Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 239/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 239/2024

Fimmtudaginn 15. ágúst 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 28. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. maí 2024, um að synja umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 15. apríl 2024, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þann X. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. maí 2024, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún hefði ekki verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. maí 2024. Með bréfi, dags. 4. júní 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 18. júní 2024, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. júní 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast dóttur sína eftir tæplega 29 vikna meðgöngu og hafi þá ekki náð sex mánaða tíma í vinnu. Ef hún hefði eignast dóttur sína á settum degi hefði hún verið komin með rétt til fæðingarorlofs.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 15. apríl 2024, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þann X.

Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

Í 2. mgr. 21 gr. komi fram að þegar foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði að minnsta kosti síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili samkvæmt 1. mgr. skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt sé, taka tillit til starfstímabila þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnanasamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu, enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Það sama gildi hafi foreldri starfað skemur en síðasta mánuðinn á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði sé að foreldri hafi hafið störf á innlendum vinnumarkaði innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í öðru Norðurlandaríki, í öðru EFTA-ríki eða í Færeyjum. Foreldri skuli láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 20. gr.

Í 2. tölul. 4. gr. laga nr. 144/2020 sé að finna orðskýringu á samfelldu starfi. Með samfelldu starfi samkvæmt lögunum sé átt við að minnsta kosti 25% starfshlutfall í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil og því geti verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki af heilum almanaksmánuðum. Enn fremur teljist til samfellds starfs þau tilvik sem talin séu upp í a.-f. liðum 2. mgr. 22. gr. Í 1. mgr. 22. gr. laganna segi að þátttaka á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 21. gr. feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Loks sé í 2. mgr. 22. gr. talið upp í eftirfarandi sex stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

  1. orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,
  2. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  3. sá tími sem foreldri fær greiðslur í sorgarleyfi á grundvelli laga um sorgarleyfi eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær hjá Vinnumálastofnun, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  4. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  5. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  6. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið X. Ávinnslutímabil kæranda sé því frá X og fram að fæðingardegi barns. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu samkvæmt framangreindum ákvæðum.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins og ráðningarsamningi hafi kærandi starfað hjá C frá og með 21. nóvember 2023 og fram að fæðingu barns. Því sé óumdeilt að kærandi hafi verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði tímabilið 21. nóvember 2023 til og með X. Ágreiningur málsins lúti því að tímabilinu X til 20. nóvember 2023. Af upplýsingum úr Þjóðskrá megi ráða að kærandi hafi flutt til landsins þann 20. október 2023 og skráð ríkisfang kæranda í Þjóðskrá sé B.

Með bréfi til kæranda, dags. 22. apríl 2024, hafi kæranda verið leiðbeint um skilyrði fyrir rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, þ.e. að foreldri hafi varið samfellt í minnst 25% starfshlutfalli á innlendum vinnumarkaði að minnsta kosti síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns og við það mat yrði starfstími foreldris í öðrum EES ríkjum tekinn til greina. Í bréfinu hafi kæranda verið leiðbeint um hvað annað teldist jafnframt til þátttöku á innlendum vinnumarkaði. Þá hafi kæranda jafnframt verið bent á að af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Skattsins yrði ráðið að hún uppfyllti ekki framangreint skilyrði þar sem engar eða lágar tekjur væru skráðar á hana í október og nóvember 2023 og leiðbeint um að ef hún teldi sig hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu gæti hún lagt fram gögn því til staðfestingar.

Í kjölfarið hafi borist gögn frá kæranda, meðal annars ráðningarsamningur sem hafi sýnt að kæranda hafi hafið störf hjá C þann 21. nóvember 2023. Engin gögn hafi borist sem bentu til þess að kærandi hefði starfað eða verið búsett í öðru EES ríki í október og nóvember 2023. Kæranda hafi verið sent annað bréf, dags. 6. maí 2024, þar sem henni hafi verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Að mati Fæðingarorlofssjóðs liggi þannig skýrt fyrir að á tímabilinu X til 20. nóvember 2023 uppfylli kærandi ekki skilyrði þess að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1. og 2. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020, sbr. og b. lið 2. mgr. 22. gr. laganna. Þá verði ekki séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 22. gr. laganna geti átt við um aðstæður kæranda á þessu tímabili.

Í kæru sé bent á að ef barn kæranda hefði ekki fæðst fyrir tímann hefði hún uppfyllt skilyrði laganna til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í lögum nr. 144/2020 sé ekki að finna heimild til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 21. gr. af þeirri ástæðu.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf til hennar, dags. 6. maí 2024.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. maí 2024, um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um rétt foreldris til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur, sbr. 2. og 4. mgr. 8. gr., og því geti verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki af heilum almanaksmánuðum.

Í 22. gr. laga nr. 144/2020 kemur fram að þátttaka foreldris á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 21. gr. feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi eða launum er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein eða sem samkvæmt kjarasamningi telst fullt starf. Þá teljast enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði þau tilvik sem talin eru upp í 2. mgr. 22. gr. laganna en ákvæðið er svohljóðandi:

  1. orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,
  2. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  3. sá tími sem foreldri fær greiðslur í sorgarleyfi á grundvelli laga um sorgarleyfi eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær hjá Vinnumálastofnun, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  4. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  5. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  6. sá tími sem foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%.

Barn kæranda fæddist X. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt 21. gr. laga nr. 144/2020 er því frá  og fram að fæðingardegi barnsins. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði á því tímabili í skilningi 22. gr. laganna. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu X til 20. nóvember 2023 en óumdeilt er að kærandi var í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði á öðrum tíma ávinnslutímabilsins.

Fyrir liggur að kærandi flutti til Íslands 20. október 2023 og hóf störf hér á landi 21. nóvember sama ár. Samkvæmt framangreindu og gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði 21. gr. laga nr. 144/2020 um að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns, en ekkert hefur komið fram í málinu um að stafliðir 2. mgr. 22. gr. laganna geti átt við um kæranda á því tímabili sem deilt er um.

Kærandi hefur vísað til þess að ef barn hennar hefði ekki fæðst fyrir tímann hefði hún uppfyllt framangreind skilyrði um sex mánaða samfellt starfs á innlendum vinnumarkaði. Líkt og Fæðingarorlofssjóður tekur fram í greinargerð sinni er enga heimild að finna í lögum nr. 144/2020 til að víkja frá skýru ákvæði 21. gr. við mat á því hvort foreldi hafi verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóð um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr sjóðnum er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. maí 2024, um að synja umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta