Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 22/2003

Mánudaginn, 22. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 27. mars 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá B hdl. f.h. A, dags. 25. mars 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 11. febrúar 2003 um að synja kæranda um hækkun á áður ákveðnum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Umbjóðandi minn varð faðir 22.12.2002 en mánuði áður, 22.11.2002, hafði hann sótt um fæðingarorlof frá fæðingardegi barnsins, sbr. fskj. nr. 1. Lagði hann fram gögn um laun sín til Tryggingastofnunar ríkisins en umbj. minn er D að mennt og starfar sjálfstætt.

Starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins byggðu greiðslur til umbj. míns í fæðingarorlofinu á upplýsingum frá Ríkisskattstjóra og var þar tekið mið af reiknuðu endurgjaldi umbj. míns eins og  Ríkisskattstjóri áætlaði það frá mánuði til mánaðar árið 2002 sbr. bréf stofnunarinnar, dags 02.01.2003 á fskj.nr. 2. Var sú afgreiðsla stofnunarinnar í samræmi við 3. málslið 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, þar sem segir að vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingargjaldi af reiknuðu endurgjaldi á tilteknu tímabili.

Á þeim tíma sem Tryggingastofnun ríkisins hafði mál umbj. míns til afgreiðslu vann E, löggiltur endurskoðandi hjá F ehf., að lagfæringu á reiknuðu endurgjaldi hans, til greiðslu tryggingagjalds,  enda hafði umbj. minn þurft árið áður að greiða  eftir á G kr. í vangreidda skatta. Ástæður þessa má rekja til þess að mat á  reiknuðu endurgjaldi hans hafði verið of lágt. Var það mat endurskoðandans að lagfæringa væri þörf og reikna bæri honum hærra endurgjald. Í bréfi endurskoðandans, dags. 14.03.2003, sbr. fskj. nr. 3, segir meðal annars orðrétt:

A óskaði eftir breytingu á fjárhæð greiðslna í fæðingarorlofi á þeim grundvelli að fjárhæð reiknaðs endurgjalds undanfarna mánuði hafi verið of lágt miðað við vinnuframlag hans og afkomu rekstrarins á á árinu 2002 sbr. ákvæði í lögum nr. 75/1981 þ.e. 2.tl. 7.gr. A og sbr. l. mgr. 59.gr. Ákvæði um þetta koma einnig skýrt fram í reglum Ríkisskattstjóra (Rsk.) um reiknað endurgjald – Reglur og viðmiðunarfjárhæðir tekjuárið 2002 og birtar voru í auglýsingu nr. 4/2002 dags. 17. janúar 2002 (reglur þessar eru meðfylgjandi greinargerðinni [sjá fskj. nr. 4]). Hann lagði því fram viðbótar greiðsluseðla vegna reiknaðs endurgjalds, en samkvæmt reglum um fæðingarorlof til sjálfstætt starfandi aðila miðast fæðingarorlofsgreiðslur við það, í janúar sl. vegna mánaðanna ágúst og september árið 2002. Hækkun reiknaðs endurgjalds var H kr. fyrir hvorn mánuð en ljóst var að þetta voru mjög annasamir mánuðir í rekstri hans. Vegna þess greiddi hann lögbundið tryggingagjald og staðgreiðslu opinberra gjalda.

Endurskoðandinn taldi eðlilegt að umbj. minn hækkaði reiknað endurgjald sitt enda væri slík ákvörðun lögmæt, sbr. þær grundvallarreglur sem kæmu fram í 2. tölulið 7. gr. A í lögum nr. 75/1981 og í samræmi við megininntak reglna embættis Ríkisskattstjóra. Af þeim sökum skilaði umbj. minn háum fjárhæðum í tryggingagjaldi og reiknuðu endurgjaldi til Ríkisskattstjóra 24.01.2003, sbr. fskj nr. 5.

Með bréfi I, fyrir hönd lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11.02.2003, sbr. fskj. nr. 6. er umsókn umbj. míns um hærri greiðslur í fæðingarorlofi en stofnunin hafði þegar ákveðið, hafnað, en sú ákvörðun er með öllu órökstudd. Þannig segir orðrétt í bréfinu:

Lífeyristryggingasviði hafa borist viðbótargögn vegna umsóknar þinnar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. – Viðbótargögn breyta ekki fyrri afgreiðslu.

Svar stofnunarinnar var alls endis ófullnægjandi og var því krafist rökstuðnings fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Rökstuðningur I, fyrir hönd lífeyristryggingasviðs, í bréfi dags. 28.02.2003, sbr. fskj. nr. 7. er með ólíkindum og byggir hún á fullyrðingu um að umbj. minn hygðist hafa rangt við og svíkja út fé frá stofnuninni. Vinnubrögð af þessum toga eru ólíðandi mínu mati og stofnuninni til vansa. Í bréfinu segir orðrétt:

Borist hafa viðbótargögn vegna umsóknar þinnar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. – Lífeyristryggingasvið lítur svo á að þær breytingar sem gerðar hafa verið á reiknuðum launum þínum hjá RSK eftir að þér var sendur úrskurður um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf dags. 2. janúar s.l., séu gerðar til að auka rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og því sé ekki rétt að taka tillit til þeirra. – Viðbótargögnin breyta því ekki fyrri afgreiðslu.

Með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga tel ég að á umbj. mínum hafi verið brotinn réttur, þ.á.m. með vísan til rannsóknarreglu laganna. Ekki verður séð að framangreindur starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins hafi með nokkru móti reynt að afla sé einhverra gagna til að byggja þá niðurstöðu sína á, að umbj. minn hafi sinnt lagaskyldum sínum í þeim tilgangi einum að svíkja út fjármuni úr fæðingarorlofssjóði Tryggingastofnunar ríkisins. Honum er hér refsað fyrir að sinna skýrum lagaboðum, sem að sjálfsögðu fylgja bæði réttindi og skyldur og skyldur látnar haldast en réttindi numin brott. Þessi niðurstaða vekur sérstaka furðu í því ljósi að þeir fjármunir sem umbj. minn innti af hendi til embættis Ríkisskattstjóra eru sennilega hærri en þau viðbótarréttindi sem hann öðlaðist fyrir vikið úr fæðingarorlofssjóði Tryggingastofnunar ríkisins.

Eins og lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eru úr garði gerð, virðist blasa við mismunun milli launþega annars vegar og sjálfstæðra atvinnurekenda, hins vegar, án þess að sýnilegt sé fyrir því markmið almenningi til heilla. Mismununin byggir á því að launþegar fá greitt úr fæðingarorlofssjóði miðað við heildartekjur sínar yfir tiltekið tímabil en sjálfstæðir atvinnurekendur miðað við reiknað endurgjald sem oft og tíðum nemur mun lægri fjárhæðum en raunverulegar tekjur þeirra sem þeir síðar greiða fulla skatta af eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Tilgangur þessarar mismununar virðist liggja í þeirri hvatningu löggjafarvaldsins að atvinnurekendur reikni sér hærra endurgjald en ella og greiði þar með hærra tryggingagjald. Það er einmitt með tryggingagjaldinu sem fæðingarorlof launþega og sjálfstæðra atvinnurekenda er kostað. Til þess að ná þessu markmiði, að tryggingagjaldið hækki almennt, beitir löggjafarvaldið þeirri sérstöku aðferðarfræði, að mismuna launþegum annars vegar og sjálfstæðum atvinnurekendum, hins vegar, með þeim hætti að síðarnefndi hópurinn á það ávallt á hættu að eiga minni réttindi úr sjóðnum en fyrr nefndi hópurinn. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að þeir sem borgi njóti minni réttinda. Að mínu mati stenst þessi mismunun ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og er áskilinn réttur til að bera þetta atriði fyrir hina almennu dómstóla

Með vísan til framangreinds rökstuðnings er þess í fyrsta lagi krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði vísað aftur til afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs og rökstuðnings krafist fyrir þeim sleggjudómum starfsmanna stofnunarinnar, að umbj. minn hafi haft í hyggju að svíkja út fé úr sjóðnum og vísast í þeim efnum til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Í öðru lagi byggir krafan um heimvísun á andmælareglu stjórnsýslulaga enda fékk umbj. minn ekki tækifæri til að verja hendur sínar og rökstyðja eftirá greitt tryggingagjald áður en starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins dæmdu gerðir hans og töldu hann vera að svindla á kerfinu. Ef heimvísun málsins verður hafnað er þess krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur fæðingarorlofs til umbj. míns verði hrundið og að viðurkenndur verði réttur hans til fæðingarorlofs í samræmi við reiknað endurgjald hans á árinu 2002 að viðbættum þeim fjármunum sem hann skilaði til embættis Ríkisskattstjóra 24.01.2003, sbr. fskj. nr.5.“

 

Með bréfi, dags. 27. mars 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 23. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„B hdl. kærir f.h. A synjun á að taka til greina breytingu á reiknuðu endurgjaldi sem átti sér stað eftir að tilkynnt hafði verið um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dagsettri 22. október 2002 og móttekinni 22. nóvember sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá janúar 2003 vegna væntanlegrar fæðingar barns 2. janúar. Með fylgdi tilkynning um fæðingarorlof dags. 22. nóvember undirritað af A sem starfsmanni, vinnuveitanda annars vegar sem samþykkum og hins vegar með fyrirvara um breytingar og sem sjálfstætt starfandi einstaklingi. 25 nóvember barst á faxi ljósrit af skilagreinum vegna launagreiðslna fyrir september og október 2002 kvittaðar um greiðslu.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 9. desember 2002 var A tilkynnt að greiðsla til sjálfstætt starfandi foreldris miðist við reiknað endurgjald sem greitt hefur verið tryggingagjald af og þurfi foreldri þá að sýna fram á töku fæðingarorlofs með tilkynningu til skattyfirvalda um tímabundna lækkun á reiknuðu endurgjaldi. Þar sem hann hafi ekki gert það sé nauðsynlegt að hann geri það við fyrsta tækifæri og að umsókn hans væri í biðstöðu  þar til þessar upplýsingar lægju fyrir.

12 desember barst síðan greinargerð um reiknað endurgjald sjálfstætt starfandi manna þar sem A sótti um tímabundna niðurfellingu vegna fæðingarorlofs og þar var tilhögun fæðingarorlofs tilgreind í samræmi við áður komna tilkynningu um fæðingarorlof.

2. janúar 2003 var umsókn A afgreidd og honum send tilkynning um hverjar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til hans yrðu. Vegna þess að barnið hafði fæðst 22. desember 2002 fékk hann 2 mánuði í staðinn fyrir 3 þar sem sjálfstæður réttur föður til fæðingarorlofs var 2 mánuðir á árinu 2002 en ekki 3 mánuði eins og hann er nú orðinn frá 1. janúar 2003.

Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skal maður, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi reikna sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starfið en hann hefði haft sem laun fyrir það hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Í l. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981 segir m.a. að endurgjald fyrir vinnu manns, sem reikna skal sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., skuli eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Fjármálaráðherra setji árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun lágmarksendurgjalds skuli höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf.

Í reglum um reiknað endurgjald og viðmiðunarfjárhæðir sem settar  hafa verið árlega var lágmarksfjárhæðin fyrir flokk D3 (sem er sá flokkur sem kemur fram í áætlun um reiknað endurgjald A) J kr. á mánuði á árinu 2001, K kr. á mánuði á árinu 2002 og er L kr. á mánuði á árinu 2003.

Í 1. mgr. 13. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segir m.a. að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Í 3 mgr. 13. gr. segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldri skuli nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil.

Samkvæmt yfirliti um reiknað endurgjald var áætlað reiknað endurgjald A á árinu 2001 skv. flokki D3 M kr. á mánuði á árinu 2001 og hann hafði gert skil á tryggingagjaldi. Á árinu 2002 var áætlað reiknað endurgjald hans skv. flokki D3 K kr. á mánuði og hann hafði gert skil á tryggingagjaldi. Skv. skilagreinum fyrir fyrstu tvo mánuði ársins 2002 gerði hann þó skil miðað við að reiknað endurgjald hans væri áfram M kr. eins og það hafði verið á árinu 2001. Á árinu 2003 er áætlað reiknað endurgjald hans áfram skv. flokki D3 L kr.

26. janúar bárust viðbótarskilagreinar fyrir ágúst og september 2002 mótteknum 24.  janúar  þar sem reiknað endurgjald greiðanda var tilgreint H kr. hvorn mánuð. Þegar skoðað var um hvað væri að ræða kom í ljós á yfirliti yfir skilagreinar fyrir reiknuð laun að þarna hafði þessari fjárhæð verið bætt við í viðkomandi mánuðum og tryggingagjald greitt til samræmis. Á hinn bóginn hafði ekki verið gerð greinargerð vegna breytingar á áætlun um reiknað endurgjald, hvorki varðandi mánaðarlega fjárhæð né flokk, eins og hann hafði áður gert skv. tilmælum lífeyristryggingasviðs í bréfi 9. desember. 

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 11. febrúar var A tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn vegna umsóknar hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem breyti ekki fyrri afgreiðslu.

Í bréfi frá N hjá F ehf. dags. 17. febrúar var því lýst að eftir að A hefði leitað til þeirra í byrjun árs með aðstoð við bókhald og uppgjör fyrir sl. ár hefði komið mikill hagnaður og þá sérstaklega yfir sumarmánuðina þar sem mikil vinna hefði verið á þeim tíma hefði honum verið ráðlagt að reikna sér hærra endurgjald og greiða vangreidda staðgreiðslu strax. Óskað var eftir að mál hans yrði skoðað að nýju með nýjum upplýsingum.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 28. febrúar var A tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn vegna umsóknar hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og að þar sem litið sé svo á þær breytingar sem gerðar hafi verið á reiknuðum launum eftir að honum hafi verið tilkynnt hverjar greiðslur til hans úr Fæðingarorlofssjóði yrðu séu gerðar til að auka rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. og því sé ekki rétt að taka tillit til þeirra.

A er og hefur skv. skrám RSK verið með áætlað reiknað endurgjald skv. flokki D3 og hefur mánaðarleg fjárhæð miðast við lágmarksfjárhæð fyrir flokkinn á hverjum tíma (að vísu P kr. hærra á árinu 2001). Eftir að honum hafði verið tilkynnt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði gerði hann viðbótarskilagrein um hækkun launa fyrir tvo mánuði á viðmiðunartímabili útreiknings. Þetta gerði hann án þess að skila greinargerð um breytingu á áætlun á mánaðarlegri fjárhæð eða flokki. Hann hefur ekki heldur gert breytingu á áframhaldandi áætlun þar sem á árinu 2003 er hann áfram skráður með áætlun skv. flokki D3 og lágmarksfjárhæð skv. þeim flokki.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi dags. 11. júní 2003. Þar segir m.a.:

„Í lögum nr. 75/1981 með síðari breytingum um tekju- og eignarskatt er að finna grunnákvæði vegna reiknaðs endurgjalds sjálfstætt starfandi aðila. Þessi ákvæði eru í 2. mgr. 7. gr. en þar segir:

„Vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Á sama hátt skal reikna endurgjald fyrir starf sem innt er af hendi af maka manns eða barni hans sé starfið innt af hendi fyrir framangreinda aðila. Til tekna sem laun teljast og lán til starfsmanna sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.“

Á þessu grunnákvæði byggist síðan allt annað varðandi reiknað endurgjald, þ.e. að það skal ákvarðað á grundvelli þess hversu há laun viðkomandi fengi í sambærilegu starfi hjá óskyldum aðila. Þessi grunnregla endurspeglast jafnframt í 59. gr. sömu laga og þar er m.a. fjallað um heimildir skattstjóra til að hækka endurgjald skattaðila ef hann hefur talið sér til tekna lægra endurgjald en kveðið er á um í lágmarks(viðmiðunar)reglum ríkisskattstjóra og koma fram í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Á grundvelli áður tilvitnaðs ákvæðis í 6. gr. laga nr. 45/1987 þá hefur ríkisskattstjóri árlega ákvarðað umbjóðanda okkar reiknað endurgjald og hefur hann verið í viðmiðunarflokki 3D. Reglur ríkisskattstjóra eru viðmiðunarreglur en ekki endanleg fjárhæð reiknaðs endurgjalds. Það skal ávallt m.v. þau grunnákvæði sem koma fram í áður tilvitnaðri 7. gr. laga nr. 75/1981. Á tveimur undangengnum árum hefur umfang rekstrar umbjóðanda okkar farið vaxandi. Árið 2002 voru heildartekjur, án virðisaukaskatts, í rekstri hans R þús. kr. og á árinu 2003 námu þær S þús. kr. Hann hefur haft að jafnaði 1-2 undirverktaka og einnig haft launamenn í tímabundnum störfum. Vinna og verkefni skiptast ekki jafnt innan ársins og yfirleitt eru sumarmánuðirnir annasamastir. Vinnuframlag A var mikið á árinu 2002 og ljóst er að viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra varðandi reiknað endurgjald hafa ekki endurspeglað vinnuframlag hans m.t.t. þeirra ákvæða sem koma fram í 7. gr. laga nr. 75/1981.

Reiknað endurgjald umbjóðanda okkar var ákvarðað í byrjun árs 2002 og var tekið mið af flokki D (2,3), iðnaðarmaður sem starfar einn eða með einum ófaglærðum aðstoðarmanni. Erfitt er að ákvarða endurgjald fyrirfram fyrir menn í hans stöðu þar sem vinna og möguleikar til vinnu eru mjög misjafnir.

Þegar umbjóðandi okkar leitaði til okkar í byrjun árs 2003 með aðstoð við bókhald og uppgjör fyrir sl. ár kom í ljós mikill hagnaður og þá sérstaklega yfir sumarmánuðina þar sem mikil vinna var á þeim tíma. Vegna þess ráðlögðum við honum að reikna sér hærra endurgjald og greiða vangreidda staðgreiðslu strax.

Skattframtal umbjóðanda okkar vegna tekjuársins 2002 hefur nú verið unnið og sent til skattstjóra. Niðurstaða þess er að þrátt fyrir viðbótar reiknað endurgjald vegna mánaðanna ágúst og september nemur hagnaður ársins um 320 þús. kr. Það er því alveg ljóst að hækkun á reiknuðu endurgjaldi fyrir áðurnefnda mánuði var fullkomlega eðlilega m.v. umfang vinnuframlags og rekstrar. Því er fráleitt að halda fram að hækkun þess eigi ekki að hafa áhrif á greiðslur úr fæðingarorlofssjóði þar sem hækkunin var fullkomlega lögleg og í eðlilegu samhengi við reksturinn. Röksemdir um að það hefði einnig átt að gera árið áður er einnig veikar þar sem á því ári byggðist hagnaðurinn upp á tímabundnum mjög arðbærum verkum. Því til viðbótar má benda á að á árinu 2002 voru reglur um reiknað endurgjald hertar og því eðlilegt af hálfu umbjóðanda okkar að hækka endurgjaldið áðurnefnda tvo mánuði.

Þó svo að umbjóðandi okkar hafi ekki sótt um breytingu á flokkun reiknaðs endurgjalds á árinu 2003 þá byggist það á því að hann hefur m.a. verið í fæðingarorlofi sem og þeirri röksemd að ekki er ljóst hvernig árið mun þróast varðandi umfang rekstursins og vinnuframlag hans. Ef það kemur í ljós nú á sumarmánuðum að hann mun leggja fram meira vinnuframlag þá mun reiknað endurgjald verða hækkað vegna þeirra mánaða sbr. margtilvitnaða grunnreglu í 7. gr. laga nr. 75/1981.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um hækkun á áður ákveðnum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofmála telur að taka beri málið til efnislegrar meðferðar þar sem kæranda hafi gefist kostur á að koma sínum sjónarmiðum að fyrir nefndinni.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. ffl.  skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil, sbr. einnig 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Barn kæranda fæddist 22. desember 2002. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá október 2001 til september 2002. Við móttöku umsóknar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði var reiknað endurgjald kæranda á viðmiðunartímabilinu samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra samtals T kr.

Þann 24. janúar 2003 var skilað inn viðbótarskilagrein um staðgreiðslu og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi kæranda vegna ágúst og september 2002 H kr. fyrir hvorn mánuð til viðbótar þeim K kr. sem áður hafði verið greitt tryggingagjald og staðgreiðsla af vegna sömu mánaða.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. skal útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur sjálfstætt starfandi foreldris úr tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Síðan segir að telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skuli það leggja fram gögn því til staðfestingar. Í kæru er á því byggt að reiknað endurgjald kæranda hafi verið of lágt miðað við vinnuframlag hans og afkomu rekstrarins á árinu 2002. Því hafi verið gerð viðbótarskilagrein vegna staðgreiðslu og tryggingagjalds af reiknaðu endurgjaldi til viðbótar því sem áður hafði verið gert skil á. Þessi staðhæfing kæranda er studd yfirlýsingu löggilts endurskoðanda. Miðað við fyrirliggjandi gögn um tekjur kæranda, tímasetningu leiðréttinga á reiknuðu endurgjaldi og skilum á tryggingagjaldi, telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að viðurkenna beri rétt kæranda til fæðingarorlofs í samræmi við reiknað endurgjald á viðmiðunartímabilinu þ.m.t. reiknað endurgjald samkvæmt viðbótarskilagrein.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins hafnað. Greiða ber kæranda úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við reiknað endurgjald vegna tímabilsins október 2001 til september 2002 þ.m.t. reiknað endurgjald samkvæmt viðbótarskilagrein í janúar 2003.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um hækkun á áður ákveðnum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við reiknað endurgjald samkvæmt skilagreinum til skattyfirvalda þ.m.t. viðbótarskilgrein í janúar 2003.

  

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta