Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 47/2002

Þriðjudaginn, 26. nóvember 2002

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 10. júlí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 19. júní 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 9. apríl 2002, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Þegar stelpan mín fæddist var ég búin að fá að vita að gerðar voru breytingar og ég hafði rétt til að vera heima á launum frá Tryggingastofnun í tvo mánuði, var það mér mikils virði því ég elska börnin mín mjög mikið og vil fá að eyða sem mestum tíma með þeim. Það brast vegna þess að ég fékk betri vinnu en þurfti að taka meirapróf til að fá hana, svo ég þurfti að þiggja atvinnuleysisbætur í einhverjar vikur. Ég átti að mæta á fund til að leita að vinnu en vissi að ég var búinn að fá vinnu svo ég mætti ekki plús ein stimplun gleymdist og þar með fékk ég ekki fæðingarorlof. Svo ég átti að fá styrk sem hljóðar uppá að ég held 30.000 kr. mínus skatt, en það segir sig sjálft að maður með fjögurra manna fjölskyldu sér ekki fyrir sér með þeim launum. Svo ég ætlaði að reyna að vinna eitthvað með en það má víst ekki. Þess vegna bið ég ykkur að endurskoða mál mitt svo ég fái einhvern tíma með fjölskyldu minni eins og aðrir á þessum tímum. Svo ég bið ykkur um undanþágu gagnvart þessum fundi og stimplun og skoða mál mitt í ljósi þess að ég hef verið í samfelldri vinnu síðustu þrjú ár ."

Með bréfi, dags. 8. ágúst 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 15. ágúst 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærð er synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Barn kæranda er fætt þann 21. febrúar 2002. Til að uppfylla skilyrði um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði kærandi þurft að vera samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns), sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, eða frá 22. ágúst 2001. Starfshlutfall hvers mánaðar hefði þurft að nema a.m.k. 25%, skv. 2. mgr. 7. gr. laganna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var kærandi ekki með laun í októbermánuði 2001 og uppfyllti ekki á annan hátt skilyrði 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 909/2000. Þar sem hann var ekki í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir fæðingu barns varð að synja honum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. ágúst 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu úr Fæðingar­orlofs­sjóði í fæðingarorlofi.

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að til samfellds starfs teljist enn fremur:

"a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa."

Barn kæranda er fætt 21. febrúar 2002. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 21. ágúst 2001 að fæðingardegi barnsins. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir hann ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hann starfaði ekki á vinnumarkaði í október 2001 á framangreindu tímabili né ávann sér rétt á annan hátt, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Hvorki í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 eða reglugerð nr. 909/2000 er að finna heimild til að víkja frá skilyrði 13. gr. laganna um sex mánaða samfellt starf.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A er staðfest.

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta