Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 50/2002

Miðvikudaginn, 24. september 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Ragnhildur Benediktsdóttir, lögfræðingur, Jóhanna Jónasdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 1. ágúst 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B, hdl. f.h. A, dags. 23. júlí 2002. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 24. apríl 2002 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Málavextir:

Málavextir eru þeir að kærandi skilaði inn umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og /eða fæðingarstyrk skv. lögum 95/2000. Þar óskaði hún eftir greiðslum í 6 mánuði eða frá 01.05.2002 að telja, en samkvæmt vottorði vegna væntanlegrar barnsfæðingar vænti hún barnsins þann dag. Umsóknin var móttekin hjá þjónustumiðstöð TR þann 15. apríl 2002 og úrskurðar um það 16. apríl 2002. Kærandi hafði í síðustu  fjórtán mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag verið í fæðingarorlofi en þann 28.12.2000 ól hún einnig barn. Óskaði hún eftir samfelldum greiðslum úr fæðingarorlofssjóði þar sem hún hafði verið á vinnumarkaði samfellt síðustu sex mánuði í 100% starfi. Þá skilaði kærandi inn tilkynningu um fæðingarorlof til vinnuveitanda, sem hann skrifaði sjálfur undir og gat um sem athugasemdir að hann væri með fyrirtæki sem gengi illa og það hefði ekki getað greitt nein laun síðastliðin 2 l/2 ár.

Fæðingarorlofssjóður hafnaði greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og úrskurðaði einungis um greiðslu fæðingarstyrks D kr. fyrir hvern mánuð, sem gera að frádregnum sköttum E kr.

Rökstuðningur:

Kærandi hafði verið launþegi hjá F ehf, frá því að hann hóf aftur störf eftir fæðingarorlof, eða frá því í febrúar 2001. Kærandi átti einnig 50% í rekstrinum, en gegndi ekki stöðu framkvæmdastjóra félagsins  vegna þess að hann var nýbúinn að eignast barn var því ekki sem best inn í rekstrinum. Hann skrifar síðan undir tilkynninguna um að  að félagið hafi gengið illa og því hafi hann ekki reiknað sér nein laun.  Það er ekki rétt, kærandi var með föst laun hjá félaginu, en þar sem fjárhagsstaða félagsins var slæm, var ekki alltaf sem þau voru greidd á réttum tíma, né var staðið skil á vörslusköttum eins og staðgreiðslu og tryggingagjaldi. Er því vandséð að hægt sé að skerða rétt hennar til fæðingarorlofs á þeirri forsendu að hún hafði ekki haft tekjur, því þær hafði hún sannanlega, en það hafði ekki verið greitt af þeim þau gjöld sem lög gera ráð fyrir og þar sem reksturinn var ekki í sem bestu lagi, þá var útgáfa launaseðla ekki reglubundin. Kærandi fellur ekki undir hugtakið „sjálfstætt starfandi einstaklingur“, þar sem hún er starfsmaður einkahlutafélags og þiggur þar laun fyrir störf sín. Þá uppfyllir kærandi öll ákvæði 8. gr. laga nr. 95/2000 um rétt til fæðingarorlofs.

Reynt hefur verið að koma skikk á fjármál fyrirtækisins og það mun í næstu viku senda nefndinni afrit af kvittunum um greiðslu tryggingagjalds. Þá fylgir með kæru þessari  ljósrit af launaseðlum kæranda frá febrúar mánuði 2001 að telja, en hún  hafði föst laun, G kr. í laun.“

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 7. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„B ehf. kærir f.h. A á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dagsettri 15. apríl 2002 sótti A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 1. maí 2002 vegna væntanlegrar fæðingar barns sama dag. Með umsókninni fylgdi tilkynning um fæðingarorlof dags. 10. apríl 2002, undirrituð af henni sem  sjálfstætt starfandi einstaklingi með stimpli merktum fyrirtækinu F ehf fyrir aftan, þar sem fæðingarorlof var tilgreint frá 1. maí – 1. nóvember 2002, starfshlutfall var tilgreint 80% 6 mánuði fyrir upphaf fæðingarorlofs / áætlaðan fæðingardag en ekki útfyllt varðandi aðra mánuði auk þess sem tekið var fram að hún væri með fyrirtæki sem gangi illa og það hafi ekki getað greitt henni nein laun síðastliðin 2 ½ ár.

Af gögnum sem A hafði lagt fram með umsókn sinni og staðgreiðsluskrá RSK sást að hún hafði ekki fengið greidd nein laun. Í samræmi við það var henni með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 24. apríl 2002 synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hún uppfyllti ekki það skilyrði 1. mgr. 13. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95 /2000 (ffl.) um sex mánaða samfellt launað starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns).

Af ákvæðum l. mgr. 1. gr., 7. gr., 8. gr. og 1. mgr. 13. gr. ffl. leiðir að til þess að fara í fæðingarorlof og eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þarf foreldri að uppfylla skilyrði um að hafa verið samfellt í sex mánuði í launuðu starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Með kæru hafa verið lagðar fram kvittanir dags 30. júlí 2002 um að F ehf. hafi greitt tryggingagjald fyrir febrúar mars og apríl 2001, H kr.  fyrir hvern mánuð og handskrifaðir launaseðlar fyrir mánuðina frá febrúar 2001 – febrúar 2002 þar sem laun fyrir hvern mánuð eru G kr.

Með kæru hafa verið lagðar fram kvittanir dags 30. júlí 2002 um að F hafi greitt tryggingagjald fyrir febrúar, mars og apríl 2001, H kr. fyrir hvern mánuð og handskrifaðir launaseðlar fyrir mánuðina  frá febrúar 2001 – febrúar 2002  þar sem laun fyrir hvern mánuð eru G kr.

Fjárhæð þess tryggingagjalds sem greitt var gæti átt við þá launafjárhæð sem tilgreind er á launaseðlunum en ekki kemur  fram að það sé greitt vegna launa fyrir A. Jafnvel þó svo væri veitti það henni ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er samfellt starf í a.m.k. sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs/fæðingu barns og þeir mánuðir sem greitt var fyrir voru meira en ári fyrir fæðinguna.

Varðandi launaseðlana þá skal bent á ákvæði 2. mgr. 15. gr. ffl. þar sem segir:

„Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum  sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.“

Í staðgreiðsluskrá RSK er ekki að finna neinar upplýsingar um að A hafí fengið greidd þau laun sem koma fram í launaseðlunum, hún hefur ekki  gefið þau upp  á skattframtali  og þeir eru ekki fullnægjandi gögn til staðfestingar á því að þær upplýsingar sem þar er að finna séu ekki réttar. Gögn þess efnis gætu t.d. verið á þá leið að  búið væri að gera skil á  launatengdum gjöldum til skattyfirvalda eða að launaseðlunum hafi verið framvísað hjá RSK ti1 þess að hægt væri að innheimta launatengd gjöld hjá vinnuveitanda. Að endingu skal vakin athygli á því að jafnvel þó slíkum gögnum væri framvísað uppfyllti hún ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið samfellt í starfi í sex mánuði  fyrir upphaf fæðingarorlofs þar sem engir launaseðlar eru fyrir mars og apríl 2002.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. apríl 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra  varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri þurfi að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Kærandi ól barn 19. apríl 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 19. október 2001 til fæðingardags barns.

Með hliðsjón af staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra verður ekki séð að kærandi hafi gefið upp laun vegna framangreinds tímabils.

Í tilkynningu kæranda um fæðingarorlof dags. 10. apríl 2002 stendur orðrétt „Er með fyrirtæki sem gengur illa og það hefur ekki getað greitt mér nein laun síðastliðin 2 1/2 ár“. Í gögnum málsins eru launaseðlar vegna mánaðanna febrúar 2001 til og með febrúar 2002. Launaseðlar fyrir mánuðina mars 2002 og fram að fæðingu barnsins liggja ekki fyrir, eins og fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. apríl 2003.

Með hliðsjón af framanrituðu og fyrirliggjandi gögnum uppfyllir kærandi ekki skilyrði um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríksins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Ragnhildur Benediktsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta