Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 4/2003

Föstudaginn, 16. janúar 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 6. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 21. nóvember 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Við vorum nýbakaðir foreldrar – skömmu eftir að við vorum líka nýbúin að taka við búrekstri hér á bænum B í D-sveit. Okkur lánaðist falleg dóttir og mikið bú sem við stundum nú búskap á en;

Við höfum þegar sent ykkur bréf sem skýrir þá skrýtnu stöðu sem við erum nú í því að við sóttum um fæðingarorlof heilu ári eftir að barnið fæddist – orlof sem okkur finnst að okkur beri að fá.

En eitthvað er bogið við þetta ferli allt því að við höfum tvívegis fengið neitun frá Fæðingarorlofsjóði – fyrst aðeins vegna þess að umsóknin var illa útfyllt en síðar vegna þess að ekki fannst á okkur reiknað endurgjald árið 2001 – árið sem barnið fæðist.

Við erum búin að vera með bókara og okkur grunaði ekki að eitthvað væri athugavert við okkar fjármál í þessum efnum en það kom á daginn að svo var – við erum hinsvegar búin að vinna í okkar málum og búin að koma okkar reiknaða endurgjaldi á hreint og viljum nú eins og segir í bréfinu fá það sem okkur ber að fá að okkar mati út úr Fæðingarorlofsjóði... – eða að minnsta kosti fá það litla sem við erum þegar búin að fá – eitthvað sem heitir fæðingarstyrkur – leiðrétt því að samkvæmt okkar skilningi er þessi styrkur RANGLEGA ÚTREIKNAÐUR.

Þar segir að það vanti skattkort og að A eigi ekki rétt á fæðingarstyrk því að hann hafi ekki verið samfellt á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns???

Þetta teljum við vera rangt og bendum einnig á að okkur var bent á að koma með vinnutengdar tekjur heilt ár aftur í tímann – en hvergi er minnst á það í ferlinu!!?

Við vorum búsett að E í D-sveit fyrir þann tíma að við gerðumst bændur hér að B sem einnig er í D-sveit –

A vann sem launamaður hjá F og hjá G í D-sveit bæði sem launþegi og sem verktaki eftir að við fórum í þá stöðu að  verða bændur á B – (A hóf störf við búið strax og okkur var það ljóst að hér myndum við festa rætur – það var einhverntíma upp úr áramótum 2001 ).

En við höfum auk þess ávallt drýgt tekjur okkar með því að vera lausamenn hér í sveit – þ.e.a.s. við höfum farið á milli býla og leyst af þá bændur sem hafa ætlað að  fara í frí.

Þetta varð J starf hér í D-sveit eftir að hún sem hafði verið launþegi hjá K hætti störfum þar – sem slíkur (lausamaður) starfaði hún sem verktaki hjá litlu kt. Fyrirtæki sem stofnað var á okkar kt.

Og gekk reksturinn vel, mikið var að gera en mikill vill meira og þegar okkur bauðst það að gerast hér arftakar þá kusum við það með glöðu geði en óraði ekki fyrir þeirri vinnu sem liggur í flutningum – snúningum með kassa/blöð og plögg. Þarna týndust skjölin varðandi fæðingarorlofið – og því sóttum við ekki fyrr en svo seint um að fá það sem eins og við höfum áður sagt; við töldum að við ættum rétt að fá út úr Fæðingarorlofssjóði.

Við höfum nú týnt til það helsta sem stendur í fyrra bréfi til ykkar. Við óskum þess að þetta mál fari nú að enda.. Við erum búin að reyna að greiða veginn til að tryggja leiðréttingu.“

 

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 7. maí 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dagsettri 1. júní 2002 sem barst í október 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í einn mánuð vegna fæðingar barns 24. júlí 2001. Með umsókninni fylgdi vottorð vinnuveitanda v/fæðingarorlofs (eyðublað sem var notað fyrir gildistöku laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000) frá H þar sem fram kom að hann hefði unnið 646 vinnustundir á tímabilinu 1. janúar – 1. júlí 2001 sem hann hefði fengið greiddar L kr. í laun fyrir og ljósrit staðfest 26. september 2002 af skattframtali 2002 stimplað móttekið af Skattstofu I 9. september 2002 þar sem uppgefið reiknað endurgjald á árinu 2001 var R kr. og tilgreind starfsemi var landbúnaður.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 29. október 2002 var kæranda tilkynnt að ekki væri hægt að afgreiða umsóknina vegna þess að henni fylgdi ekki tilkynning til vinnuveitanda um tilhögun fæðingarorlofs. Umsóknin væri í biðstöðu þar til hún bærist. Tekið var fram að þar sem hann hefði verið með laun alla mánuði ársins 2001 geti hann ekki verið í fæðingarorlofi á því ári en hún gæti verið í fæðingarorlofi með skertu starfshlutfalli og að fæðingarorlofið verði að taka áður en barn nær 18 mánaða aldri. Það að hann hafi verið með laun alla mánuði ársins virðist byggjast á misskilningi viðkomandi starfsmanns um að reiknað endurgjald sem gefið var upp á skattframtali 2002 væri fyrir alla mánuði ársins 2001.

Í framhaldi bárust tilkynning um fæðingarorlof dags. 12. nóvember 2002 undirrituð af honum sem sjálfstætt starfandi einstaklingi og óútfyllt að öðru leyti, og bréf frá maka hans dags. 12. nóvember 2002 þar sem m.a. kom fram að þau hefði flutt frá E að B þar sem hann hefði verið sjálfstæður atvinnurekandi síðan 1. apríl 2002, fyrir þann tíma hefði hann verið sjálfstæður atvinnurekandi auk þess sem hann hefði starfað sem verkamaður hjá G.

Samkvæmt þjóðskrá Hagstofu íslands var lögheimili hans flutt frá E að B 10. júní 2001.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafði kærandi verið að fá greidd laun frá H á tímabilinu janúar – júlí 2001, lægri þó í maí og júlí og engin í júní. Hann hafði á árinu 2000 verið með laun janúar – maí og september – október og skráður með áætlun á reiknuðu endurgjaldi skv. flokki E1 (sem er fyrir ýmsa starfsemi og einyrkja) S kr. á  mánuði sem gerð höfðu verið regluleg skil á. Ekki lágu fyrir neinar upplýsingar um reiknað endurgjald á árinu 2001 fyrir utan það sem kom fram á skattframtali 2002, þ.á.m. hvort greitt hefði verið tryggingagjald af því, en frá janúar 2002 var uppgefið reiknað endurgjald hans T kr. á mánuði og hafði tryggingagjald verið greitt.

Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi deildarstjóra fæðingarorlofsmála og lögfræðinga 20. nóvember 2002 og var þar komist að þeirri niðurstöðu að þær upplýsingar sem kæmu fram í skrám skattyfirvalda og bréfi maka hans bæru með sér að eftir að hann hefði ekki verið samfellt í a.m.k. sex mánuði í starfi fram til þess að fæðingarorlof hefði  getað hafist. Skv. staðgreiðsluskrá var starf hans hjá H ekki samfellt, ekki hafði verið gerð áætlun um reiknað endurgjald og ekki hafði verið framvísað gögnum um greiðslu tryggingagjalds.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 21. nóvember 2002. var kæranda  synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) að hafa verið samfellt á vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs/fæðingu barns. Af gögnum sem hún hafi lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hann hafi ekki verið á vinnumarkaði 1.- 24.júlí 2001.

Í bréfinu er synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði byggð á því að hann hafí ekki verið á vinnumarkaði frá 1.- 24. júlí 2001. Með réttu hefði synjunin átti að byggjast á því að samkvæmt upplýsingum í staðgreiðsluskrá RSK og í vottorði vinnuveitanda uppfyllti hann ekki skilyrði um a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði frá maímánuði.

6. desember 2002, þ.e. eftir að umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafði verið synjað, var nýskráð áætlun um reiknað endurgjald fyrir hann skv. flokki G2 2 (sem er fyrir maka bónda með kúabú, sauðfé eða hross) júní – desember 2001, U kr. á mánuði eða samtals V kr. sem er U kr. hærra en það sem gefið var upp á skattframtali 2002.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. maí 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Með bréfi dags. 8. desember 2003 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála sérstaklega eftir nánari upplýsingum um störf  kæranda í maí og júní 2001. Með bréfi kæranda dagsettu í desember 2003 var fyrri rökstuðningur ítrekaður, en frekari gögn fylgdu ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sagði fyrir breytingu þá sem gerð var á henni með reglugerð nr. 186/2003 að til samfellds starfs teljist enn fremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Barn kæranda fæddist 24. júlí 2001. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 24. janúar 2001 til fæðingardags barns.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. byggir útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á upplýsingum er Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Jafnframt segir í ákvæðinu að telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skuli það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá hafði kærandi fengið launagreiðslur frá H á árinu 2001 samtals L kr. Þar af voru tilgreindar launagreiðslur í janúar til og með apríl 2001 samtals M kr., greiðsla í maí N kr., engin greiðsla í júní og P kr. í júlí. Samkvæmt vottorði H vegna fæðingarorlofs, dags. 22. febrúar 2002, er kærandi sagður hafa stundað vinnu hjá fyrirtækinu frá 1. janúar 2001 til 1. júlí 2001 samtals 646 dagvinnustundir og vinnulaun samtals L kr. Engar upplýsingar komu fram á tryggingagjaldsskrá um sjálfstæða atvinnustarfsemi kæranda á árinu 2001. Á árinu 2001 hafði ekki legið fyrir áætlun um reiknað endurgjald kæranda vegna eigin atvinnureksturs en samkvæmt skattframtali 2002 var talið fram reiknað endurgjald R kr. vegna landbúnaðar. Staðfest er að kærandi flutti lögheimili sitt að B 10. júní 2001. Ekki var skráð áætlun vegna reiknaðs endurgjalds vegna ársins 2001 fyrr en í desember 2002. 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið fela fyrirliggjandi gögn að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála eigi í sér fullnægjandi staðfestingu á því að uppfyllt sé skilyrði laganna um sex mánaða samfellt starf þ.e. tímabilið 24. janúar til fæðingardags barns.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta