Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 71/2003

Þriðjudaginn, 30. mars 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 24. október 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 23. október 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 25. júlí 2003 um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem námsmanni.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Atvik máls og málsástæður.

Undirritaður sótti um fæðingarstyrk námsmanns, sbr. lög nr. 95/2000, til Tryggingastofnunar ríkisins vegna fæðingar sonar míns en hann fæddist 30. ágúst sl. Lagði ég fram öll tilskilin gögn í því sambandi. Með bréfi lífeyristryggingasviðs stofnunarinnar, dags. 25. júlí sl, var mér synjað um fæðingarstyrk og voru eftirfarandi forsendur lagðar til grundvallar sem hér skipta máli:

„Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Fullt nám telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllir þú ekki skilyrðið um fullt nám. Nám á haustönn 2002 var einungis 6 einingar, sem nær ekki 75% námi sé miðað við að fullt nám sé 15 einingar, og námsárangur á vorönn 2003 er ekki kominn að fullu á því vottorði sem þú sendir inn.“

Það er afstaða mín að framangreind skýring Tryggingastofnunar ríkisins á ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 sé rangur auk þess sem rangt er farið að við mat á aðstæðum mínum. Ákvæði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er svohljóðandi:

„Foreldrar í fullu námi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur.“

Í 7. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2000 segir að félagsmálaráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis. Þá er að finna almenna reglugerðarheimild í 35. gr. sömu laga. Á grundvelli síðarnefnda ákvæðisins hefur félagsmálaráðherra sett reglugerð nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. m.a. reglugerðir nr. 969/2001 og 915/2002.

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til mín, dags. 25. júlí sl., er vísað til 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, þar sem skilyrðið um að foreldri sé „í fullu námi”, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, er útfært með eftirfarandi hætti í fyrstu tveimur málsliðum 1. mgr. 14. gr., sbr. breytingu á málsgreininni með a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 915/2002:

,,Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.“

Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, segir síðan svo:

„Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.“

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til mín, dags. 25. júlí sl., er synjunin fyrst og fremst á því byggð að samkvæmt framlögðum gögnum hafi ég ekki uppfyllt skilyrðið um fullt nám. Nám mitt á haustönn 2002 hafi einungis verið 6 einingar sem nái ekki 75% námi sé miðað við að fullt nám sé 15 einingar og þá sé námsárangur á vorönn 2003 ekki kominn að fullu á því vottorði sem ég sendi inn. Þessi aðferðarfræði er að mínu áliti ekki í samræmi við 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000. 

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 stofnast sjálfstæður réttur til fæðingarstyrks til handa því foreldri sem er „í fullu námi“. Samkvæmt orðanna hljóðan á þetta við um það foreldri sem sýnt getur fram á að það hafi verið skráð og lagt stund á fullt nám í tiltekinn tíma fyrir fæðingu barns. Hvorki af orðalagi 1. mgr. 19. gr. né athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 95/2000 verður ráðið að það hafi verið ætlun löggjafans að viðkomandi foreldri þyrfti að sýna fram á tiltekin námsárangur svo lengi sem ljóst væri að foreldri hefði stundað sitt nám samviskusamlega og þreytt próf. Niðurstaðan úr prófum viðkomandi foreldris hefur engin áhrif á rétt foreldrisins til fæðingarstyrks í merkingu 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 enda sýni foreldrið fram á að það hafi verið „í fullu námi”. Réttur fæðingarstyrks samkvæmt lögum nr. 95/2000 er þannig ekki háður sömu lögmálum eins og réttur til útgreiðslu námslána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Tilgangur réttarins til fæðingarstyrks er að gera foreldrum kleift að halda áfram að stunda nám sitt þrátt fyrir að barn sé í vændum enda geti það vænst þess að ríkið greiði því fæðingarstyrk þannig að það geti verið hjá barni sínum í tiltekinn tíma.

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til mín, dags. 25. júlí sl, er vísað til 14. gr. reglugerðar 909/2000 til stuðnings þeirri niðurstöðu að synja mér um fæðingarstyrk. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er áskilið eins og fyrr greinir að umsækjandi um fæðingarstyrk leggi fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám „og hafi sýnt viðunandi námsárangur”. Með umsókn minni sendi ég inn staðfestingu skóla um að ég væri skráður í fullt nám, sbr. bréf nemendaskrár B-háskóla, dags. 26. maí 2003, sem er svohljóðandi:

„A er skráður stúdent við B-háskóla háskólaárið 2002-2003 í fullu námi”. 

 Einnig fylgdi með umsókn minni yfirlit nemendaskrár B-háskóla, dags. 26. maí 2003, yfir þær greinar sem ég stundaði haustið 2002 (H-02), þ.e. D-fræði (3 ein), en þar þreytti ég próf og fékk einkunnina E, F-fræði (3 ein), en ég var veikur daginn sem prófið fór fram og lagði ég inn læknisvottorð, G-fræði (3 ein), en þar þreytti ég próf og fékk einkunnina H, I-fræði (3 ein), en þar þreytti ég próf og fékk einkunnina J, og loks K-fræði (3 ein), en þar þreytti ég próf og fékk einkunnina L. Það er því ljóst að ég stundaði „fullt nám“ haustið 2003 enda gera þetta samtals 15 einingar, sbr. bréf Tryggingastofnunar ríkisins til mín, dags. 25. júlí sl., enda þótt námsárangur minn í lok annarinnar hafi einungis gefið mér 3 einingar í raun. Sú niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins um að nám mitt á haustönn hafi einungis verið 6 einingar er því einnig efnislega rangt. Ég bendi hér á að á skólaárinu var ég ekki með tekjur vegna launaðrar vinnu enda lagði ég eins og fyrr segir allt kapp á að leggja stund a fullt nám við B-háskóla enda þótt árangur minn hafi ekki verið eins góður og ég vonaðist eftir.

Það er ljóst að Tryggingastofnun ríkisins byggir synjun sína á framangreindu ákvæði 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 að umsækjandi leggi fram staðfestingu um að hann hafi sýnt viðunandi námsárangur. Félagsmálaráðherra hefur enga heimild til að þrengja þann lögbundna og sjálfstæða rétt til fæðingarstyrks sem löggjafinn hefur veitt foreldrum með 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 með ólögmætri kröfu um að sýnt sé fram á viðunandi námsárangur. Slík krafa hefur ekkert að segja þegar afmarkað er hvort viðkomandi foreldri er „í fullu námi“. Það er sjálfstætt skilyrði sem þyrfti þá að koma fram aukalega í lagatextanum. Reglugerðarheimildir 7. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 og 35. gr. veita ráðherra aðeins heimild til að kveða nánar á um „framkvæmd“ laganna en ekki að þrengja þann rétt sem þar er veittur. Það er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þess, sbr. orðalag 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000, hvort gengið hefur verið lengra hvað varðar kröfu um „viðunandi námsárangur“ í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 en heimilt er á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000. 

Hvað sem þessu líður tel ég rétt að úrskurðarnefndin horfi til meðfylgjandi yfirlits frá nemendaskrá B-háskóla, dags. 1. október 2003, þar sem fram kemur að á þessu ári, þ.e. vor og sumar 2003 (V-03 og S-03) hef ég lokið með viðunandi námsárangri 12 einingum, þ.e. 75% af „fullu námi“ í merkingu 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, þ.e. ef miðað er við 15 einingar eins og gert er í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til mín, dags. 25. júlí sl. Ég legg á það áherslu að ég lýk öllum þessum prófum áður en sonur minn fæðist 30. ágúst sl. Samkvæmt þessu er fullkomlega ljóst að ég á rétt til fæðingarstyrks á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 með tilliti til þessara upplýsinga hvort sem miðað er einungis við sannanlega ástundun, eins og ég hef rökstutt hér að framan að sé hin lögmæta krafa samkvæmt 1. mgr. 19. gr. 95/2000, eða að gerð sé krafa um að viðkomandi leggi fram staðfestingu á viðunandi námsárangri, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Í þessu sambandi bendi ég raunar á það nýmæli sem bætt var við 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 með 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002 þar sem nú segir að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist. Þetta ákvæði hafði tekið gildi þegar Tryggingastofnun ríkisins fjallaði um umsókn mína en að því er ekkert vikið í bréfi stofnunarinnar til mín.

Þess er óskað að úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála fjalli um framangreinda kæru og taki afstöðu til þeirra málsástæðna sem að framan eru raktar. Ítrekað er að gerð er krafa um að úrskurðarnefndin felli synjun Tryggingastofnunar ríkisins úr gildi og viðurkenni rétt minn til greiðslu fæðingarstyrks á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 og reglugerðar nr. 909/2000 og sjá til þess að mér verði greiddur umbeðinn fæðingarstyrkur hið fyrsta.“

  

Með bréfi, dags. 27. október 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 26. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og fæðingarorlof nr. 95/2000(ffl.).

Með umsókn dags. 20. júní 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í 3 mánuði frá 1. september 2003 vegna væntanlegrar fæðingar 11. júní 2003. Með umsókninni fylgdu vottorð frá B-háskóla dags. 26. maí 2003 um að hann væri skráður stúdent við skólann háskólaárið 2002-2003 í fullu námi og námsferilsyfirlit dags. sama dag þar sem fram kom að á haustönn 2002 hafi hann verið skráður í 15 einingar, náð 3 einingum, fallið í 9 einingum og skilað vottorði í 3 einingum, og á vorönn 2003 hafi hann verið skráður í 18 einingar, náð 6 einingum, skráð sig úr 3 einingum, skilað vottorði í 3 einingum og væri áætlaður í próf í 6 einingum.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfi á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Fullt nám við B-háskóla telst vera 15 einingar á hverri önn. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. breytingarreglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur.

Skv. 5. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 1. gr. breytingareglugerðar nr. 969/2001, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. 

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 25. júlí 2003 var kæranda tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði 14. gr. reglugerðarinnar um fullt nám. Nám á haustönn 2002 hafi einungis verið 6 einingar sem nái ekki 75% námi sé miðað við að fullt nám sé 15 einingar og námsárangur á vorönn 2003 sé ekki kominn að fullu á því vottorði sem hann hafi sent inn. Síðan var bent á það að foreldri sem lokið hefur a.m.k. einnar annar námi og farið á vinnumarkað strax að því loknu geti átt rétt á greiðslum sem námsmaður ef samanlagður náms- og starfstími sé a.m.k. sex mánuðir.

Með kæru fylgir námsferilsyfirlit frá B-háskóla dags. 1. október 2003. Þar kemur fram að af þeim 6 einingum á vorönn 2003 sem ekki voru upplýsingar um á fyrra námsferilsyfirlit hafi kærandi lokið 3 einingum og fallið í 3 einingum. Á sumarönn hafi hann síðan verið skráður í 12 einingar, lokið 3 einingum (fag sem hann var skráður í á haustönn 2002), fallið í 3 einingum og skráð sig úr 6 einingum. Af þeim fögum sem hann hafði verið skráður í hafði hann þannig náð 9 einingum sem hann var skráður í á haustönn 2002 og sömuleiðis 9 einingum sem hann var skráður í á vorönn 2003.

Kærandi hefur því ekki sýnt viðunandi námsárangur til þess að fullnægja skilyrðum fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna, hvorki á grundvelli 1. mgr. né 5. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. janúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 20. febrúar 2004, þar segir m.a.:

„Undirritaður hefur móttekið greinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar tel ég ekki koma neinn nýr rökstuðningur við kæru mína sem er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd fæðingar og foreldraorlofsmála. Því hef ég ekki annað að bæta við minn rökstuðning fyrir kæru minni annað en það sem fram kemur í kæru og kröfugerð þeirri sem ég sendi inn í félagsmálaráðuneytið móttekið þann 24. október 2003.“

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúnings­menntunar og nám á háskólastigi.

Barn kæranda er fætt 30. ágúst 2003. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 30. ágúst 2002 til fæðingardags barns. 

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Við mat á því hvort kærandi hafi verið í fullu námi og eigi rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður verður því auk skráningar hans í nám að líta til námsframvindu og námsárangurs hans í B-háskóla á viðmiðunartímabilinu.

Kærandi var skráður sem stúdent við B-háskóla í fullt nám á haustmisseri 2002 svo og á vormisseri 2003. Samkvæmt yfirliti nemendaskrár B-háskóla dags. 1. október 2003 lauk kærandi 3 einingum á haustmisseri 2002, var með vottorð í einu fagi sem gefur 3 einingar og náði ekki lágmarkseinkunn í þremur fögum sem teljast 9 einingar en í einu af þeim fögum lauk hann prófi á sumarmisseri 2003. Á vormisseri lauk kærandi 9 einingum, var með vottorð í einu fagi sem gefur 3 einingar, skráði sig úr prófi í fagi sem gefur 3 einingar og náði ekki lágmarkseinkunn í einu prófi í fagi sem gefur 3 einingar.

Samkvæmt upplýsingum frá B-háskóla telst fullt nám við skólann vera 15 einingar á misseri. 

Með hliðsjón af því sem fram kemur um námsframvindu og námsárangur í gögnum málsins og rakið hefur verið verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið í 75-100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu fæðingarstyrks er staðfest. 

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta