Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 16/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 26. ágúst 2014 var tekið fyrir mál nr. 16/2014:


Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

Steinunn Kristín Pétursdóttir hefur f.h. A með kæru, dags. 24. júní 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála synjun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 13. júní 2014, á umsókn kæranda um fæðingarstyrk vegna andvanafæðingar/fósturláts.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 5. júní 2014, sótti kærandi um fæðingarstyrk vegna fósturláts eftir 18 vikna og 5 daga meðgöngu. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. júní 2014, á þeirri forsendu að réttur hennar væri fallinn niður. Kærandi kærði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru, dags. 24. júní 2014. Með bréfi, dags. 2. júlí 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 8. júlí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júlí 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir umboðsmaður kæranda frá því að kærandi hafi fætt barn þann Y. febrúar 2014 eftir 20 vikna meðgöngu en barnið hafi látist stuttu síðar. Kærandi hafi þá verið 16 ára gömul og hvorki á vinnumarkaði né í námi. Umboðsmaður kæranda hafi tekið hana í fóstur um miðjan maí 2014 og hafi farið að spyrjast fyrir um umsókn hennar um fæðingarstyrk. Þá hafi komið í ljós að kærandi hafi ekki sent inn umsókn og réttur hennar væri að öllum líkindum fyrndur. Þeir fullorðnu einstaklingar sem hafi borið ábyrgð á kæranda á þessum tíma hafi ekki upplýst hana um að hún ætti rétt á fæðingarstyrk. Kærandi sé barn og ekki sé hægt að gera hana ábyrga fyrir þeirri yfirsjón að hafa ekki sent inn umsókn á réttum tíma. Sökin liggi hjá þeim sem hafi borið ábyrgð á kæranda í febrúar 2014.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.), sbr. 9. gr. laga nr. 136/2011, þar sem fram komi að sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eigi foreldrar sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í allt að tvo mánuði frá þeim degi er fósturlátið hafi átt sér stað.

Fósturlát kæranda hafi átt sér stað eftir 18 vikna og 5 daga meðgöngu þann Y. febrúar 2014 og því hafi réttur til fæðingarstyrks samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. ffl. fallið sjálfkrafa niður tveimur mánuðum síðar eða þann Y. apríl 2014. Réttur kæranda hafi því verið fallinn niður þegar sótt hafi verið um greiðslu fæðingarstyrks með umsókn, dags. 5. júní 2014.

Hvorki í ffl. né reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1218/2008, sé að finna heimild til að víkja frá framangreindu ákvæði vegna ástæðna eins og aldurs kæranda, yfirsjónar eða aðstæðna kæranda að öðru leyti.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Fæðingarorlofssjóðs á umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrk vegna fósturláts eftir 18 vikna og 5 daga meðgöngu. Synjun Fæðingarorlofssjóðs byggðist á því að réttur kæranda væri fallinn niður.

Í 20. gr. ffl. er kveðið á um rétt foreldra til greiðslu fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar og fósturláts. Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. kemur fram að sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eigi foreldrar sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í allt að tvo mánuði frá þeim degi er fósturlátið eigi sér stað.

Í lögunum er fjallað ítarlega um hvernig og hvenær ber að skila inn umsókn um fæðingarorlof þegar um er að ræða foreldra á vinnumarkaði, enda þarf að útbúa umsóknina í samráði við vinnuveitanda. Þegar um er að ræða umsókn um fæðingarstyrk er reglan sú samkvæmt 23. gr. laganna að foreldri skuli sækja um fæðingarstyrk þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

Ekki er í lögunum að finna nein sérákvæði varðandi umsóknarfresti þegar um er að ræða umsókn um fæðingarstyrk vegna andvanafæðingar og fósturláts.

Rökstuðningur Fæðingarorlofssjóðs byggist á því sjónarmiði að í öllu falli verði ekki sótt um fæðingarstyrk eftir að það tímabil er liðið sem styrkurinn er ætlaður fyrir. Þetta sjónarmið fær ekki stoð í lögunum og fæst raunar heldur ekki séð að gildandi reglugerð byggi á því eða veiti því stoð, enda er í reglugerðinni ekkert fjallað um umsóknarfresti við þessa aðstöðu, frekar en í lögunum.

Í ljósi framangreinds fæst ekki séð að Fæðingarorlofssjóði sé stætt á því að líta á umsóknir um fæðingarstyrk vegna andvanafæðingar og fósturláts sem of seint fram komnar ef þær berast innan hins almenna frests, þ.e. þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag.

Fósturlát kæranda var Y. febrúar 2014 eftir 18 vikna og 5 daga meðgöngu samkvæmt gögnum málsins. Miðað við 40 vikna meðgöngu var því áætlaður fæðingardagur barns um miðjan júlí 2014.

 

Umsókn kæranda barst sjóðnum 5. júní 2014, meira en þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Ekki er annað fram komið en að kærandi uppfylli að öllu öðru leyti skilyrði þess að fá greiddan fæðingarstyrk. Í ljósi ofangreinds verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Fæðingarorlofssjóð að greiða fæðingarstyrk á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Fallist er á umsókn A um greiðslu fæðingarstyrks vegna fósturláts

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta