Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 17/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 21. október 2014 var tekið fyrir mál nr. 17/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 18. ágúst 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 19. júní 2014, þar sem umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna var synjað.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi var búsett í B landi frá ágúst 2012 til janúar 2014. Er ágreiningslaust að þar hafi hún lagt stund á meistaranám við Háskóla Íslands frá ágúst 2012 til janúar 2013. Í janúar 2013 hóf hún störf í B landi í 50% starfshlutfalli og var auk þess í fjarnámi frá Háskóla Íslands. Frá ágúst 2013 til janúar 2014 var kærandi í 100% starfshlutfalli og tók sér hlé frá náminu á haustönn 2013. Kærandi byrjaði svo aftur í náminu í janúar 2014 og lauk 30 ECTS-einingum á vorönn 2014.

Með umsókn, dags. 15. maí 2014, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hennar þann 12. júní 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. júní 2014, á þeim forsendum að hún hafi ekki verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns og ekki á innlendum vinnumarkaði í desember 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru, dags. 18. ágúst 2014. Með bréfi, dags. 4. september 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 11. september 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. september 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst telja sig uppfylla skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna.

Kærandi vísar til 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), þar sem fram komi að vinna innan aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins skuli vera metin ef sérstök skilyrði séu uppfyllt. Með vísan til 13. gr. laganna verði ekki annað séð en að Fæðingarorlofssjóður eigi að taka tillit til vinnu sem unnin sé í þeim ríkjum sem eru aðilar að EES-samningnum þegar veittur sé fæðingarstyrkur námsmanna líkt og á við um greiðslu fæðingarorlofs.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið hinn Y. júní 2014 og verði því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. júní 2013 fram að fæðingardegi barnsins. Í vottorði Háskóla Íslands, dags. 12. júní 2014, sé staðfest að kærandi hafi lokið 30 ECTS-einingum á vormisseri 2014. Af námsferilsyfirliti frá sama skóla, dags. 12. maí 2014, verði ekki séð að kærandi hafi stundað frekara nám við skólann á umræddu tólf mánaða tímabili og það sé staðfest í kæru kæranda.

 100% nám og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda líti sjóðurinn svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í 11. mgr. 19. gr. ffl. sé kveðið á um undanþágu þess efnis að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. ffl. sé heimilt að taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 3. mgr. 19. gr. Ákvæðið heimili hins vegar ekki að tekið sé tillit til starfstímabila utan innlends vinnumarkaðar við mat á því hvort skilyrði 11. mgr. 19. gr. ffl. sé uppfyllt.  

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að ákvæði 12. mgr. 13. gr. ffl. sem kærandi vísi til eigi ekki við um aðstæður kæranda. Það taki til aðstæðna þegar foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. og þá skuli sjóðurinn, að því marki sem nauðsynlegt sé, taka tillit til starfstímabila í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæðið taki því til aðstæðna foreldra sem séu á innlendum vinnumarkaði við fæðingu barns en ekki til aðstæðna foreldra í námi. Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Fæðingarorlofssjóðs á umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl. segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda fæddist Y. júní 2014. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því frá Y. júní 2013 fram að fæðingu barnsins. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir framangreint skilyrði um fullt nám á vorönn 2014 og að hún stundaði ekki nám á haustönn 2013. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 11. mgr. 19. gr. ffl. er kveðið á um undanþágu þess efnis að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Óumdeilt er að kærandi var ekki á innlendum vinnumarkaði á framangreindu viðmiðunartímabili. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort starfstímabil kæranda í B landi veiti henni rétt til greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli 19. gr. ffl. Með vísan til þess að ákvæði 11. mgr. 19. gr. ffl. er undanþáguákvæði sem ber að skýra þröng samkvæmt almennum lögskýringarreglum verður það ekki túlkað á annan hátt en þann að það veiti eingöngu þeim er hafa starfað á innlendum vinnumarkaði, fram til þess að námið hófst, undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Af þeim sökum er ekki unnt að beita ákvæði 11. mgr. 19. gr. ffl. í máli kæranda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur nefndin óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. júní 2014, um synjun á umsókn A er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta