Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 5/2013

Miðvikudaginn 15. maí 2013

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 17. janúar 2013 ákvað úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að afturkalla ákvörðun sína sem tekin var með úrskurði frá 14. júlí 2011 í máli nr. 12/2011 og taka málið á ný til umfjöllunar. Með bréfi, dags. sama dag, var óskað eftir öllum þeim gögnum og skýringum sem kærandi teldi skipta máli. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2013, bárust gögn frá kæranda.  

Ekki þótti ástæða til að óska eftir nýrri greinargerð frá Fæðingarorlofssjóði.

 

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið synjað um fæðingarstyrk námsmanna þar sem hún hafði ekki verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði undanfarna tólf mánuði fyrir fæðingu barns. Hún kveðst hafa skilað inn læknisvottorði vegna lengingar fæðingarorlofs en verið synjað um fæðingarstyrk þar sem veikindi hennar tengdust ekki meðgöngu heldur áfalli er hún varð fyrir við fráfall systur sinnar í september 2010. Áfallið hafi leitt til þess að kærandi gat ekki stundað fullt nám vegna áfallastreituröskunar sem meðal annars hafði í för með sér mikla svefnerfiðleika.

Kærandi greinir frá því að ekki leiki vafi á því að þungun hennar, hafi aukið á áfallið. Jafnframt séu allar líkur á því að hvort tveggja þunglyndið og svefnörðugleikarnir sem hún átti við að stríða hefðu ekki reynst jafn alvarleg og erfið viðureignar ef hún hefði ekki verið barnshafandi. Kærandi telur veikindin ótvírætt hafa tengst meðgöngunni og af þeim sökum, og með vísan til sanngirnissjónarmiða, verði ekki annað ráðið en að kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu fæðingarstyrks og er þess krafist að henni verði veittur hann í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.

 

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 3. apríl 2011, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 16. maí 2011. Með umsókn kæranda hafi fylgt vottorð frá D-háskóla, dags. 13. janúar 2011, vottorð fósturgreiningardeildar, dags. 10. janúar 2011, bréf frá kæranda, dags. 3. apríl 2001 og læknisvottorð, dags. 2. mars 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með bréfi, dags. 13. apríl 2011, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Í sama bréfi hafi kæranda jafnframt verið synjað um undanþágu frá skilyrðinu um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms, skv. 13. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl), þar sem ekki hafi verið séð að móðir hafi ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna í skilningi laganna.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar, sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur, rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að fæðingardagur barns kæranda sé Y. maí 2011 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. maí 2010 fram að fæðingardegi barnsins.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að samkvæmt vottorði frá D-háskóla, dags. 13. janúar 2010, komi fram að kærandi hafi lokið 5 ECTS einingum á haustönn 2010 og sagt sig úr 60 ECTS einingum. Á vorönn 2011 hafi kærandi verið skráð í 40 ECTS einingar en sagt sig úr 5 ECTS einingum.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám og því teljast 22–30 ECTS einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af framangreindu verði ekki séð að kærandi uppfylli almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í ffl. sé að finna undanþágu fyrir mæður þegar þær uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna. Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga 74/2008, komi þannig fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þó að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við sambærilegar heilsufarsástæður og eigi við um veikindi móður sem valda óvinnufærni hennar á meðgöngu, skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hafi verið átt við sjúkdóma sem koma upp vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í læknisvottorði B fæðingarlæknis, dags. 2. mars 2011, segi orðrétt: „[...] Stundar nám í háskóla og verið við ágæta andlega líðan þar til í sept. 2010 að hún missir systur sína sem dó skyndidauða [...] Fékk mikið áfall og greindi núverandi þungun viku síðar. Verið niðurdregin og átt erfitt með svefn og fengið mikið af endurupplifunum og gæti því hafa verið með áfallastreituröskun. Telur sjálf að hún hafi verið þunglynd og treysti sér alls ekki til að halda fullu námi. Telur að hún hafi mest verið að hálfu vinnufær. Fengið stuðning frá fjölskyldu og ljósmóðurinni en er andvíg lyfjatöku og var ekki vísað til geðlæknis. Sefur enn illa og finnur daglega þreytu vegna þessa. Meðganga þ.e. vöxtur og viðgangur fósturs og helstu mælingar eins og blóðþrýstingur, blóð og þvag verið eðlilegt.“ Í niðurstöðu skoðunar er skráð að kærandi lýsi vanlíðan vegna svefnerfiðleika í kjölfar alvarlegs fjölskylduáfalls.

Læknisvottorðið tekur þannig til veikinda kæranda í kjölfar skyndilegs fráfalls systur kæranda og var þungun kæranda greind viku síðar. Samkvæmt því verður ekki séð að veikindi kæranda falli undir skilgreiningu á heilsufarsástæðum skv. 13. mgr. 19. gr. ffl.

Með vísan til framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að ekki verði annað séð en kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns né heldur að undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. geti átt við. Kærandi eigi þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.

 

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni hinn 13. apríl 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda fæddist Y. maí 2011. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. maí 2010 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt upplýsingum frá D-háskóla lauk kærandi 5 ECTS einingum á haustönn 2010 en 10 ECTS einingum á vorönn 2011.

Fullt nám við D-háskóla er 30 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Þar sem kærandi lauk ekki fullu námi hvorki á haustönn 2010 né vorönn 2011 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Í fyrrgreindri 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, kemur fram að heimilt sé að líta til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist en þar sem kærandi telst ekki hafa lokið fullu námi á haustönn 2011 kemur sá málsliður ákvæðisins ekki til skoðunar í tilviki kæranda.

Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun hafi hún ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna. Við þær aðstæður skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám.

Kærandi hefur lagt fram læknisvottorð B, dags. 2. mars 2011, þar sem fram kemur að þetta sé önnur meðganga kæranda og sú fyrri hafi verið eðlileg. Kærandi sé í háskólanámi og hafi verið við ágæta andlega líðan þar til í september 2010 þegar kærandi missti systur sína skyndilega. Kærandi hafi fengið mikið áfall við andlát hennar og hafi greint þungun viku síðar. Kærandi hafi verið niðurdregin og átt erfitt með svefn og fengið mikið af endurupplifunum og gæti því hafa verið með áfallastreituröskun. Kærandi hafi talið að hún hafi mest verið að hálfu vinnufær. Hún hafi fengið stuðning frá fjölskyldu sinni og ljósmóður en sé andvíg lyfjatöku og hafi ekki verið vísað til geðlæknis. Kærandi sofi enn illa og finni fyrir daglegri þreytu vegna þessa. Vöxtur og viðgangur fósturs og helstu mælingar eins og blóðþrýstingur, blóð og þvag hafi verið eðlilegt.

Kærandi hefur jafnframt lagt fram læknisvottorð C, dags. 15. febrúar 2013, þar sem vísað er í fyrra vottorð B, dags. 2. mars 2011, auk þess sem tekið er fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 3. september 2010 til 29. apríl 2011.

Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 74/2008 segir um 16. gr.: „Jafnframt er lagt til að sú heimild að taka tillit til aðstæðna móður þegar hún getur ekki stundað nám sitt á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna verði færð í lögin en áður hefur eingöngu verið kveðið á um þessa heimild í reglugerð. Er þá átt við sambærilegar heilsufarsástæður og eiga við um veikindi móður sem valda óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hefur verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni, sbr. 9. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Er gert ráð fyrir að móðir leggi fram vottorð sérfræðilæknis sem hefur annast hana á meðgöngu til staðfestingar á heilsufari hennar á þeim tíma.“

Fyrirliggjandi læknisfræðilegar rannsóknir benda til þess að meðganga geti átt þátt í því að gera þunglyndi og aðra andlega erfiðleika barnshafandi konu verri en ella, t.d. þegar kona verður fyrir þungbæru áfalli. Það er því álit kærunefndar að í máli þessu sé um að ræða heilsufarsástæður sem falla undir undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. Með vísan til þess og að kærandi hafi verið óvinnufær á tímabilinu september 2010 til apríl 2011, sbr. framangreint læknisvottorð C, er það mat úrskurðarnefndar að tilvik kæranda falli undir undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er felld úr gildi.

 

 Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta