Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 44/2006

Þriðjudaginn, 16. janúar 2007

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. nóvember 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 21. nóvember 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 14. nóvember 2006 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Svo óheppilega vildi til að ég varð veik á meðgöngunni og var látin hætta að vinna 1. september og átti þar að auki 7 vikum fyrir dagsettan fæðingardag. Það vantar einungis 5 daga uppá að ég hafi unnið í 6 mánuði samfellt. Það biður enginn um að verða veikur og fæða barn fyrir tímann.“

 

Með bréfi, dagsettu 30. nóvember 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 12. desember 2006. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með ódagsettri umsókn, sem móttekin var 5. október 2006, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 9 mánuði vegna barnsfæðingar sem áætluð var 11. desember 2006.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 13. september 2006, tilkynning til vinnuveitanda um fæðingarorlof, dags. 4. október 2006, launaseðlar kæranda, dags. 31. júlí og 31. ágúst 2006. Ennfremur lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr Þjóðskrá, upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og upplýsingar úr tryggingaskrá Tryggingastofnunar ríkisins.

Þá barst lífeyristryggingasviði læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs vegna sjúkdóms móður, dags. 2. október 2006.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 23. október 2006, var kæranda gerð grein fyrir skilyrðum lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Var í bréfinu talið upp í tveimur töluliðum hvaða viðbótargögnum óskað væri að kærandi framvísaði vegna umsóknar um lengingu. Einnig var kæranda gerð grein fyrir því að með hliðsjón af stöðu hennar á vinnumarkaði í apríl 2006, og með hliðsjón af umsókn hennar um lengingu, þá liti út fyrir að skilyrði um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði væru ekki uppfyllt.

 

Barn kæranda fæddist 25. október 2006, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 33. gr. laga nr. 65/2006, þá stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns.

3. nóvember 2006, barst lífeyristryggingasviði staðfesting frá vinnuveitanda kæranda, B dags. 3. nóvember 2006, um að hún hefði fullnýtt veikindarétt sinn hjá fyrirtækinu þann 31. ágúst 2006.

Þá barst lífeyristryggingasviði 6. nóvember 2006, vottorð vinnuveitanda kæranda, B dags. 1. nóvember 2006, um að kærandi hafi starfað í fullu starfi hjá félaginu frá 1. maí til 12. september 2006. Þá barst lífeyristryggingasviði einnig staðfesting frá vinnuveitanda kæranda, D dags. 1. nóvember 2006, um að hún hafi látið af störfum 11. nóvember 2005.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 14. nóvember 2006, var kæranda synjað um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, þar sem skilyrði laga um að hún hafi þurft að leggja niður störf vegna veikinda voru ekki uppfyllt. Þá var kæranda einnig synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem skilyrði laga um 6 mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns var ekki uppfyllt. Í sama bréfi var kæranda tilkynnt um að hún fengi greiddan fæðingarstyrk í 6 mánuði frá 1. október 2006, sbr. greiðsluáætlun, dags. 14. nóvember 2006.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Barn kæranda er fætt 25. október 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil, samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er því 25. apríl 2006 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði tímabilið 25. apríl til 24. október 2006.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi var starfandi hjá B frá 1. maí til 31. ágúst 2006. Einnig liggur fyrir samkvæmt útprentun úr skrám Tryggingastofnunar ríkisins að kærandi var á biðtíma eftir og fékk greidda sjúkradagpeninga frá 1. september til 24. október 2006.

Ljóst er því að kærandi var starfandi og þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 frá 1. maí 2006 og fram að fæðingardegi barnsins.

Hvað varðar tímabilið 25. til 30 apríl 2006 þá fékk kærandi greiddar endurhæfingarlífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 8. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, fyrir aprílmánuð 2006.

Ljóst er að tímabil það er foreldri fær greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins fellur ekki undir upptalningu 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þá er litið svo á að greiðslur sem foreldri fær samkvæmt lögum um félagslega aðstoð geti almennt farið með greiðslum til sama foreldris á sama tímabili úr Fæðingarorlofssjóði, enda eru slíkar greiðslur ekki undanskildar í 2. mgr. 33. gr. laga nr. 95/2000, né er um launagreiðslur að ræða, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og sbr. 2. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, með síðari breytingum. Er því ekki hægt að líta svo á að foreldri sé á vinnumarkaði í skilningi framangreindra ákvæða, á tímabili því er það einungis fær greiddar endurhæfingarlífeyrisgreiðslur.

Í framkvæmd hefur lífeyristryggingasvið talið að frávik frá skýrri reglu 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, væru óheimil. Í því felst að foreldri þarf að sýna fram á þátttöku sína á innlendum vinnumarkaði óslitið á þessu sex mánaða tímabili. Í máli er kærandi ekki á vinnumarkaði í skilningi framangreindra ákvæða í 6 dagar á tímabilinu. Ekki telur lífeyristryggingasvið skipta máli að um skamman tíma, eða lítinn hluta af því sex mánaða tímabili sem áskilið er, enda eru engar heimildir til undantekninga að þessu leyti að finna í lögum eða reglugerð.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 14. nóvember 2006. Ennfremur telur stofnunin að greiðslur fæðingarstyrks til kæranda hafi réttilega verið ákvarðaðar í greiðsluáætlun, dags. 14. nóvember 2006.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 18. desember 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar telst jafnframt:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Kærandi ól barn 25. október 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 25. apríl fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi hjá B frá 1. maí til 31. ágúst 2006 og frá 1. september til 24. október 2006 var hún á biðtíma og fékk greidda sjúkradagpeninga. Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri tímabilið frá 25. apríl 2006 til og með 30. apríl sama ár. Telst hún ekki hafa verið á vinnumarkaði á því tímabili í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Kærandi uppfyllir þannig ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Ekki er heimild í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eða reglugerð nr. 1056/2004 til að víkja frá skilyrði um sex mánaða samfelldu starfi þegar barn fæðist fyrir tímann. Samkvæmt því ber að staðfesta þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta