Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 41/2002

Þriðjudaginn, 15. október 2002


 A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.


Þann 20. júní 2002, barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. sama dag.


Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum úr Fæðingar­orlofssjóði.


Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 7. júní 2002, var kæranda tilkynnt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.


Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:


"Ég tel að einhver misskilningur hafi orðið í útreikningi og gæti ástæðan verið sú hvernig ég fyllti út eyðublaðið, "Tilkynning um Fæðingarorlof". Í 3ju línu er spurt um starfshlutfall og fyllti ég út 100% í alla reiti, en í raun er hlutfallið minna í einhverjum þeirra mánaða sem notaðir eru til útreiknings orlofsins. Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar reiknast meðaltekjur mínar ranglega kr. 263.772.


Raunverulegar meðaltekjur mínar á tímabilinu eru kr. B (sem hækkuðu reyndar í D kr. þann 1. janúar 2002). Rétt starfshlutfall er sem hér segir:


mar2001: 71%, apr2001: 94%, nóv2001: 32%, des2001: 100%, jan2002: 98%, feb2002: 56%


Ástæða fyrir skertu starfshlutfalli er skólasókn mín, en ég er nemandi í E. Með umsókn minni fylgdi vottorð því til staðfestingar (þess vegna fyllti ég út 100% í alla reiti). Þar sem ég tók við starfi mínu 1. nóvember, átti ég ekki rétt á neinu orlofi og tók mér því launalaust leyfi frá vinnu til að fara á námsstefnur erlendis og vinna að verkefnum sem fylgdu námi mínu og tel það ekki eiga að leiða til skertra fæðingarorlofsgreiðslna.


Námi mínu lýkur í júlí á þessu ári og eru væntar framtíðartekjur kr. D, þar sem ekki er þörf á frekari leyfatökum vegna skólasóknar. Ég bið ykkur því að endurskoða útreikning á meðaltekjum mínum. Það er augljóst að nóvember 2001 og febrúar 2002 draga verulega úr meðaltekjum og þó ekki væri nema að taka þá mánuði undan í útreikningum á meðaltekjum væri niðurstaðan nærri lagi.  Laun mín fyrir bæði mars, apríl og maí 2002 eru kr. D. Þeir mánuðir sem teknir voru til útreiknings eru því einstaklega óheppilegir í minn garð og ekki lýsandi fyrir raunveruleg laun mín, eru frekar undantekning."


Með bréfi, dags. 2. júlí 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.


Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 8. júlí 2002. Í greinargerðinni segir:


"Kærð er ákvörðun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi er ósátt við mánaðarlega fjárhæð greiðslna samkvæmt útreikningi lífeyristryggingasviðs. Samkvæmt kæru óskar hún aðallega eftir að greiðslur verði ákveðnar með hliðsjón af væntanlegum framtíðartekjum, en til vara að litið verði framhjá nóvember 2001 og febrúar 2002 við útreikning meðaltekna hennar.

 

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.


Samkvæmt 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks skal meðaltal heildarlauna miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi.


Barn kæranda er fætt í maí sl. og er 12 mánaða viðmiðunartímabil launa hennar því frá og með mars 2001 til og með febrúar 2002. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK var kærandi ekki á vinnumarkaði frá og með maí til og með október 2001, og þeir mánuðir voru því undanskildir við útreikning á heildartekjum hennar á viðmiðunartímabilinu.


Útreikningur á greiðslum í fæðingarorlofi byggir á raunverulegum tekjum foreldra á tilgreindu tímabili fyrir fæðingu barns. Ekki er heimilt samkvæmt ffl. að líta til framtíðartekna við ákvörðun á greiðslum. Ekki er heldur heimilt við tekjuútreikning að líta framhjá einstökum mánuðum sem lenda innan viðmiðunartímabilsins þótt tekjur séu þar lægri en að jafnaði, hafi foreldri á annað borð verið á vinnumarkaði skv. skilgreiningu laganna þá mánuði.


Með vísun til ofangreinds telur lífeyristryggingasvið að staðfesta beri ákvörðun um greiðslur til kæranda."


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. ágúst 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.


Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:


Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.


Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.


Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að átt sé við almanaksmánuði. Viðmiðunartímabilið geti þó verið styttra hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði. Þá skuli miða við heildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldrið hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Jafnframt kemur fram að ekki skipti máli þótt foreldri hafi verið í vinnu hjá fleirum en einum vinnuveitanda á umræddu tímabili.


Í framangreindri 13. gr. ffl. er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði til þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við meðaltal heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar frá því. Verður því hvorki fallist á breytingar á útreikningi vegna launagreiðslna utan viðmiðunartímabilsins né að einhverjum mánuðum sem foreldri var á vinnumarkaði á því tímabili verið sleppt við útreikning meðaltals heildarlauna.


Barn kæranda fæddist 20. maí 2002. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá mars 2001 til og með febrúar 2002. Á þessu tímabili var kærandi á vinnumarkaði mánuðina mars og apríl 2001 og síðan í nóvember 2001 til febrúar 2002. Samkvæmt því skulu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðast við meðaltal heildarlauna þessarra mánaða.


ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.


 

Guðný Björnsdóttir hdl.

Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri

Jóhanna Jónasdóttir læknir

 


 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta