Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 30/2005

Miðvikudaginn, 2. nóvember 2005

 A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 15. ágúst 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi 26. júlí 2005 um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Hefur umsókn minni um fæðingarstyrk verið hafnað. Ástæða þess er að ekki þykir ljóst að ég hafi flutt lögheimili mitt til B-lands vegna náms í október 2002... Umsókn mín um fæðingarstyrk byggir á því að réttur minn hér í B-landi er takmarkaður þar sem ég fæ námslán frá Íslandi. Hér á ég aðeins rétt á grunnstyrk sem er D krónur á dag í sex mánuði. Þar af greiði ég 22% skatt. Þetta gerir að sú upphæð sem ég fæ greidda mánaðarlega er E krónur eða sem nemur F í íslenskum krónum... Ég sótti um hluta fæðingarstyrks eins og möguleiki er á vegna náms skv. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Ég vil hér með sýna fram á að flutningur lögheimilis míns til B-lands í október 2002 hafi verið vegna náms og þegar ég flutti til B-lands í október 2002 var áætlun mín að hefja nám í G-fræði haustið 2003. Ástæð þess að flutningur átti sér stað svo löngum tíma áður en námið hófst var að ná tökum á H-málinu. Þetta ráð fékk frá námsráðgjafa sem ég ráðfærði mig áður en ég tók ákvörðun um námið. Þegar ég kom út hóf ég H-nám sem boðið var upp á fyrir alla nýja innflytjendur og lauk því 28.03.2003. Námið er ekki lánshæft skv. Lín... Á sama tíma sótti ég um nám í G-fræði við I-háskóla. Ég komst ekki að haustið 2003 vegna harðrar samkeppni um þau pláss sem í boði voru. Meðaleinkunn mín er yfirreiknuð í H einkunnarkerfi x en krafa í G-fræði var...x Þetta gerði það að verkum að ég hóf í staðinn nám í J-fræði í janúar 2004. Eins og sjá má á árangri mínum frá K-háskóla ...

Ég kæri því hér með ákvörðun TR að synja umsókn minni um fæðingarstyrk. Ljóst er að ég flutti lögheimili mitt til B-lands í október 2002 vegna náms þrátt fyrir að ég hafi ekki hafið lánshæft nám fyrr en í janúar 2004.“

 

Með bréfi, dagsettu 16. ágúst 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 29. ágúst 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004.

Kærandi, sem samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Ísland hefur verið með lögheimili í B-landi frá 7. október 2002, sótti með umsókn, dags. 31. maí 2005, um fæðingarstyrk námsmanna vegna barnsfæðingar, sem áætluð var 18. júní 2005.

Með umsókn kæranda fylgdu bréf hennar, dags. 2. júní 2005, vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 31. maí 2005, staðfesting á rétti kæranda til fæðingarorlofsgreiðslna í B-lands, dags. 31. maí 2005 og yfirlýsing Lánasjóðs íslenskra námsmanna um nám, dags. 30. maí 2005, ásamt lánsáætlun.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 14. júlí 2005, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda. Þann 25. júlí 2005 barst lífeyristryggingasviði útprentun K-háskóla um nám og námsframvindu kæranda við skólann, upplýsingar frá L, dags. 18. júlí 2005 og staðfestingar M, dags. 28. mars og 30. apríl 2003, varðandi H-námskeið kæranda.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu enn fremur fyrir upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands og staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Kæranda var með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 26. júlí 2005, synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir slíkum greiðslum vegna búsetu sinnar í B-landi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Í 2. mgr. 19. gr. er kveðið á um að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k fimm ár fyrir flutning. Njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar í búsetulandinu kemur hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr. laganna.

Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, en þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar, sem árétta lögheimilisskilyrði 2. ml. 2. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og undanþáguheimildina frá því, sbr. 3. ml. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í lokamálslið 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er síðan tekið fram að einstök námskeið teljist ekki til fulls náms. 

Kærandi flutti, eins og áður er getið, lögheimili sitt til B-lands í október 2002.  Kærandi hóf ekki fullt nám samkvæmt framangreindri skilgreiningu 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 fyrr en í janúar 2004. Hafði hún þá áður sótt námskeið í H-máli, sem hún lauk í lok marsmánaðar 2003. Í gögnum málsins er hvorki að finna umsóknir né önnur gögn því til staðfestingar að tilgangur lögheimilisflutnings kæranda í október 2002 hafi verið tímabundinn flutningur vegna þess náms sem kærandi hóf u.þ.b. 15 mánuðum síðar eða í janúar 2004.  Kærandi segir á hinn bóginn sjálf í kæru sinni að hún hafi sótt um að hefja nám í G-fræði við I-háskóla á haustönn 2003 en ekki fengið inngöngu og hafið þess í stað nám í J-fræði í K-háskóla í janúar 2004.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið ekki unnt að fallast á að uppfyllt séu skilyrði 3. ml. 2. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði 2. ml. 2. mgr. 19. gr. laganna og 16. gr. reglugerðarinnar. Því telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda.

 

Greinargerðir voru sendar kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. september 2005. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004 eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi framangreindra laga er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 7. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar segir að fullt nám í skilningi laga nr. 95/2000 og reglugerðarinnar teljist 75-100%  samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. fyrrnefndarar reglugerðar. Einstök námskeið teljist ekki til fulls náms.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004 er heimilt að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið með lögheimili í B-landi frá 7. október 2002. Hún lauk H-námskeiði 28. mars 2003. Sótti um inngöngu í G-fræði við I-háskóla á haustönn 2003 en fékk ekki inngöngu, þess í stað kveðst kærandi hafa hafið nám í J-fræði í K-háskóla í janúar 2004.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir ekki nægjanlega staðfest að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda til B-lands hafi verið nám hennar sem hófst í janúar 2004. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 2. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004. Samkvæmt því skapar nám hennar við K-háskóla henni ekki rétt til fæðingarstyrks sem námsmanni, sbr. 1. mgr. 19. gr. ffl. sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanns staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um fæðingarstyrk sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta