Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 26/2009

Föstudaginn 18. september 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. júlí 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 13. júlí 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með greiðsluáskorun dagsettri 1. júlí 2009 um að endurkrefja kæranda um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði fyrir mánuðina júní og júlí árið 2008.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Mér er gert að endurgreiða greiðslur sem ég þáði frá fæðingarorlofssjóði þar sem fram kemur í mati sjóðsins að ég hafi þegið greiðslur frá vinnuveitanda mínum á meðan ég var í fæðingarorlofi.

Ég sótti um greiðslur frá fæðingarorlofssjóði vegna þess að ég var að eignast barn og óskaði ég eftir því að fá orlofið frá fæðingardegi barns sem reyndist Y. apríl 2008. Vegna heilsu móður fór ég nokkrum dögum fyrr í fæðingarorlof eða í lok mars'08. Vegna mistaka vinnuveitanda þá fékk ég greidd laun í maí og júní á meðan ég var í fæðingarorlofi. Ég var sannarlega 3 mánuði í fæðingarorlofi frá lokum mars til 1 júlí. Útskýringar á því hvernig þessi mistök voru leiðrétt eru í lið 3.

Eftirfarandi staðreyndir útskýra það á einfaldan hátt hvernig launagreiðslur voru leiðréttar. Byrjun fæðingarorlofs var lok mars 2008.

Apríl 2008:

Launagreiðslur frá B sem nema 20% af mánaðarlaunum.

Fæðingarorlofssjóður greiðir 80% af mánaðarlaunum.

Maí 2008:

Launagreiðslur frá B sem nema 100% af mánaðarlaunum.

Fæðingarorlofssjóður greiðir 80% af mánaðarlaunum.

Athugasemdir: Klár ofgreiðsla. Þessi ofgreiðsla var endurgreidd til B febrúar 2008 með launalausum mánuði.

Júní 2008:

Launagreiðslur frá B sem nema 100% af mánaðarlaunum.

Fæðingarorlofssjóður greiðir 80% af mánaðarlaunum.

Athugasemdir: Klár ofgreiðsla. Þessi ofgreiðsla var endurgreidd til B mars 2008 með launalausum mánuði.

Í lok júlí fékk ég svo yfirlit yfir greiðslur í lífeyrissjóðinn minn þar sem fram kom að ég hafi verið að fá greiðslur frá B á meðan ég var í fæðingarorlofi. Ég sendi samstundis tölvubréf á yfirmann minn og tilkynnti þessi mistök. Ég ítrekaði þetta ekki frekar en svo kom í ljós um áramótin að ég hafi fengið þetta ofgreitt (þegið laun á meðan engin vinna var lögð fram á móti). B gerðu því við mig samkomulag þess eðlis að ég myndi vinna þessa tvo mánuði af mér sem mér þótti sjálfsagt og var ég því launalaus í febrúar og mars 2009.

Það er því alveg ljóst að mistök B hafa verið leiðrétt og því óskiljanlegt hvers vegna sjóðurinn tekur þann pólinn í hæðina að ég hafi verið á launum á sama tíma og ég var í fæðingarorlofi.“

 

Með bréfi, dagsettu 13. júlí 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 4. ágúst 2009. Í greinargerðinni er ítarlega rakinn ferill málsins hjá Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði. Síðan segir:

„Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Í 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram að greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. skulu koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris. Í athugasemdum með 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 segir orðrétt:

Talið er mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim er ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda er eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Er því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þegar foreldri hefur hærri tekjur en hámarkstekjurnar sem lagt er til að verði miðað við skv. 3. mgr. þá er gert ráð fyrir að hærri greiðslur en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr sjóðnum. Þó er heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geta orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geta talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Með þessum hætti er verið að undirstrika tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem er aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Er með þessu enn fremur lögð rík áhersla á að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram hvaða laun skuli telja með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Samkvæmt ákvæðinu skal telja til launa hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald er stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A – liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald er frekari upptalning á því hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. er upptalning á því hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi. Við mat á því hvaða greiðslur vinnuveitenda mega fara með og hvaða greiðslur mega ekki fara með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er því nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar hvaða greiðslur það eru sem sjóðurinn telur með þegar fundið er út meðaltal heildarlauna foreldris.

Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, er fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. kemur fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í 3. mgr. er heimild til skuldajafnaðar ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta, og vaxtabóta og í 4. mgr. er kveðið á um hvernig skuli fara með innheimtu ofgreidds fjár úr Fæðingarorlofssjóði. Í athugasemdum með 6. gr. segir svo um þetta:

Þannig er gert ráð fyrir að foreldri endurgreiði til Fæðingarorlofssjóðs þá fjárhæð sem ofgreidd var í þeim tilvikum er foreldri fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en því bar. Á þetta bæði við um þegar upplýsingar [Tryggingastofnunar ríkisins] hafa ekki verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda og þegar foreldri hefur fengið greiðslur úr sjóðnum án þess að hafa lagt niður störf. Enn fremur á þetta við um öll önnur tilvik þar sem af einhverjum ástæðum hefur verið ofgreitt úr sjóðnum. Þá verður það að teljast nauðsynlegt til að tryggja að samkeyrsla fæðingarorlofskerfisins við skattkerfið hafi tilætluð áhrif að lögin heimili skuldajöfnuð við útgreiðslur skattkerfisins, svo sem endurgreiðslu frá skattyfirvöldum hafi greiðsla foreldris verið meiri en sem nemur endanlega álögðum sköttum, barnabótum og vaxtabótum. Er þess vegna lagt til að í þeim tilvikum er foreldri ber að endurgreiða til [Tryggingastofnunar ríkisins] verði stofnuninni veittar heimildir til að leita aðstoðar innheimtumanns ríkissjóðs um skuldajöfnun við inneign foreldris hjá hinu opinbera. Í þeim tilvikum þegar skuldajöfnun verður ekki komið við og foreldri sinnir ekki áskorun um endurgreiðslu fer um innheimtu kröfunnar skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Er félagsmálaráðherra enn fremur gert heimilt að fela sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er fjallað um leiðréttingar á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir:

1. Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum skal Vinnumálastofnun senda út greiðsluáskorun til foreldris vegna fjárhæðarinnar ásamt viðbættu 15% álagi. Þegar foreldri telur að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um hærri greiðslur úr sjóðnum skal foreldri færa skriflega fyrir því rök innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun sannanlega barst foreldri. Vinnumálastofnun skal taka afstöðu til þess innan fjögurra vikna frá því að erindið barst stofnuninni hvort rök foreldris leiði til þess að fella skuli niður álagið. Ákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt ákvæði þessu eru kæranlegar til Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

2. Endurgreiði foreldri ekki ofgreiddar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt greiðsluáskorun, sbr. 1. mgr., skal innheimtuaðilum skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, falin innheimtan. Um skuldajöfnun á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt gilda almennar reglur um skuldajöfnuð og reglugerðir um barnabætur og vaxtabætur.

3. Endurgreiðsla foreldra á ofgreiddum greiðslum ásamt viðbættu álagi samkvæmt ákvæði þessu skulu renna í Fæðingarorlofssjóð.

Í samræmi við framangreind ákvæði og skýringar og með vísan til tilhögunar fyrirhugaðs fæðingarorlofs kæranda með barni fæddu Y. apríl 2008, fyrirliggjandi gagna og skýringa og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá RSK verður ekki annað séð en að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði mánuðina júní og júlí 2008.

1. Í apríl 2008 var kærandi skráður í 77% fæðingarorlof og þáði samtals X kr. frá Fæðingarorlofssjóði (útborgað X kr.). Á sama tíma var kærandi með X kr. frá B samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK. Samkvæmt launaseðli fyrir apríl voru kæranda greiddar X kr. eða 23% af mánaðarlaunum. Vinnumálastofnun Fæðingarorlofssjóður gerir ekki athugasemd við þá launagreiðslu sem er í fullu samræmi við fyrirhugaða fæðingarorlofstöku kæranda frá 8. apríl, sbr. tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 13. mars 2008.

2. Í maí 2008 var kærandi skráður í 100% fæðingarorlof og þáði X kr. frá Fæðingarorlofssjóði (útborgað X kr.). Á sama tíma var kærandi með X kr. í mánaðarlaun frá B samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK. Samkvæmt launaseðli fyrir maí var kærandi með X kr. Mismunur á launum skv. staðgreiðsluskrá og launaseðli liggur í greiðslu dagpeninga sem kemur fram á launaseðli. Fallist er á skýringar kæranda og vinnuveitanda að launagreiðsla maí 2008 hafi verið leiðrétt með launalausum mánuði í mars 2009, sbr. útprentun úr staðgreiðsluskrá RSK, en ekki í febrúar 2009 eins og kemur fram í kæru. Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóður gerir því ekki athugasemd við þessa launagreiðslu.

3. Í júní 2008 var kærandi skráður í 100% fæðingarorlof og þáði X kr. frá Fæðingarorlofssjóði (útborgað X kr.) og í júlí 2008 var kærandi skráður í 23% fæðingarorlof og þáði X kr. frá Fæðingarorlofssjóði (útborgað X kr.) eða alls X kr. (útborgað X kr.). Á sama tíma var kærandi með X kr. í mánaðarlaun í júní frá vinnuveitanda og X kr. í júlí, sbr. staðgreiðsluskrá RSK. Á launaseðli fyrir júní kemur fram að kærandi hafi fengið greidd 50% mánaðarlaun eða X kr. og á launaseðli fyrir júlí kemur fram að kærandi hafi fengið greidd 150% mánaðarlaun eða X kr. Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður lítur svo á að 50% af greiðslu vinnuveitanda til kæranda fyrir júlí 2008 sé vegna júní 2008. Kærandi hafi því haldið fullum launum frá sínum vinnuveitanda bæði í júní og júlí 2008 og hann hafi því ekki átt rétt á neinum greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði þá mánuði.

4. Samkvæmt kæru, skýringum kæranda með tölvupóstum, dags. 30. apríl, 23. júní og 2. júlí 2009 og skýringum vinnuveitanda með tölvupósti, dags. 2. júní 2009 vann kærandi launalaust í febrúar og mars 2009 á móti þeim greiðslum sem hann hafði fengið ranglega frá sínum vinnuveitanda. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK er kærandi ekki með nein laun skráð í febrúar og mars 2009. Hefur Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóður fallist á eins og kom fram í lið 2 hér að framan að greiðsla launa vegna maí 2008 gangi á móti mars 2009 sem er launalaus. Í apríl 2009 er kærandi hins vegar með X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK. Samkvæmt launaseðli fyrir apríl 2009 er kærandi með X kr. í laun. Mismunur milli staðgreiðsluskrár og launaseðils liggur í greiðslu dagpeninga upp á X kr. Á launaseðlinum kemur fram að verið sé að greiða mánaðarlaun fyrir apríl 2009 að upphæð X kr. og leiðrétt mánaðarlaun vegna febrúar að upphæð X kr. Verður því ekki betur séð en að laun vegna febrúar 2009 hafi ekki verið gefin upp til skatts fyrr en í apríl 2009. Samkvæmt því getur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður ekki fallist á að kærandi hafi verið launalaus í febrúar 2009 á móti launagreiðslu júní 2008. Kærandi virðist svo halda fullum launum í júlí 2008 á móti 23% greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eins og áður hefur verið rakið.

Kæranda var því í samræmi við 2. mgr. 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, 2. og 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga 90/2004 og 1. mgr. 6. gr. rgl. nr. 1056/2004, send leiðrétt greiðsluáskorun, dags. 1. júlí 2009 þar sem hann var krafinn um framangreinda útborgaða upphæð frá Fæðingarorlofssjóði X kr. að viðbættu 15% álagi eða alls X kr.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kærandi hafi réttilega verið endurkrafinn um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs með barni fæddu Y. apríl 2008 þar sem kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. ágúst 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns hinn Y. apríl 2008.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi muni ekki hafa lagt niður launuð störf í samræmi við ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) á þeim tíma sem hann fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði mánuðina apríl, maí, júní og júlí árið 2008. Í greiðsluáskorun dagsettri 1. júlí 2009 endurkrefur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður kæranda um greiðslur vegna júní og júlímánaðar 2008 samtals að fjárhæð X kr. auk 15% álags eða samtals X kr.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. er fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.

Í 2. mgr. 10. gr. ffl. segir að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði við fæðingu barns kæranda þann Y. apríl 2008 skyldi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skyldi miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samkvæmt 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris. Í athugasemdum við 9. mgr. 13. gr. segir í greinargerð að talið sé mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim sé ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda sé eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó sé gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði sé ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Sé því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þó sé heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geti orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geti talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Með þessum hætti sé verið að undirstrika tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem sé aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Sé með þessu enn fremur lögð rík áhersla á að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum.

Í 2. mgr. 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, segir að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt greiðsluáætlun dagsettri 18. apríl 2008 voru meðaltekjur kæranda viðmiðunarárin 2006 og 2007, X kr. og mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðað við 100% fæðingarorlof samkvæmt því X kr. Í fyrrnefndri greiðsluáætlun er gert ráð fyrir 77% greiðslu í apríl 2008 að fjárhæð X kr. frá Fæðingarorlofssjóði, 100% greiðslu í maí og júní 2008 að fjárhæð X kr. og 23% greiðslu í júlí 2008 að fjárhæð X kr.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi sótt um fæðingarorlof frá fæðingardegi barns sem reyndist vera Y. apríl 2008 en vegna heilsu móður hafi hann hafið töku fæðingarorlofs fyrr eða í lok mars 2008. Vinnuveitandi hans hafi á hinn bóginn gert þau mistök að greiða honum laun á sama tíma og hann var í fæðingarorlofi fyrir maí og júnímánuð og þau mistök uppgötvuðust ekki fyrr en við uppgjör launa fyrir árið 2008. Kærandi kveðst hins vegar hafa sent tilkynningu um ofgreiðsluna í tölvubréfi 31. júlí 2008. Kærandi kveðst hafa verið í þrjá mánuði í fæðingarorlofi frá lokum mars til 1. júlí og að launin sem hann hafi fengið greidd á tímabilinu hafi verið leiðrétt af hálfu vinnuveitanda hans eftir að ofgreiðslan kom í ljós um áramótin 2008/2009. Liggur fyrir staðfesting D f.h. B í tölvubréfi til Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dagsettu 2. júní sl., þessa efnis og að laun kæranda hefðu verið leiðrétt með tveimur launalausum mánuðum. þ.e. febrúar og mars árið 2009. Ekki hafi verið gefnir út launaseðlar fyrir þá tvo mánuði.

Í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir árið 2009 eru ekki skráð laun hjá kæranda mánuðina febrúar og mars. Á launaseðli kæranda fyrir aprílmánuð 2009 koma fram mánaðarlaun þann mánuð X kr. en jafnframt mánaðarlaun X kr. leiðrétting vegna febrúar. Með hliðsjón af því staðfesta gögn málsins ekki að hann hafi verið launalaus í febrúarmánuði árið 2009.

Í maí 2008 var kærandi skráður í 100% fæðingarorlof og fékk því greiddar B kr. úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk kærandi einnig greidd laun, X kr., frá B fyrir sama mánuð. Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður féllst á þær skýringar kæranda og vinnuveitanda hans að launagreiðsla vegna maímánaðar hafi verið leiðrétt en þá með launalausum mánuði í mars 2009 en ekki vegna febrúar þar sem á launaseðli fyrir aprílmánuð 2008 séu tilgreind mánaðarlaun vegna febrúar 2008. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar er fallist á það mat Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

Í júní 2008 var kærandi skráður í 100% fæðingarorlof og fékk því greiddar X kr. úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk kærandi einnig greidd laun, X kr., frá B fyrir sama mánuð. Samkvæmt launaseðli kæranda frá B fyrir júnímánuð var kærandi skráður í 50% starfshlutfall og fékk greidd laun að fjárhæð X kr. Þá kemur fram leiðrétting á launaseðli ágústmánaðar X kr. vegna júní. Á launaseðli júlímánaðar eru skráð mánaðarlaun X kr.

Með hliðsjón af framanrituðu og fyrirliggjandi gögnum um launagreiðslur kæranda telur úrskurðarnefndin ekki staðfest að kærandi hafi ekki þegið laun þann tíma sem hann fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í júní og júlí 2008 eða að þau laun hafi verið endurgreidd. Með hliðsjón af því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um endurkröfu á greiðslum til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta