Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 65/2003

Fimmtudaginn, 19. febrúar 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 14. október 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 10. október sama ár.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 21. ágúst 2003 um að greiða kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Við eigum son sem er fæddur 18/10 ´01 á B-sjúkrahúsi. Strax eftir fæðingu kom í ljós að vinstra nýra vantaði og hægra nýra starfaði illa – auk þess sem þrengsli voru í þvagleiðara. Þetta hefur valdið fjölskyldunni miklum útgjöldum og raski. Þess vegna hef ég enga vinnu getað stundað utan heimilis en hefði farið að vinna að fæðingarorlofi loknu...“

 

Með bréfi, dags. 16. október 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 24. nóvember 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 11. ágúst 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi í 6 mánuði frá október 2003 vegna væntanlegrar fæðingar 2. september. Tekið var fram á umsókninni að vegna veikinda barns fædds 18. október 2001 hefði hún ekki getað verið úti á vinnumarkaði.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 21. ágúst 2003 var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um fæðingarstyrk hefði verið afgreidd og hverjar greiðslur til hennar yrðu.

Í kæru er farið fram á að tekið verði tillit til þess, að kærandi hafi ekki getað verið úti á vinnumarkaði vegna veikinda eldra barns, með því að henni verði greiddur hærri fæðingarstyrkur.

Í 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 er kveðið á um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi og í 19. gr. laganna er kveðið á um greiðslu hærri fæðingarstyrks til námsmanna. Kærandi hefur ekki verið í námi og á því ekki rétt á hærri fæðingarstyrk.

Þá er ekki fyrir hendi heimild til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem kærandi uppfyllir ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns) þar sem hún starfaði ekki á vinnumarkaði á því tímabili né ávann sér á annan hátt, sbr. upptalningu í 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000, sem telja verður tæmandi.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. nóvember 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofs­sjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að til samfellds starfs teljist enn fremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er á biðtíma eftir slíkum greiðslum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum. Hlutaðeigandi úthlutunarnefnd metur hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum, hefði foreldri skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr. Um rétt til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði fer samkvæmt skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Kærandi ól barn 5. september 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 5. mars 2003 til fæðingardags barns. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki það skilyrði fyrir greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hún starfaði ekki á vinnumarkaði á þeim tíma né ávann sér rétt á annan hátt sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof heimila ekki að vikið sé frá skilyrði um sex mánaða samfellt starf vegna veikinda barna.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. ffl. eiga foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar. Foreldrar í fullu námi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks, sem er hærri en fæðingarstyrkur foreldra utan vinnumarkaðar, í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, sbr. 19. gr. ffl.

Kærandi var ekki í námi og átti því eigi rétt til fæðingarstyrks sem námsmaður samkvæmt 19. gr. ffl. Samkvæmt því er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem foreldris utan vinnumarkaðar, staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða A fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta