Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 25/2002

Þriðjudaginn, 12. nóvember 2002

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 18. apríl 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 16. apríl 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni, með bréfi dags. 1. mars 2002.

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Hvergi kemur fram í lögum að ekki megi taka tillit til veikinda foreldris í námi. Þjóðfélagið krefst þess að þú hafir menntun af einhverju tagi. Sagt er að mennt sé máttur nám sé vinna. Af hverju njóta námsmenn þá ekki sömu réttinda þegar kemur að veikindum? Ég fæ sjúkradagpeninga af því að ég þurfti að hverfa frá námi, en ekki hærri styrk.

Námið B er á fyrirlestraformi og er að mestu sjálfsnám. Því get ég ekki sýnt fram á mætingu eins og óskað var, en er með vottorð um fullt nám frá HÍ. Einnig er Tryggingastofnun með vottorð frá HÍ að ég hafi verið fjarverandi í jólaprófum og vottorð frá lækni um að það hafi verið vegna meðgöngukvilla."

Með bréfi, dags. 30. maí 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 4. júlí 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Þó er heimilt að greiða fæðingarstyrk námsmanna vegna styttri námstíma en sex mánaða hafi foreldri verið á vinnumarkaði fram til þess að nám hófst, sbr. 4. mgr. 14. gr., og einnig í þeim tilvikum að einnar annar námi er lokið og foreldri hafi verið samfellt á vinnumarkaði eftir það og fram að fæðingu, samtals í 6 mánuði, sbr. 5. mgr. 14. gr. Frekari undantekningar á meginreglunni um að samfellt nám í sex mánuði sé forsenda fyrir greiðslu námsmannastyrks er ekki að finna í reglugerðinni eða í ffl.

Kærandi hafði verið á vinnumarkaði fram til þess að hún hóf nám á haustönn 2001. Fyrir liggur staðfesting á að hún hafi verið skráð í fullt nám á haustönn 2001 en jafnframt að hún hafi verið fjarverandi í öllum prófum. Hún fékk greidda sjúkradagpeninga námsmanna frá 15. desember 2001 fram að fæðingu barns hennar skv. læknisvottorði dags. 27. febrúar 2002 þar sem hún er sögð óvinnufær frá 1. desember 2001.

Í þeim kafla reglugerðar nr. 909/2000 sem fjallar um réttindi foreldra á vinnumarkaði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði (4. gr. rgl.) er það skýrt tekið fram að sá tími sem foreldri fær greidda sjúkradagpeninga teljist til samfellds starf. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í þeim hluta reglugerðarinnar sem lýtur að réttindum námsmanna til greiðslu fæðingarstyrks. Með vísan til þess að heimild skortir til greiðslna telur lífeyristryggingasvið sér ekki fært að verða við umsókn kæranda."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. ágúst 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Jafnframt segir að sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. framangreindrar reglugerðar er heimilt að greiða námsmanni fæðingarstyrk þrátt fyrir að skilyrði um nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Kærandi elur barn 23. febrúar 2002. Samkvæmt gögnum málsins var hún skráð í fullt nám í Háskóla Íslands veturinn 2001-2002. Hún varð að hætta námi vegna sjúkdóms sem upp kom í tengslum við meðgönguna. Viðurkennt var af Tryggingastofnun ríkisins að kærandi átti rétt á greiðslu sjúkradagpeninga sem námsmaður. Fékk hún greidda sjúkradagpeninga námsmanns frá 15. desember 2001, fram að fæðingu barnsins.

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi skilyrði 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 þar sem hún var starfandi í a.m.k. sex mánuði á vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

Guðný Björnsdóttir hdl.

Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri

Ósk Ingvarsdóttir læknir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta