Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 27/2013

Þriðjudaginn 17. desember 2013


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. maí 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 15. maí 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. apríl 2013, þar sem henni var tilkynnt að umsókn kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna öryggisástæðna á vinnustað væri hafnað.  

Með bréfi, dags. 28. maí 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 14. júní 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. júní 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi var að vinna hjá tveimur vinnuveitendum á meðan hún var barnshafandi. Vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustað þurfti kærandi að fara í leyfi hjá öðrum þeirra frá og með 18. desember 2012. Kærandi fékk þó greidd laun hjá þeim vinnuveitanda út febrúar 2013. Kærandi starfaði áfram hjá hinum vinnuveitanda sínum til 6. maí 2013 þegar hún fór í fæðingarorlof, en umsókn hennar um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu var samþykkt frá og með 7. maí 2013. Kærandi sótti um greiðslur skv. 3. mgr. 11. gr. ffl. frá 18. desember 2012 með umsókn, dags. 20. desember 2012. Kæranda var synjað um greiðslur skv. 3. mgr. 11. gr. ffl. þar sem hún var í launuðu starfi. Er það sú ákvörðun sem nú er kærð til úrskurðarnefndarinnar.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið í fullu starfi hjá V. Kærandi hafi þar verið í snertingu við hættuleg og ætandi efni. Af öryggisástæðum og þar sem ekki sé unnt að útvega kæranda annað starf hjá þeim vinnuveitanda hafi kæranda verið veitt leyfi frá störfum eins og lög um rétt og öryggi þungaðra kvenna geri ráð fyrir. Einnig hafi kærandi verið, og sé enn, í aukavinnu sem teljist til 45% starfshlutfalls. Aukavinnan sé ekki hættuleg heilsu kæranda.

Kærandi hafi tvívegis sótt um lengingu fæðingarorlofs en í bæði skiptin verið synjað, annað skiptið af tæknilegum orsökum og hitt skiptið með tilvísun í mál úrskurðarnefndarinnar nr. 6/2009. Það mál sé að mati kæranda algerlega ósambærilegt þar sem sá aðili hafi haldið áfram vinnu sinni hjá sama vinnuveitanda en farið í léttari störf.

Kærandi hafi ekki getað haldið áfram hjá vinnuveitanda sínum þar sem léttari störf hafi ekki verið í boði. Þess megi geta að aðrar konur sem vinni á sama vinnustað hafi fengið lengingu fæðingarorlof án athugasemda frá Fæðingarorlofssjóði. Þær konur hafi fengið 100% greiðslur frá sjóðnum en kæranda sé synjað um 55% hlutfallsgreiðslu á móti minni aukavinnu og standi því eftir með aðeins 45% framfærslu. Þetta sé ekki í takt við anda laganna sem eigi að trygga heilsu og rétt þungaðra kvenna og ófæddra barna þeirra.

Kærandi vísi fyrst og fremst til jafnræðisreglu stjórnsýslunnar, þ.e. að aðrar konur hjá sama vinnuveitanda hafi hætt og fengið fullar greiðslur, og tilgans laganna, þ.e. þann tilgang að tryggja þunguðum konum rétt til greiðslu á móti atvinnumissi þurfi þær að hætta af öryggisástæðum, sem rök fyrir sínu máli.

Kærandi fari fram á við úrskurðarnefndnina að fá úrskurðaðan rétt til 100% greiðslu á móti atvinnumissi sínum, en til vara 55% rétt.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með tveimur umsóknum, dags. 20. desember 2012 og 29. apríl 2013, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar Y. júní 2013. Á fyrri umsókn kæranda hafi verið hakað við reit um að kærandi væri jafnframt að sækja um lengingu af öryggis- og heilbrigðisástæðum frá 18. desember 2012.

Auk umsókna kæranda hafi borist vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 18. desember 2012. Tvær tilkynningar um fæðingarorlof, dags. 20. desember 2012 og 29. apríl 2013, launaseðlar frá V ehf. og frá Z, tvö bréf frá V ehf. bæði dagsett 19. desember 2012 en það seinna hafi borist 29. apríl 2013 og hafði þá texta bréfsins verið breytt, tvö bréf frá kæranda, dags. 11. mars og 23. apríl 2013, tvö bréf frá Z, dags. 8. mars og 24. apríl 2013 ásamt útskrift úr launakerfi og læknisvottorð, dags. 16. apríl 2013. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 15. apríl 2013, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum hefði verið synjað þar sem hún væri ekki óvinnufær að fullu vegna öryggis- og heilbrigðis á vinnustöðum skv. 11. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga.

Með bréfi til kæranda, dags. 30. apríl 2013, hafi henni verið veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

Í bréfi V ehf., dags. 19. desember 2012, komi fram að vegna starfsumhverfis (meðhöndlun kemískra efna og fleira) geti kærandi ekki sinnt starfi sínu v/þungunnar og V geti ekki útvegað henni annað starf við hæfi. Síðan komi fram að kærandi hætti því störfum hjá V þann 18. desember 2012. Í öðru bréfi frá V ehf. sem einnig sé dagsett 19. desember 2012 en hafi borist Fæðingarorlofssjóði þann 29. apríl 2013 komi efnislega það sama fram nema nú sé tekið fram að kæranda hafi verið veitt leyfi frá störfum þar til fæðingarorlofi sé lokið en ekki hætt störfum eins og komið hafi fram í fyrra bréfi.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og öðrum gögnum málsins liggi fyrir að kærandi hefur bæði verið í starfi hjá V ehf. og Z. Þannig komi fram í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, þrátt fyrir framangreind bréf V ehf., að kærandi sé á launum hjá V ehf. út febrúar 2013 og hjá Z til 6. maí 2013, sbr. og bréf fyrirtækisins frá 24. apríl sl.

Með læknisvottorði, dags. 16. apríl 2013, sótti kærandi um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda móður af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum skv. 3. mgr. 17. gr. ffl., sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Með bréfi til kæranda, dags. 6. maí 2013, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um lengingu á fæðingarorlofi skv. 3. mgr. 17. gr. ffl. hefði verið samþykkt frá 7. maí 2013 og fram að fæðingu barnsins, þó að hámarki í tvo mánuði.

Ágreiningur þessa máls snúi því skv. framangreindu að því hvort kærandi geti átt rétt á lengingu fæðingarorlofs vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum, sbr. 11. gr. ffl., vegna starfa sinna fyrir V ehf. og á sama tíma verið áfram í vinnu hjá Z, frá 1. mars 2013 (þegar kærandi féll af launaskrá hjá V ehf.) og til 7. maí 2013 þegar umsókn hennar um lengingu vegna veikinda á meðgöngu var samþykkt.

Í 1. mgr. 11. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) komi fram að ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hafi nýlega alið barn eða konu sem sé með barn á brjósti sé í hættu samkvæmt sérstöku mati skuli vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Ef því verði ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skuli vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt sé til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Jafnframt segi í ákvæðinu að um framkvæmd þess skuli farið eftir nánari reglum sem félagsmálaráðherra setur.

Í 2. mgr. 11. gr. ffl. komi fram að þær breytingar, sem teljist nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konu, sbr. 1. mgr., skuli ekki hafa áhrif á launkjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi.

Í 3. mgr. 11. gr. ffl. segi að ef veita þurfi þungaðri konu leyfi frá störfum samkvæmt ákvæðinu eigi hún rétt á greiðslum, sbr. 13. gr.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sé fjallað um rétt þungaðra kvenna til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Þar sé m.a. fjallað um hvað starfsmaður þurfi að leggja fram vegna leyfisins svo og heimild Vinnumálastofnunar til að óska aðstoðar Vinnueftirlits ríkisins við að endurskoða ákvörðun vinnuveitanda um leyfisveitingu.

Þáverandi félagsmálaráðherra hafi gefið út sérstaka reglugerð vegna öryggis- og heilbrigðis á vinnustöðum, sbr. reglugerð nr. 931/2000. Í athugasemdum við 1. mgr. 11. gr. ffl. komi fram að í reglugerðinni sé fjallað nánar um hvernig standa skuli að ákvörðun um hvort nægilegt sé að breyta vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma eða hvort frekari aðgerða þurfi við.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar komi fram að leiði niðurstöður mats skv. 1. mgr. 3. gr. í ljós að öryggi og heilbrigði konu sem er þunguð eða hefur barn á brjósti í skilningi 2. gr. er í hættu skuli vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar.

Í 2. mgr. komi fram að ef af tæknilegum ástæðum sé óæskilegt eða ekki unnt að breyta vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma eða ekki sé unnt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist skuli vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fela starfsmanninum önnur verkefni. Vinnuveitandi eða starfsmaður geti leitað umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun sé tekin um breytingu á vinnuskilyrðum, vinnutíma eða verkefnum. Síðan komi fram í ákvæðinu að breytingar á vinnutíma, vinnuskilyrðum eða verkefnum hafi ekki áhrif á launakjör til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi, sbr. 2. mgr. 11. gr. ffl.

Í 3. mgr. komi fram að ef af tæknilegum ástæðum sé óæskilegt eða ekki unnt að fela starfsmanninum önnur verkefni eða ekki sé unnt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist skal veita honum leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt sé til að vernda öryggi hans og heilbrigði. Vinnuveitandi geti leitað umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun sé tekin um veitingu leyfis. Ef veita þurfi þungaðri konu leyfi frá störfum eigi hún rétt á greiðslum, sbr. 3. mgr. 11. gr. og 13. gr. ffl. og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hafi komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 6/2009 að foreldri geti ekki átt rétt til greiðslna skv. 3. mgr. 11. gr. ffl. meðan það væri í launuðu starfi. Þannig segi orðrétt um þetta í úrskurðinum: „Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. er fæðingar- og foreldraorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 2. mgr. 10. gr. laganna er gert ráð fyrir því að starfsmaður geti með samkomulagi við vinnuveitanda sinn skipt fæðingarorlofi sínu niður á fleiri en eitt tímabil og/eða tekið það samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála á ákvæði 2. mgr. 10. gr., um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samhliða skertu starfshlutfalli, ekki við hvað varðar rétt foreldris til greiðslna samkvæmt 3. mgr. 11. gr. ffl. Með hliðsjón af því og orðalagi 3. mgr. 11. gr. ffl. telur nefndin að foreldri eigi ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli ákvæðisins meðan það er í launuðu starfi.“

Í samræmi við allt framangreint telji Fæðingarorlofssjóður að kærandi geti ekki átt rétt á greiðslum skv. 3. mgr. 11. gr. vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum þar sem hún hafi verið í launuðu starfi bæði hjá V ehf. og Z út febrúar 2013. Kærandi getur heldur ekki átt rétt á lengingunni tímabilið frá 1. mars til 6. maí 2013 þar sem hún hafi enn verið í launuðu starfi hjá Z á tímabilinu, sbr. staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og bréf fyrirtækisins, dags. 24. apríl 2013. Kærandi geti heldur ekki átt rétt á lengingunni frá 7. maí 2013 og fram að fæðingu barnsins enda hafi umsókn hennar um lengingu vegna veikinda á meðgöngu verið samþykkt frá þeim tíma, sbr. bréf til hennar, dags. 6. maí 2013. Með hliðsjón af framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður ekki metið aðstæður á vinnustað með tilliti til öryggis og heilbrigðis kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum, sbr. bréf til hennar, dags. 15. og 30. apríl 2013.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum.    

Kærandi byggir á því að hún hafi þurft að leggja niður störf hjá öðrum af tveimur vinnuveitendum vegna öryggisástæðna, en þar hafi kærandi verið í snertingu við hættuleg og ætandi efni. Kærandi telji að hún eigi rétt á framlengingu vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum þrátt fyrir að hún hafi haldið áfram í hlutastarfi hjá hinum vinnuveitanda sínum.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að ekki sé unnt að samþykkja framlengingu á fæðingarorlofi kæranda vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum þar sem hún hafi verið í hlutastarfi hjá öðrum vinnuveitanda á sama tíma.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK var kærandi á launum hjá báðum vinnuveitendum sínum út febrúar 2013 og öðrum til 6. maí 2013. Þá hefur umsókn kæranda um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda móður af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum verið samþykkt frá 7. maí 2013.

Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. ffl. á þunguð kona sem veita þarf leyfi frá störfum vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustað rétt á greiðslum, sbr. 13. gr. Í máli 6/2009 sem Fæðingarorlofssjóður vitnar til, féllst úrskurðarnefndin á tiltekin sjónarmið sjóðsins varðandi skýringu þessa ákvæðis. Þau sjónarmið voru í stuttu máli þau að skert starfshlutfall væri á meðal þeirra ráðstafana sem vinnuveitanda bæri að grípa til þegar þungaður starfsmaður er ekki fær um að sinna hefðbundnu starfi sínu að fullu með óbreyttum hætti. Kæmi við þær aðstæður ekki til kasta 3. mgr. 11 gr. ffl. sem aðeins er ætlað að taka til þeirra tilvika þegar ráðstafanir samkvæmt 1. og 2. mgr. eru ekki fullnægjandi og því nauðsynlegt að veita þungaðri konu leyfi frá störfum.

Kærandi í þessu máli fékk hins vegar leyfi frá störfum og fellur því beinlínis undir orðalag 11. gr. að því leyti. Verður ekki talið að sú aðstaða að hún hafi getað haldið léttara hlutastarfi hjá öðrum vinnuveitanda áfram, girði fyrir rétt hennar til umræddra greiðslna. Á hinn bóginn takmarkast réttur hennar til greiðslna af öðrum ákvæðum 13. gr. laganna.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda, A um greiðslur skv. 3. mgr. 11. gr. ffl. er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslna á grundvelli 3. mgr. 11. gr. ffl. vegna leyfis frá störfum hjá V ehf. frá 1. mars 2013.

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta