vorönn á yfirstandandi skólaári, þar af fullt nám (37 stundir á viku) á haustönn, en á vorönn í 18 st. á viku.

 

Orðrétt segir í staðfestingu skólameistara:  "Að meðaltali á skólaárinu 2001-2002 hefur A því verið í 27,5 kennslustundum á viku, sem er rúmlega 76% af því sem algengast er hjá nemanda á námsbrautum til stúdentsprófs.

 

Bréf það sem Tryggingastofnun ríkisins sendi mér u.þ.b. 18. apríl er því miður glatað, en í því bréfi var mér tjáð að 100% nám væri 15 einingar og 75% þannig 11,5 einingar og fengi ég því ekki fullan fæðingarstyrk þar sem ég var í 6 áföngum haustönn 2001 og í 3 áföngum vor 2002.

 

Efni kærunnar er það að samkvæmt skilgreiningu Menntamálaráðuneytis og Fjölbrautarskóla B er 100% nám 4 áfangar og 75% nám 3 áfangar, óháð einingafjölda og eins og fram kemur fyrr í bréfinu er skilgreining Félagsmálaráðuneytis á fullu námi allt önnur.

 

Ég vil líka taka það fram að í bæklingnum frá Tryggingastofnun ríksins um fæðingarstyrk, kemur hvergi fram að 100% nám sé talið í einingum en ekki í áföngum.

 

Tel ég mig því þurfa að benda á að ég var í vinnu með skólanum til að framfleyta mér, og valdi ég því aðeins 75% nám vor 2002 til að ætla mér ekki of mikið.  Og ráðfærði ég mig því við skólameistara og námráðgjafa, sem sögðu að 75% nám væri 3 áfangar, tel ég mig því eiga rétt á fullum fæðingarstyrk."

 

Með bréfi, dags. 12. júní 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. júní 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).  Kærandi óskar eftir að henni verði greiddur fæðingarstykur námsmanna skv. 19. gr. laganna.

 

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðngarstyrk.  Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.  Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.  Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. er Tryggingarstofnun ríkisins heimilt að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur.  Í greinagerð með frumvarpi til ffl. segir að gert sé ráð fyrir að frumvarpið leiði ekki til skerðingar á greiðslum til foreldra sem eru í fullu námi, frá því sem var skv. þágildandi lögum.  Frekari leiðbeiningar um hvaða skilyrði nám þurfi að uppfylla til að greiða megi fæðingarstyrk námsmanna er ekki að finna í lögum, frumvarpi eða reglugerð.

 

Námsskipan einstakra skóla innan menntakerfisins er afar mismunandi.  Lífeyristryggingasvið hefur unnið samkvæmt þeirri reglu að líta til skipulags hvers einstaks skóla þegar metið er hvort umsækjandi hafi stundað fullt (75-100%) nám eða ekki.  Nám í fjölbrautarskólum er skv. námsskrá skipulagt þannig að það taki að jafnaði 8 annir og að til stúdentsprófs þurfi að ljúka a.m.k. 140 einingum.  Samkvæmt því er 100% nám að meðaltali 17,5 einingar á hverri önn og 75% nám 13 einingar á önn.  Þegar nemendur í fjölbrautarskólum eiga í hlut hefur við afgreiðslu mála verið tekið tillit til tímafjölda á viku í þeim tilvikum þegar áfangar gefa ekki fullan einingafjölda, og miðað við að 100% nám nemi 36 kennslustundum á viku.  Lágmarkstímafjöldi til að öðlast rétt til greiðslu fæðingarstyrks námsmanna er þá 27 kennslustundir á viku.  Stundafjöldi getur þó verið annar, t.d. þegar nám er stundað á almennri braut, og er hvert mál skoðað sérstaklega að þessu leyti.

 

Kærandi var í 7 námsfögum á haustönn 2001, 37 stundum á viku, en á vorönn 2002 var hún í 3 áföngum og 18 kennslustundum á viku.  14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 hefur verið túlkuð svo sbr. t.d. úrskurð Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála nr. 47/2001, að skilyrði um fullt nám verði að uppfylla á hvorri önn fyrir sig.  Með hliðsjón af framangreindu var umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna synjað."

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. júní 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í námi.

 

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

 

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

 

Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu telst fullt nám á önn í fjölbrautaskóla vera 17,5 einingar. Það skilyrði er sett í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að um sé að ræða 75-100% samfellt nám í sex mánuði. Samkvæmt því yrði viðkomandi að vera í a.m.k. 75% námi í hverjum mánuði á framangreindu sex mánuða tímabili. Með hliðsjón af því telur nefndin ekki heimilt að reikna út meðaltal tveggja anna og fá með því út fullt nám yfir veturinn.

 

Kærandi elur barn 11. apríl 2002. Með hliðsjón af því er tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá apríl 2001 til og með mars 2002. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fullu námi haustönn 2001, en ekki á vorönn 2001 og uppfyllir hún því ekki það skilyrði að hafa verið í fullu námi samfellt í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

 

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi því ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi er því staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

 Guðný Björnsdóttir hdl.

 Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri

Jóhanna Jónasdóttir læknir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta