Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 33/2003

Þriðjudaginn, 16. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 12. maí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 12. maí 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 13. febrúar 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ástæða fyrir synjun á umsókn minni um fæðingarorlof er sögð vera sú að ég hafi ekki verið samfleytt í starfi síðustu sex mánuðina fyrir fæðingu sonar míns þ.e. frá 11. maí til 30. júní 2002. Vil ég hér með reka rökstuðning fyrir því að hér njóti ég ekki sanngirni. Ég hafði ekki verið fastráðinn starfsmaður hjá fyrrverandi vinnuveitanda og fengið orlof greitt út jafn óðum. Það er því auðséð að ég þurfti að taka mér launalaust leyfi til að komast í sumarfrí eins og allir hafa rétt á. Í synjun er einungis miðað við staðgreiðsluupplýsingar frá skattstjóra og ekkert mark tekið á þessum skýringum mínum. Auk þess skipti ég um starf á þessum tíma og má segja að ég hafi tapað um 1 1/2 – 2 vikum af staðgreiðsluskrá vegna þess. Skv. reglugerð er ekki hægt að refsa mér fyrir að skrá mig ekki atvinnulausan í þann tíma. Enda sá ég ekki fyrir að ég þyrfti að sýna fram á þennan 6 mán. óslitna tíma. Synjun þessi er ekki í anda laga um fæðingarorlof og markmið þeirra. Sem heiðvirður skattborgari tel ég mig hafa fullan rétt á fæðingarorlofi.“

 

Með bréfi, dags. 14. maí 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 2. september 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 1. október 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 15. nóvember 2002 – 15. janúar 2003 vegna væntanlegrar fæðingar barns 4.  nóvember 2002. Barnið fæddist 2. nóvember. Með umsókninni fylgdu launaseðlar frá B ehf. fyrir september og október 2002.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafði kærandi fengið greidd laun frá D fyrir janúar – maí 2002 og frá E fyrir 13. mánuð ársins 2001 (skilgreind sem laun fyrir 13. mánuð ársins sem þýðir að heildarlaunauppgjör hafi átt sér stað).

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 5. nóvember 2002 var kæranda tilkynnt að skv. staðgreiðsluskrá RSK uppfyllti hann ekki það skilyrði 1. mgr. 13. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns) þar sem ekki komi fram tekjur fyrir júní, júlí, ágúst og september mánuði árið 2002. Ef þessar upplýsingar væru ekki réttar væri nauðsynlegt að hann sendi innan 15 daga staðfestar upplýsingar um launatekjur þessa mánuði. Í bréfinu var einnig óskað upplýsinga um frávik í launum í staðgreiðsluskrá RSK á árinu 2001 (fyrir 13. mánuð ársins) og tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs auk þess sem tekið var fram að umsóknin væri í biðstöðu þar til umbeðin gögn hefðu borist.

21. janúar 2003 bárust frá kæranda launaseðlar (ekki allir) vegna launa frá E á tímabilinu 5. maí – 17. nóvember 2001 og yfirlýsing kæranda um að hann hefði hætt störfum hjá D ehf. 31. maí 2002, átt inni einn mánuð í sumarfrí sem hann hefði tekið í júní og hefði hafið störf hjá B 1. júlí 2002 þar sem hann hefði verið í 100% starfi síðan.

Í framhaldi barst staðfesting frá D ehf. um að kærandi hefði starfað þar á tímabilinu 11. janúar – 10. maí og tekið sér launalaust sumarleyfi til 30. júní 2002 auk þess sem upplýsingar um launatekjur frá júlímánuði voru skráðar í staðgreiðsluskrá RSK.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 29. janúar 2003 var kæranda synjað um greiðslur úr  Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að uppfyllti ekki skilyrðið um samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingu barns).

Ekki hafa verið lagðir fram launaseðlar frá D ehf. þannig að ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar um hvort kærandi fékk orlof greitt út jafnóðum en samkvæmt staðfestingu frá fyrirtækinu vann kærandi þar í 4 mánuði. Skv. launaseðlum frá E var hann að vinna þar til 17. nóvember 2001 þannig að hann hafði ekki verið að vinna í tæpa 2 mánuði áður en hann hóf störf hjá D ehf. Verður því ekki fallist á það að kærandi hafi áunnið sér rétt til launalauss sumarleyfis á tímabilinu 11. maí – 30. júní 2002 .“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. september 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 29. september 2003, þar segir m.a.:

„ Athugasemd við 4. málsgrein.

Samanlögð störf mín hjá D ehf., og E árið á undan gefa fullan rétt til sumarorlofs. Það kemur fram á launaseðlum bæði frá E og E ehf. árið á undan að ég fékk greitt orlof jafnóðum, það er greinilega hægt að sjá á þeim launaseðlum sem ég hef þegar afhent Tryggingastofnun. Ég var að störfum hjá E til loka desember 2001. Sami háttur var ekki hafður á hjá D ehf. en þar fékk ég greitt út uppsafnað orlof í maí eins og víða tíðkast. Tryggingastofnun getur varla synjað mér  á þeim forsendum. Ég hef eins og hver annar borgar í þessu landi fullan rétt til þess að taka mér sumarfrí, og þá samkvæmt mínum geðþótta ákvörðunum en ekki samkvæmt því hvernig Tryggingastofnun Ríkisins telur hcppilegast að ég fái greitt sumarorlof. Hafi vantað uppá einhver gögn frá undirrituðum bar Tryggingastofnun að fara fram á þau.

Athugasemd við 7. málsgrein

Fullnaðaruppgjör á launum mínum hjá E var framkvæmt sem 13. mánuður skv. staðgreiðsluskrá launa. E var gerður gjaldþrota stuttu seinna og ég veit ekki hvernig það getur komið mér við hafi hann ekki gert fullkomin skil á sínum gögnum til skattstjóra skv. lögum.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sagði fyrir breytingu þá sem gerð var á henni með reglugerð nr. 186/2003 að til samfellds starfs teljist ennfremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Með reglugerð nr. 186/2003, dags. 3. mars 2003, varð breyting á b. lið í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar en breytingin fól m.a. í sér það nýmæli að til samfellds starfs teljist einnig sá tími sem foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum. Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns á grundvelli gildandi réttarreglna. Þar sem reglugerð nr. 186/2003 hafði ekki tekið gildi við fæðingu barns kæranda kemur hún ekki til álita í þessu máli.

Barn kæranda fæddist 2. nóvember 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 2. maí 2002 til fæðingardags barns.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki að störfum frá 10. maí 2002 og fram í júlí sama ár. Kærandi hafði ekki verið á vinnumarkaði frá 17. nóvember 2001 og fram til þess að hann hóf störf hjá öðrum atvinnurekanda 11. janúar 2002. Með hliðsjón af framangreindu verður áunninn réttur kæranda til orlofstöku eigi nægjanlegur til að brúa bilið frá því að kærandi lauk störfum í maí 2002 og fram til þess að hann hóf störf hjá öðru fyrirtæki í júlí sama ár.

Samkvæmt framangreindu uppfyllir kærandi ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hann starfaði ekki á vinnumarkaði frá 10. maí 2002 og fram í júlí sama ár né ávann sér nægjanlegan rétt á annan hátt, sbr. þágildandi 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta