Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 27/2005

Þriðjudaginn, 11. október 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 15. júlí 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 14. júlí 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 30. maí 2005 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Með bréfi dags. 30. maí sl., var undirritaðri kynnt niðurstaða útreiknings vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem grundvöllur útreiknings er árin 2003 og 2004. Fyrra útreikningsárið þ.e. árið 2003 var ég í fæðingarorlofi þar sem við ættleiddum stúlku frá B-landi og var það heppin að launagreiðandi minn gaf mér kost á að dreifa því á tólf mánaða tímabil. Ég hóf fæðingarorlof mitt í nóvember 2002 og eru því 11 mánuðir af árinu 2003 fæðingarorlof sem notað er til grundvallar útreikning núverandi fæðingarorlofs. Ég hef gert ráð fyrir því að hafa sama háttinn á nú og dreifa orlofinu á 12 mánuði þar sem ég tel mikilvægt að dvelja sem lengst hjá barninu, en dóttur mína ættleiddum við frá D-landi með tilheyrandi kostnaði sem er yfir E-krónur.

Biðtími vegna ættleiðingar erlendis frá er allt frá 17 mánuðum til 3ja ára. Í okkar tilfelli biðum við í rúm 2 ár frá því að við skráðum okkur á biðlista og kom því breytingin nú um áramót gjörsamlega í bakið á okkur, þar sem við höfðum miðað okkar fjárhagslegu skuldbindingar vegna kostnaðar við ættleiðinguna við óbreytt fyrirkomulag fyrirhugaðs fæðingarorlofs. Það gefur því auga um leið að breytingar á lögunum munu gera okkur mjög erfitt fyrir fjárhagslega.

Úrskurður nefndarinnar nr. 25.2004 fjallar að hluta til um svipað mál þ.e. efni 2. mgr. 13. gr. laganna, en þar er úrskurður nefndarinnar skýr hvað þetta mál varðar og þá á grundvelli laganna um Fæðingarorlofssjóð frá árinu 2000.

Ekki hefur reynt á efni 2. mgr. 13. gr. laganna á grundvelli lagabreytinganna sem tóku gildi um síðustu áramót og viljum við því láta reyna á það hvort einhver breyting hafi orðið þar á þ.e. að tillit sé tekið til þess að undirrituð var í fæðingarorlofi næstum helming þess tíma sem útreikningur núverandi fæðingarorlofs er grundvallaður á.“

 

Með bréfi, dagsettu 19. ágúst 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 1. september 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 14. apríl 2005, sem móttekin var 18. apríl 2005, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem hún ættleiddi frá D-landi og væntanlegt var til Íslands í maí 2005. Kærandi óskaði eftir að fá greitt úr Fæðingarorlofssjóði sem samsvaraði sex mánaða fæðingarorlofsgreiðslum og að greiðslunum yrði dreift á 12 mánuði frá 1. maí 2005.

Með umsókn kæranda fylgdu yfirlýsing Íslenskrar ættleiðingar vegna ættleiðingar, dags. 31. mars 2005, forsamþykki dómsmálaráðuneytisins til ættleiðingar í D-landi, dags. 27. júlí 2004, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 14. og 18. apríl 2005 og launaseðlar kæranda fyrir febrúar og mars 2005. Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 30. maí 2005, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 1. maí 2005 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hennar samkvæmt skrá skattyfirvalda. Fram kom í bréfinu að útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda væri miðaður við tekjur hennar á árunum 2003 og 2004.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 segir að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir síðan að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í fjórum stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði. Þannig telst m.a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti til þátttöku á vinnumarkaði, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Tryggingastofnun ríkisins skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Í 2. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof er að finna skýr lagafyrirmæli um það hvernig greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skuli reiknaðar út. Útreikningur á greiðslum til kæranda var, í samræmi við ákvæði þessi, byggður á tekjum kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK á árunum 2003 og 2004, eins og fyrr segir, enda taldist kærandi hafa verið á innlendum vinnumarkaði allan þann tíma, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árnum 2003 og 2004 og telur lífeyristryggingasvið að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda.

Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 30. maí 2005, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 12. september 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004 öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu. Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að starf á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér starf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur, orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr.

Samkvæmt yfirlýsingu íslenskrar ættleiðingar dagsettri 31. mars 2005 fékk kærandi forsamþykki dómsmálaráðuneytisins til ættleiðingar í D-landi, þann 27. júlí 2004. Kærandi óskaði vegna þessa eftir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði frá maí 2005, þar sem barnið var væntanlegt á þeim tíma til landsins.

Útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skal byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Tryggingastofnun ríkisins skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr., sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga 90/2004. Samkvæmt gögnum málsins liggur skýrt fyrir hvaða tekjur kærandi hafði á viðmiðunartímabilinu og staðfestar voru af skattyfirvöldum.

Framangreind ákvæði laganna kveða skýrt á um það hvaða viðmiðunartímabil skuli lagt til grundvallar við útreikning greiðslna úr Fæðingaorlofssjóði. Kærandi var á innlendum vinnumarkaði á því tímabili, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Fyrri greiðslur í fæðingaorlofi eru lagðar til grundvallar við útreikninginn eins og aðrar tekjur. Engar undantekningar er að finna í lögunum eða reglugerðinni hvað þetta varðar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja um breytingu á útreikningi á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um breytingu á útreikningi á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta