Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 36/2009

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. ágúst 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 20. ágúst 2008. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. Þann 5. febrúar 2009 kvað úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála upp úrskurð í málinu, þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar- Fæðingarorlofssjóðs var staðfest. Í forsendum úrskurðar nefndarinnar kom meðal annars fram að samkvæmt gögnum í málinu frá C-háskóla yrði ekki séð að kærandi hafi verið skráð í fullt nám á sumarönn 2006, heldur einungis nám sem nemur 6 einingum. Þá hafi ekki komið fram að kærandi hafi fengið greidda sjúkradagpeninga eða átt rétt á þeim. Því hafi ekki verið skilyrði til að beita undanþáguákvæði 19. gr. reglugerðar, nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sem var í gildi þegar barn kæranda fæddist, hinn Y. júní 2007.

 

Hinn 13. júlí 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála bréf frá kæranda, dagsett 18. júní 2009.

Í bréfinu segir meðal annars:

„Nefndin synjaði beiðni minni, í máli nr. 47/2008, um að ég fengi fæðingarstyrk miðað við fullt nám og tel ég þann úrskurð vera byggðan á röngum forsendum miðað við hjálögð gögn og reglugerðir fæðingarorlofssjóðs.“

Af hálfu kæranda kemur fram að ljóst sé að hún hafi þurft að vera skráð í sem samsvaraði fullu námi og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum eða átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil til þess að eiga rétt til fæðingarstyrks. Hún telji sig hafa sýnt fram á með sannanlegum hætti, með gögnum frá C-háskóla, að hún hafi verið í fullu námi eða 12 einingum (24 ECTS) á sumarönn 2006. Kærandi vísar til vottorðs sem fylgdi bréfi hennar þar sem ekki væri um villst að hún hefði verið skráð í 24 ECTS eininga nám á sumarönn 2006 og lokið námi í 12 ECTS einingum, en hún hafi ekki getað klárað námið vegna veikinda á sumarönn 2006. Því telji hún undanþáguákvæði 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 eiga við um sitt tilfelli.

Þá hefur kærandi nú lagt fyrir nefndina bréf, dags. 3. september 2009, frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem kemur fram að hefði kærandi sótt um sjúkradagpeninga innan tímamarka hefði hún átt rétt á þeim fyrir tímabilið 27. júlí 2006 til 25. ágúst 2006 að frátöldum 14 daga biðtíma.

 

Með bréfi, dagsettu 6. október 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um málið.

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 26. október 2009. Í greinargerðinni er meðal annars rakið ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, (ssl.), og bent á að kærandi hafi óskað eftir endurupptöku hjá úrskurðarnefndinni með bréfi sínu 18. júní 2009, eða rúmum fimm mánuðum eftir að ákvörðun lá fyrir í máli hennar. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. ssl. skuli hins vegar ekki taka beiðni um endurupptöku til greina eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því aðila var tilkynnt um ákvörðunina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Ekki verði séð að tilefni sé til að taka upp mál kæranda hvorki á grundvelli 1. eða 2. mgr. 24. gr. ssl. Ákveði úrskurðarnefndin engu að síður að taka upp mál kæranda fylgi röksemdir fyrir staðfestingu á ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs greinargerð stofnunarinnar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að barn kæranda sem mál þetta snýst um sé fætt Y. júní 2007. Á þeim tíma hafi kærandi verið í námi og sótt sem slíkur um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði við fæðingardag barns kæranda hafi foreldrar sem höfðu verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns átt rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi hafi verið að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur komi fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75–100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt hafi verið að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Tímabilið sem horfa skyldi til við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins hafi verið frá Y. júní 2006 og fram að fæðingu þess.

Samkvæmt námsferilsyfirliti frá C-háskóla, dags. 10. september 2007, hafi kærandi stundað nám við skólann á sumarönn 2006, haustönn 2006 og vorönn 2007. Kærandi hafi lokið 6 einingum á sumarönn 2006, 15 einingum á haustönn 2006 og 6 einingum á vorönn 2007. Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljist 11–15 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl.

Í ffl. eins og lögin voru við fæðingu barns kæranda og reglugerð nr. 1056/2004 hafi verið að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fram að fæðingu barns. Í 19. gr. reglugerðarinnar hafi t.a.m. verið að finna undanþáguákvæði fyrir móður frá skilyrðum 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna skv. 2. mgr. 9. gr. Hún skyldi sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 18. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hafa átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil.

Af framlögðum gögnum hafi ekki verið talið að kærandi uppfyllti umrætt undanþáguskilyrði og með hliðsjón af þeim gögnum sem lágu fyrir um námsframvindu kæranda hafi Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður litið svo á að kærandi uppfyllti ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns. Sú ákvörðun hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli kæranda nr. 47/2008 sem nú hafi verið óskað endurupptöku á.

Nú hafi kærandi lagt fram tvö vottorð um skólavist frá C-háskóla, dags. 9. mars 2009 og 1. október 2009, og bréf frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 3. september 2009, þar sem fram komi að hefði kærandi sótt um sjúkradagpeninga innan tímamarka hefði hún átt rétt á sjúkradagpeningum fyrir tímabilið frá 27. júlí 2006–25. ágúst 2006 að frátöldum 14 daga biðtíma.

Í framhaldinu hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum frá C-háskóla um fyrirkomulag náms kæranda á sumarönn 2006 og jafnframt að kærandi legði fram sjúkradagpeningavottorð það sem hafi legið að baki bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 3. september 2009. Sjúkradagpeningavottorðið barst þann 26. október 2009. Í því komi fram að þann 11. ágúst 2006 hafi vinstri eggjaleiðari verið fjarlægður hjá kæranda og þar með fóstrið sem hún gekk með á þeirri meðgöngu. Sé það í samræmi við læknisvottorð, dags. 9. nóvember 2007, sem fylgdi með kæru í máli nr. 47/2008.

Í samræmi við framangreint fái Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður ekki séð að neitt nýtt hafi komið fram í máli kæranda sem gefi tilefni til endurupptöku og/eða til þess að breyta fyrri ákvörðun. Undanþáguákvæði 19. gr. reglugerðarinnar verði ekki túlkað á annan veg en þann að það taki einungis til nánar tilgreindra heilsufarsástæðna móður skv. 2. mgr. 9. gr., á meðgöngu með því barni sem verið er að sækja um út af og skapað geti rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Veikindi móður í ágúst 2006 séu hvorki tilkomin né gerist vegna meðgöngu með barni fæddu Y. júní 2007 og því geti undanþáguákvæðið ekki átt við.

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 28. október 2009, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 9. nóvember 2009. Í bréfinu byggir kærandi meðal annars á því að í bréfi úrskurðarnefndar frá 5. febrúar 2009 hafi hvergi komið fram að kærandi þyrfti að gera athugasemdir við úrskurðinn innan þriggja mánaða. Úrskurðurinn sé byggður á röngum upplýsingum. Að öðru leyti vísar kærandi til beiðni um endurupptöku og þeirra nýju gagna sem hún hafi nú lagt fram.

Í umsögn kæranda er vísað til 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 þar sem segir að undanþáguákvæðið eigi við vegna veikinda móður á meðgöngu, en það segi ekkert til um með hvaða barni sá réttur sé fenginn, eingöngu að tekið skuli mið af síðustu tólf mánuðum frá því að barnið fæðist, þ.e. Y. júní 2006–Y. júní 2007. Á því tímabili hafi kærandi verið veik á meðgöngu sem hafi orðið til þess að hún kláraði ekki þær 24 ECTS einingar sem hún hafi upphaflega verið skráð í á sumarönn 2006.

Kærandi bendir á að á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs segi orðrétt: „Einnig er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk námsmanna þótt hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur, enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum. Skilyrði er að móðir hafi verið skráð í fullt nám og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður, verið á biðtíma eftir þeim eða hefði átt rétt á þeim hefði hún sótt um þá.“ Kærandi telur sig í fyrsta lagi hafa sýnt fram á að hún hafi verið skráð í fullt nám (24 ECTS einingar), í öðru lagi að hún hafi átt rétt á sjúkradagpeningum og í þriðja lagi að veikindi hennar hafi verið tengd meðgöngu. Þar af leiðandi telji hún sig eiga fullan rétt á greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði sem námsmaður í fullu námi.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Hinn 5. febrúar 2009 kvað úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála upp úrskurð í máli kæranda gegn Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði, sbr. mál nefndarinnar nr. 47/2008. Í forsendum úrskurðarins kemur meðal annars fram að samkvæmt gögnum í málinu frá C-háskóla verði ekki séð að kærandi hafi verið skráð í fullt nám á sumarönn 2006, heldur einungis nám sem nemur sex einingum. Þá komi ekki fram að kærandi hafi fengið greidda sjúkradagpeninga eða átt rétt á þeim. Því hafi ekki verið skilyrði til að beita undanþáguákvæði 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 í tilviki kæranda.

Af hálfu úrskurðarnefndarinnar er litið svo á að með bréfi sínu, dags. 18. júní 2009, sem var móttekið 13. júlí 2009, hafi kærandi óskað eftir endurupptöku á máli nr. 47/2008 frá 5. febrúar 2009, með vísan til nýrra gagna um nám kæranda og rétt til sjúkradagpeninga.

Um heimildir til endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. ssl. Er 1. mgr. ákvæðisins svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Eins og fram kemur í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 47/2008 teljast 15 einingar á önn vera 100% nám þegar um nám við háskóla er að ræða og því teljast 11–15 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Í niðurstöðu úrskurðar máls nr. 47/2008 taldist kærandi ekki hafa uppfyllt þetta skilyrði ffl. og reglugerðar nr. 1056/2004 um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Var úrskurðurinn meðal annars reistur á þeirri niðurstöðu. Að mati nefndarinnar er ljóst að kærandi hefur með umræddum gögnum um nám sitt sýnt fram á að úrskurður í máli nr. 47/2008 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hið sama má segja um nýjar upplýsingar um rétt kæranda til sjúkradagpeninga. Því telur nefndin ljóst að kærandi hefur uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. ssl. til endurupptöku máls.

Í 2. mgr. sama ákvæðis segir:

„Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 47/2008 var sem fyrr segir kveðinn upp 5. febrúar 2009 og birtur kæranda með bréfi sama dag. Beiðni kæranda um endurupptöku er dagsett 18. júní 2009 og móttekin af úrskurðarnefndinni hinn 13. júlí 2009. Af því er ljóst að frestur sá sem tilgreindur er í lok 2. mgr. 24. gr. ssl. er liðinn. Í umsögn Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um endurupptökubeiðnina kemur fram að stofnunin telur hvorki tilefni til að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 1. mgr. 24. gr. ssl. né 2. mgr. sama ákvæðis. Hinn 18. nóvember 2009 leitaði úrskurðarnefndin, með tölvubréfi, eftir skýrri afstöðu Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til þess hvort lagst væri gegn því að úrskurðarnefndin tæki mál kæranda fyrir að nýju. Afstaða Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs barst sama dag í tölvubréfi en í því kemur fram að Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður telji rétt að úrskurðarnefndin taki mál kæranda fyrir að nýju.

Með hliðsjón af framangreindu og vegna nýrra gagna frá Sjúkratryggingum Íslands annars vegar og C-háskóla hins vegar er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að heimilt sé að endurupptaka mál nr. 47/2008 og er beiðni kæranda um það tekin til greina.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði við fæðingu barns kæranda hinn Y. júní 2007, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna var skilgreint í 18. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 18. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1056/2004 sagði að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75–100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Eins og fyrr greinir fæddist barn kæranda hinn Y. júní 2007. Með hliðsjón af því er við það miðað að tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sé frá Y. júní 2006 til Y. júní 2007.

Kærandi stundaði nám í B-fræði við C-háskóla. Óumdeilt er að kærandi var þar í fullu námi á haustönn 2006. Samkvæmt vottorði frá C-háskóla dagsettu 9. mars 2009 kemur fram að kærandi hafi verið skráð í 24 ECTS einingar á sumarönn 2006 en einungis lokið 12 ECTS einingum þá önn. Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám og því teljast 22–30 ECTS einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Í ljósi þess telst kærandi ekki hafa uppfyllt skilyrði ffl. og reglugerðar nr. 1056/2004 um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er að finna undanþáguákvæði fyrir móður frá skilyrðum 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna skv. 2. mgr. 9. gr. hennar. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 18. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil. Samkvæmt nýjum gögnum um aðstæður kæranda var hún skráð í fullt nám við C-háskóla á sumarönn 2006. Með vottorði, dagsettu 3. september 2009, frá Sjúkratryggingum Íslands hefur verið sýnt fram á að kærandi hefði átt rétt á sjúkradagpeningum fyrir tímabilið frá 27. júlí 2006 til 25. ágúst 2006 ef hún hefði sótt um slíkar greiðslur. Er því þessum skilyrðum 19. gr. reglugerðarinnar fullnægt. Til þess að njóta undanþágu 19. gr. reglugerðarinnar þarf þó einnig að uppfylla það skilyrði að móðirin hafi ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna skv. 2. mgr. 9. gr. Í tilvitnaðri 2. mgr. 9. gr. er að finna nánari skilgreiningu á því hvað átt er við með „heilsufarsástæðum“. Í ákvæðinu segir:

Með heilsufarsástæðum er hér átt við:

a. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

c. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.“

Ákvæði 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er undanþáguákvæði. Því má beita ef skilyrðum 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar um viðunandi námsárangur og/eða ástundun er ekki fullnægt. Það er skýrt skilyrði fyrir beitingu undanþáguákvæðis 19. gr. að móðirin hafi ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna sem nánar eru skilgreindar í framangreindri 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Fyrir liggur í málinu að ástæða þess að kærandi stundaði ekki fullt nám á sumarönn 2006 voru veikindi sem hún glímdi við vegna utanlegsfósturs, en í ágúst 2006 þurfti að fjarlægja eggjaleiðara hjá kæranda og þar með fóstrið sem hún gekk með á þeirri meðgöngu. Var ekki um að ræða sjúkdóma eða veikindi sem tengdust þeirri meðgöngu sem lauk með fæðingu barns kæranda Y. júní 2007. Ákvæði 19. gr. er sem fyrr segir undanþáguákvæði sem ber að skýra þröngt samkvæmt almennum skýringarreglum. Með vísan til þess, sem og tilgangs ffl. og reglugerðar nr. 1056/2004, verður undanþága 19. gr. ekki skýrð á annan hátt en þann að eingöngu sé átt við sjúkdóma móður á þeirri meðgöngu sem að lokum leiðir til réttar samkvæmt reglum ffl. um greiðslu fæðingarorlofs eða -styrks. Sjúkdómar sem tengjast annarri meðgöngu geta að mati nefndarinnar ekki heimilað beitingu undanþáguákvæðis 19. gr. reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu eru skilyrði undanþáguákvæðis 2. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar hvað varðar nám kæranda á sumarönn 2006 ekki uppfyllt.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar í máli nr. 47/2008, um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta