Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 28/2003

Mánudaginn, 22. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 6. maí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 30. apríl 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 18. mars 2003 um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ég undirritaður A tel mig eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi þar sem ég tel mig uppfylla skilyrði laga fyrir greiðslum með því að vera samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns míns og starfshlutfall hvers mánaðar er meira en 25%.

Hvað varðar vinnu mína sem sjálfstætt starfandi atvinnurekandi er því til að svara að þetta var vinna sem B sem ég hef aðeins haft lítilsháttar atvinnu af og lauk ég þeim verkefnum sem fyrir lágu í júní að loknu sumarleyfi. Þennan rekstur minn sem B hóf ég árið 2000 og hef verið með ársskil á gjöldum enda var umfang starfseminnar ekki meira en svo að reiknað endurgjald féll utan staðgreiðslu sbr. leiðbeiningar um Reiknað endurgjald 2001 (bls. 2) og 2002. (bls. 2). Ég var því ekki búinn að skila inn gjöldum fyrir árið 2002 þegar ég skilaði inn umsókn minni um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði enda hafði ég ekki upplýsingar um að uppgjöri þyrfti að vera lokið áður en umsókninni var skilað inn. Þær upplýsingar fékk ég símleiðis í janúar s.l. hjá starfsmanni Tryggingastofnunar og gerði þá skil. Því tel ég með öllu óásættanlegt að ekki sé tekið tillit til þeirra gagna eins og fram kemur í bréfi ykkar dagsett 18. mars s.l. og mér það með synjað um greiðslu úr Fæðingarorlofsjóði.

Meðfylgjandi eru öll þau gögn sem farið hafa milli mín og Tryggingastofnunar varðandi þetta mál. Einnig læt ég fylgja með leiðbeiningar um Reiknað endurgjald 2001 og 2002 ásamt bréfi frá Skattstofu D þar sem ársskil á gjöldum voru samþykkt.“

 

Með bréfi, dags. 7. maí 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 16. júní 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. desember 2002 með umsókn dags. 18. október 2002. Barn hans fæddist 25. nóvember 2002. Með umsókninni fylgdi tilkynning um fæðingarorlof frá sýslumanninum á E þar sem starfhlutfall hans var tilgreint sem 100% 6. mánuð, 100% 5. mánuð, 100% 4. mánuð og 50% 3.mánuð fyrir upphafsdag fæðingarorlofs / áætlaðan fæðingardag en bætt hafði verið við með öðrum penna 50% 3. mánuðinn, 100% 2. mánuðinn og 100 % 1. mánuðinn. Einnig fylgdu með launaseðill frá sýslumanninum á E fyrir 20. – 30. júní og launaseðill frá F ehf. fyrir aprílmánuð 2002 sem skv. staðgreiðsluskrá RSK voru síðustu laun sem hann fékk greidd þaðan.

Einnig bárust fleiri launaseðlar vegna starfa hans hjá sýslumanninum á E, G og H.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 9. desember 2002 var kæranda tilkynnt að samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hann uppfyllti ekki það skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið í sex mánaða samfelldu starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag) þar sem ekki komi fram tekjur fyrir maí og júní mánuð árið 2002. Tekið var fram að ef þessar upplýsingar væru ekki réttar væri nauðsynlegt að hann sendi innan 15 daga staðfestar upplýsingar um launatekjur fyrir þessa mánuði. Einnig var farið fram á tilkynningar um fæðingarorlof eða starfslokavottorð frá H og G.

20. desember 2002 bárust starfslokavottorð frá H um að kærandi hefði starfað þar frá 15. september – 15. október 2002 og tilkynning um fæðingarorlof þar sem tilgreint starfshlutfall var 50% 3. og 2. mánuð fyrir upphafsdag fæðingarorlofs / áætlaðan fæðingardag, staðfesting frá F ehf um að hann hefði verið starfsmaður þar þangað til í apríl 2002 en þá hefði hann fengið greitt út uppsafnað orlof (skv. launaseðli fékk hann orlof greitt inn á orlofsreikning) og hefði látið af störfum að orlofstíma loknum eða í lok maí hefði hann látið af störfum í kjölfar þess að félagið dró úr starfsemi sinni, tilkynning um fæðingarorlof frá G þar sem starfshlutfall var tilgreint 50% 2. mánuð og 100% 1. mánuð fyrir upphafsdag fæðingarorlofs/áætlaðan fæðingardag og staðfesting frá sýslumanninum á E um að hann hefði hafið störf þar 20. júní 2002.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 20. desember 2002 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að af gögnum sem hann hafi lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hann uppfylli ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. 1aga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns).

5. febrúar 2003 barst bréf frá kæranda þar sem hann óskaði eftir að umsókn sín um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði yrði tekin til endurskoðunar þar sem hann teldi sig uppfylla skilyrði laga fyrir greiðslum með því að vera samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingu barns síns og fylgdi með kvittun dags. 24. janúar 2003 staðgreiðslu opinberra gjalda vegna reiknaðs endurgjald fyrir júní 2002.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 13. febrúar 2003 var kæranda tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn vegna umsóknar hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og var synjað að taka þau til greina.

Með bréfi dags. 6. mars 2003 óskaði kærandi eftir að fá skriflegan rökstuðning á því að umsókn sinni um fæðingarorlof hefði verið synjað og af hverju gögn um vinnuframlag sitt í júní sl. teldust ekki fullnægjandi

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 18. mars 2003 var bréfi kæranda frá 6. mars svarað á þann hátt að lífeyristryggingasvið geti ekki tekið til greina þær breytingar sem gerðar hafi verið á skrám RSK eftir að honum var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf dags. 20. desember 2002. Viðbótargögn breyti því ekki fyrri afgreiðslu.

í 3. mgr. 7. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segir:

“Sjálfstætt starfandi einstaklingur er sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.”

Kærandi var ekki skráður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur í skrám RSK á árinu 2002 en hafði verið það á árinu 2000 þegar hann var mánuðina maí – ágúst skráður með reiknað endurgjald I kr. á mánuði eða samtals J kr.

Þó að kærandi hefði verið upplýstur um að hann uppfyllti ekki skilyrðið um samfellt starf þar sem hann skv. staðgreiðsluskrá RSK hefði ekki verið að vinna í maí og júní mánuði 2002 og gefinn kostur á að framvísa upplýsingum um vinnu þá mánuði komu einungis upplýsingar vegna maímánuðar og það var ekki fyrr en eftir að honum hafði verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði að hann framvísaði kvittun um greiðslu opinberra gjalda vegna reiknaðs endurgjalds fyrir júní mánuð, þ.e. fyrir þann tíma sem á vantaði að hann uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Sú greiðsla hafði átt sér stað án þess að kærandi gerði grein fyrir sér hjá skattyfirvöldum sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Lífeyristryggingasvið telur ekki heimilt að taka til greina greiðslu tryggingagjalds vegna tímabils sem á vantar að launþegi uppfylli skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sem á sér stað eftir að ákvörðun um synjun hefur verið tilkynnt honum.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. júní 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sagði fyrir breytingu þá sem gerð var á henni með reglugerð nr. 186/2003 að til samfellds starfs teljist ennfremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Barn kæranda fæddist 25. nóvember 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 25. maí 2002 til fæðingardags barns.

Samkvæmt 3. mgr. 15. ffl. byggir útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á upplýsingum er Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldri úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Jafnframt segir í ákvæðinu að telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skuli það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Upplýsingar sem aflað var úr staðgreiðsluskrá í tilefni af umsókn kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfestu ekki sex mánaða samfellt starf hans á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þann 25. nóvember 2002. Á þeim tíma lágu ekki fyrir upplýsingar um sjálfstæða atvinnustarfsemi kæranda hjá skattyfirvöldum, sbr. 3. mgr. 7. gr. ffl.

Kærandi starfaði ekki sem launþegi á vinnumarkaði í maí og fram til 20. júní 2002 er hann hóf störf hjá sýslumanninum á E. Þá nægði áunninn réttur hans til orlofstöku ekki til að brúa bilið frá 1. maí til 20. júní 2002, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Af hálfu kæranda var skilað inn skilagrein vegna reiknaðs endurgjalds fyrir júní 2002 sem móttekin var af Sýslumanninum á E þann 24. janúar 2003. Ekki hafði áður verið tilkynnt um sjálfstæða atvinnustarfsemi kæranda á árinu 2002.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið fela fyrirliggjandi gögn að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála eigi í sér fullnægjandi staðfestingu á því að uppfyllt sé skilyrði laganna um sex mánaða samfellt starf.

Með hliðsjón af framangreindu verður því ekki fallist á að kærandi hafi áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

  

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta