Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 1/2003

Þriðjudaginn, 24. júní 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann13. janúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 7. janúar 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem barst með bréfi dags. 13. nóvember 2002 um að synja kæranda um framlengingu á greiðslu í fæðingarorlofi vegna veikinda í tengslum við fæðingu.

Í rökstuðningi með kæru segir kærandi að veikindi sín hafi byrjað 10.ágúst 2002. Hafi hún þá leitað til læknis á B-heilbrigðisstofnunina vegna slæmra kviðverkja og krampa. Hún hafi verið send heim með töflur sem virkuðu alls ekki.  Hafi hún verið með verki og krampa af og til en haldið þeim svo til niðri með verkjalyfjum. Þann 3. október hafi hún gefist upp og leitað til læknis á ný.  Hafi hún þá fengið sprautu með verkjalyfjum og átt að fara í rannsókn seinna. Síðan segir í kærunni:

 

“Laugardag 05.10.2002 fór móðir mín með mig á D-sjúkrahús og þar var ég lögð strax inn. Ég var komin með briskirtilsbólgu og síðar kom í ljós að ég var með gallsteina líka. Ég þurfti að vera alveg fastandi og á verkjalyfjum og var mjög slöpp. Ég fór í ýmsar rannsóknir og viku seinna var gallblaðra mín tekin í aðgerð af E, skurðlækni. Ég var inni á D-sjúkrahúsi í rúma níu sólarhringa og var unnusti minn, sem tók sér frí í vinnu, og drengur okkar, fæddur 23.07.02 hjá mér mestan tímann. Þegar heim kom var ég svo heppin að eiga góða að sem gátu skipst á að stoða mig, eða í raun hugsa um barnið meðan unnusti minn var í vinnu. Ekki gat ég séð um hann 2 1/2 mánaða. Þegar ég leitaði skýringa á veikindum mínum hjá hinu ágæta starfsfólki D-sjúkrahúss var mér tjáð að þetta væri mjög algengt hjá konum eftir fæðingu. Ég hef  verið hraust og aldrei neytt neinna vímuefna. Ég tel mig eiga rétt á lengingu orlofs því ég missti úr margar vikur í að njóta og annast barn mitt og varla búin að jafna mig eftir fæðingu. Meðan aðrar mæður voru í göngum saman lá ég í rúminu og gat ekkert gert. Ég fæ þessar vikur ekki tilbaka með nýfæddum syni mínum og því myndi lenging bæta það aðeins upp.“

 

Með bréfi, dags. 22. janúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. mars 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á framlengingu á fæðingarorlofi  vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu

Með læknisvottorði dags. 27. október 2002 var sótt um framlengingu á fæðingarorlofi kæranda vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu. Með bréfi læknasviðs dags. 13. nóvember var kæranda tilkynnt um synjun á þeim grundvelli að veikindi móður væri  ekki að rekja til fæðingar.

Í 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og  foreldraorlof nr. 95/2000  er að finna heimild til að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar   í tengslum við fæðingu. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir um þetta að miðað sé við  að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt.

Samkvæmt upplýsingum sem koma fram í læknisvottorði eignaðist kærandi barn 23. júlí, fljótlega byrjaði að bera á slæmum  kviðverkjaköstum og hún var lögð inn á spítala með gallsteinabrisbólgu 5. október. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um að veikindin tengist fæðingunni.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. mars 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda hennar í tengslum við fæðingu.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í 5. mgr. 17. gr. ffl. segir að þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1. - 4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði læknis. Enn fremur segir þar að tryggingayfirlæknir skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og að ákvörðun hans sé heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.

Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga segir að komi til framlengingar fæðingarorlofs verði veikindi móður að vera rakin til fæðingarinnar og valda því að hún geti ekki annast barnið. Í 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati lækna ófær um að annast barn sitt.

Samkvæmt læknisfræðilegu mati verða veikindi kæranda ekki talin vera í tengslum við fæðingu. Með hliðsjón af því og með vísan til 3. og 5. mgr. 17. gr. ffl. og 11. gr. reglugerðar nr. 909/2002 verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði þess að fá framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki öðlast rétt til framlengingar fæðingarorlofs og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á framlengingu fæðingarorlofs A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta