Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 540/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 540/2023

Mánudaginn 22. janúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. október 2023, um að synja umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 19. september 2023, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þann X 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. október 2023, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hann hefði ekki verið samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 21. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 5. desember 2023, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. desember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hann hafi flutt til Íslands 8. ágúst 2022 og hafið störf þann 28. ágúst sama ár hjá B þar sem hann hafi starfað samfleytt síðan. Ástæðan fyrir að hann hafi ekki hafið störf fyrr sé sú að hann hafi verið með eldra barnið sitt í aðlögun á leikskóla um miðjan ágúst. Áður en kærandi hafi flutt til Íslands hafi hann búið í Svíþjóð í níu ár þar sem hann hafi klárað nám og einnig starfað þar árum saman þar til í júlí 2022. Kærandi hafi einnig verið í 50-100% fæðingarorlofi í Svíþjóð frá apríl 2022 til 7. ágúst 2022 og fengið síðustu greiðsluna úr þeim orlofssjóði þann 25. ágúst 2022. Kærandi hafi því ekki átt tekjulausan mánuð árum saman.

Dóttir kæranda hafi fæðst X 2023 og planið hafi verið að hann færi í 67% fæðingarorlof frá 20. nóvember 2023 til 19. ágúst 2024. Hins vegar hafi Fæðingarorlofssjóður synjað umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna þess að hann hafi ekki verið starfandi milli 19. til 28. ágúst 2022. Samkvæmt þeim sé ástæðan sú að umsækjandi þurfi að hafa starfað samfleytt í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á sex mánaða tímabili fyrir fæðingardag barnsins, sem í tilfelli kæranda sé X 2022 til X 2023. Fæðingarorlofssjóður segi að kærandi eigi einungis rétt á fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar, sem séu mánaðarlegar greiðslur upp á 91.937 kr. Kærandi hafi sent Fæðingarorlofssjóði kvittanir fyrir sænsku orlofsgreiðslunum í von um að þær myndu nægja en þær hafi ekki verið teknar gildar vegna þess að síðasta greiðslan hafi ekki samsvarað tímabilinu 19. til 28. ágúst. Það vanti níu daga upp á þetta sex mánaða tímabil, eða um 5% af tímabilinu. Kona kæranda hafi byrjað að vinna um miðjan ágúst en hann hafi ekki getað byrjað að vinna eins snemma vegna þess að dóttir þeirra hafi þurft að fara í aðlögun í leikskóla. Kærandi óski þar af leiðandi eftir að gerð sé undantekning þar sem ekki vanti nema níu daga upp á að sex mánaða tekjutímabili sé fullnægt. Til vara að greiðslurnar úr Fæðingarorlofssjóð sem nemi þessum 5% sem vanti upp á sex mánaða tímabilið verði lækkaðar.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 19. september 2023, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þann X 2023. Auk umsóknar hafi borist staðfesting á starfstíma hjá B, staðfesting á tímabili fæðingarorlofs í Svíþjóð og skýringar kæranda. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám Ríkisskattstjóra.

Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Í 2. mgr. 21 gr. komi síðan fram að þegar foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði að minnsta kosti síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili samkvæmt 1. mgr. skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt sé, taka tillit til starfstímabila þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnanasamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu, enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Það sama gildi hafi foreldri starfað skemur en síðasta mánuðinn á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði sé að foreldri hafi hafið störf á innlendum vinnumarkaði innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í öðru Norðurlandaríki, í öðru EFTA-ríki eða í Færeyjum. Foreldri skuli láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 20. gr.

Í athugasemdum við 21. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 144/2020 komi fram að: „[e]n fremur er lagt til það skilyrði að foreldri hafi hafið störf innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru samningsríki eða með öðrum orðum að tíu virkir dagar megi að hámarki líða milli tryggingatímabila þannig að ekki verði talið hafa komið rof í ávinnslutímabilið þegar foreldri flytur milli landa. Þykir það hæfilegur tími þegar tekið er tillit til þess að foreldri flytur búferlum milli landa en almennt er ekki gert ráð fyrir að rof komi inn í ávinnslutímabil foreldra skv. 1. mgr. 21. gr.“

Í 2. tölul. 4. gr. laga nr. 144/2020 sé að finna orðskýringu á samfelldu starfi. Með samfelldu starfi samkvæmt lögunum sé átt við að minnsta kosti 25% starfshlutfall í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil og því geti verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki af heilum almanaksmánuðum. Enn fremur teljist til samfellds starfs þau tilvik sem talin séu upp í a.-f. lið 2. mgr. 22. gr. Í 1. mgr. 22. gr. laganna segi síðan að þátttaka á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 21. gr. feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Loks sé í 2. mgr. 22. gr. talið upp í eftirfarandi sex stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

  1. orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,
  2. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  3. sá tími sem foreldri fær greiðslur í sorgarleyfi á grundvelli laga um sorgarleyfi eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær hjá Vinnumálastofnun, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  4. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  5. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  6. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2023. Ávinnslutímabil kæranda sé því frá X 2022 og fram að fæðingardegi barns. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu samkvæmt framangreindum ákvæðum.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og staðfestingu frá vinnuveitanda hafi kærandi starfað hjá B frá og með 29. ágúst 2022 og fram að fæðingu barns. Því sé óumdeilt að kærandi hafi verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði tímabilið 29. ágúst 2022 til og með X 2023. Ágreiningur málsins lúti því að tímabilinu 19. til 28. ágúst 2022.

Með bréfi til kæranda, dags. 3. október 2023, hafi verið óskað eftir upplýsingum um hvenær kærandi hafi hafið störf hjá B. Upplýsingar hafi borist frá vinnuveitanda um að kærandi hefði hafið störf þann 29. ágúst 2022. Kæranda hafi þá verið sent annað bréf, dags. 4. október 2023, þar sem óskað hafi verið nánari upplýsinga um þátttöku hans á innlendum vinnumarkaði tímabilið 19. til 28. ágúst 2022. Í kjölfarið hafi borist upplýsingar frá Försäkringskassan varðandi greiðslur fæðingarorlofs í Svíþjóð tímabilið 21. júlí til 7. ágúst 2022, auk staðfestingar frá Vinnumálastofnun um að kærandi hefði ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta ef hann hefði sótt um þær tímabilið 19. til 28. ágúst 2022 þar sem hann hafi ekki verið með áunnin bótarétt hér á landi.

Samkvæmt framangreindu hafi fæðingarorlofi kæranda í Svíþjóð lokið 8. ágúst 2022. Engu breyti hvort greiðsla fyrir tímabilið hafi átt sér stað síðar eða 25. ágúst 2022 líkt og fram komi á staðfestingu Försäkringskassan og hjá kæranda. Kærandi hafi síðan hafið störf hjá B 29. ágúst 2022. Það hafi því liðið fimmtán virkir dagar frá lokum starfs- og tryggingatímabils kæranda í Svíþjóð fram að starfi á innlendum vinnumarkaði og á því tímabili hafi hann ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt staðfestingu Vinnumálastofnunar.

Að mati Fæðingarorlofssjóðs liggi þannig skýrt fyrir að á tímabilinu 19. til 28. ágúst 2022 uppfylli kærandi ekki skilyrði þess að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1. og 2. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020, sbr. og b. lið 2. mgr. 22. gr. laganna. Þá verði ekki séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 22. gr. laganna geti átt við um aðstæður kæranda á þessu tímabili.

Í kæru óski kærandi eftir undanþágu frá áskilnaði um sex mánaða ávinnslutímabil þar sem fáa daga vanti upp á til að hann uppfylli skilyrði um rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði lækki til samræmis við þá daga sem upp á vanti. Í lögum nr. 144/2020 sé ekki að finna heimild til að víkja frá áskilnaði laganna með þeim hætti sem kærandi óski eftir og því sé ekki annað unnt en hafna henni.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf til hans, dags. 19. október 2023. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 26. gr. laga nr. 144/2020.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. október 2023, um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um rétt foreldris til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur, sbr. 2. og 4. mgr. 8. gr., og því geti verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki af heilum almanaksmánuðum.

Í 22. gr. laga nr. 144/2020 kemur fram að þátttaka foreldris á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 21. gr. feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi eða launum er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein eða sem samkvæmt kjarasamningi telst fullt starf. Þá teljast enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði þau tilvik sem talin eru upp í 2. mgr. 22. gr. laganna en ákvæðið er svohljóðandi:

  1. orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,
  2. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  3. sá tími sem foreldri fær greiðslur í sorgarleyfi á grundvelli laga um sorgarleyfi eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær hjá Vinnumálastofnun, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  4. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  5. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  6. sá tími sem foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%.

Barn kæranda fæddist X 2023. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt 21. gr. laga nr. 144/2020 er því frá X 2022 og fram að fæðingardegi barnsins. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði á því tímabili í skilningi 22. gr. laganna. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu 19. til 28. ágúst 2022 en óumdeilt er að kæraandi var í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði á öðrum tíma ávinnslutímabilsins.

Fyrir liggur að kærandi flutti til Íslands 8. ágúst 2022 og hóf störf hér á landi 29. ágúst sama ár. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi verið með eldra barn sitt í aðlögun á leikskóla um miðjan ágústmánuð og því hafi hann ekki getað hafið störf fyrr.

Samkvæmt framangreindu og gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði 21. gr. laga nr. 144/2020 um að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns, en ekkert hefur komið fram í málinu um að stafliðir 2. mgr. 22. gr. laganna geti átt við um kæranda á því tímabili sem deilt er um.

Einungis vantar nokkra daga upp á að kærandi uppfylli framangreint skilyrði laga nr. 144/2020 og hefur hann með vísan til þess óskað eftir undanþágu eða að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði lækki til samræmis við þá daga sem upp á vanti. Líkt og Fæðingarorlofssjóður tekur fram í greinargerð sinni er enga heimild að finna í lögum nr. 144/2020 til að víkja frá skýru ákvæði 21. gr. við mat á því hvort foreldi hafi verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóð um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr sjóðnum er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. október 2023, um að synja umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta