Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 20/2007

Miðvikudaginn, 5. september 2007

 

A

 

gegn

 

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

 

Þann 22. maí 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 22. maí 2007.

 

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 14. maí 2007 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Ég kæri það að við útreikning á rétti mínum til fæðingarorlofs er miðað við tekjur sem ég hafði þegar ég var að vinna milli anna í skólanum sem nemi á nemalaunum. Það gefur auga leið að ég var með lægri laun sem nemi en þegar ég er útskrifaður sem sveinn í D.

Ég hef ekki enn fengið þessa útreikninga í hendur en skv. símtali við B hjá Fæðingarorlofssjóði þá mun ég fá X krónur í fæðingarorlof á mánuði í þann tíma sem ég fer í fæðingarorlof en ég hef mun hærri laun í dag sem D. Ég fæ þessa útreikninga ekki í hendur fyrr en barnið er fætt og finnst mér of seint að fara að kæra þá. Ég get ekki séð að ég geti staðið við mínar fjárskuldbindingar á þessum launum þar sem ég var að kaupa mér íbúð og þarf að greiða af henni, ásamt ýmsu öðru. Ég gerði ákveðna greiðsluáætlun sem er miðuð við laun mín eftir að ég er búin að læra.

Mér finnst að við útreikning fæðingarorlofs míns eigi að miða við þau laun sem ég hef sem lærður D en ekki að miða þau að hluta til við það þegar ég var á nemalaunum. Skv. útreikningi Fæðingarorlofssjóðs er miðað við tekjur sem ég hafði árin 2005 og 2006 og ég fæ ekki mín sveinslaun fyrr en í júní 2006. Sýnist mér að það sé þá hálft ár sem miðað er við þau laun sem ég hef í dag en 1 og 1/2 ár sem ég er á nemalaunum. Samkvæmt framtali er ég með í tekjur árið 2006 X krónur en X krónur árið 2005 og sést strax þar að laun mín eru umtalsvert hærri eftir að ég lýk mínu námi

Ég hef þurft að vinna sem nemi lengur en áætlað var vegna þess, að E-skóli hefur ekki staðið sig í að bjóða upp á samfellt nám í minni grein og þykir mér hart að þurfa að fara á nemalaun eina ferðina enn.

Ég lenti í miklum hremmingum í mínu námi þegar grunnnámi í D-greinum lauk. Þær greinar (lotur) sem ég þurfti að taka voru ekki kenndar og seinkaði því útskrift minni mikið eins og ég segi frá hér á eftir.

Ég byrja í E-skóla á vorönn 2002 og hélt áfram á haustönn 2002 og kláraði grunnnám bíliðna í desember 2002.

Þegar ég ætla að halda áfram á vorönn 2003 í D þá er það ekki kennt

Ekki er heldur kennt á haustönn 2003. Loksins á vorönn 2004 kemst ég áfram í eina önn. Á haustönn 2004 verð að taka frí strax aftur vegna þess að greinarnar eru ekki kenndar.

Á vorönn 2005 kemst ég aftur í skólann. Þá er það aftur á haustönn 2005 sem ég tek eitt fríið enn vegna þess að mínar greinar eru ekki kenndar. Á vorönn 2006 get ég loksins klárað mitt nám.

Það tók mig 10 annir að klára skóla sem átti að taka mig 5 annir og allan þennan tíma er ég á nemalaunum sem eru mun lægri laun en ég hef fengið eftir að ég klára námið. Ef skólinn hefði boðið upp á samfellt nám þá hefði ég klárað mitt nám vorið 2004 en ekki vorið 2006.

Það skal tekið fram að ég gat ekki farið í neinn annan skóla þar sem D er bara kennd í E-skóla.

 

Með bréfi, dagsettu 7. júní 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 21. júní 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 20. apríl 2007, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 24. júní 2007.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 19. mars 2007, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 20. apríl 2007, launaseðlar fyrir febrúar og mars 2007 frá F. Námsferilsyfirlit frá E-skóla, dags. 11. apríl 2007 og yfirlýsing frá E-skóla um námsfyrirkomulag, dags. 11. apríl 2007. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 14. maí 2007, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hans yrði X krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Þar sem kærandi óskaði eftir að greiðslur til hans hæfust við fæðingu barns var ekki unnt að senda greiðsluáætlun á hann fyrr en barnið væri fætt.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda er 24. júní 2007 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans fyrir þá mánuði á árunum 2005 og 2006 sem kærandi var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt ffl. er ekki miðað við að foreldri sé í meira en 100% starfi eða meira en fullu námi, sbr. 6. mgr. 13. gr. ffl. og 1. mgr. 18. gr. rgl. nr. 1056/2004, sbr. og úrskurður úrskurðarnefndarinnar nr. 48/2005. Á árunum 2005 og 2006 var kærandi að hluta til í hlutastarfi með fullu námi og skal því ekki taka þá mánuði, sem kærandi var í fullu námi og vinnu, með við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á árunum 2005 og 2006. Í janúar – maí 2005 var kærandi í fullu námi ásamt því að vinna með náminu skal því undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í janúar – maí 2006 var kærandi í fullu námi ásamt því að vinna með náminu og skal því einnig undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Frá júní – desember 2005 og júní – desember 2006 var kærandi starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og skal því hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna hans skv. 2. mgr. 13. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga 90/2004. 

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að áðurnefnt bréf til kæranda, dags. 14. maí 2007, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði..“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 6. júlí 2007 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt 3. málslið 2. mgr. 13. gr. ffl. skal einungis miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 24. júní 2007. Viðmiðunartímabil meðaltals heildarlauna eru samkvæmt því árin 2005 og 2006, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Á framangreindu viðmiðunartímabili var kærandi í fullu námi á vorönn 2005 og vorönn 2006 við E-skóla ásamt því að starfa á vinnumarkaði. Samkvæmt ffl. er ekki miðað við að foreldri sé í meira en 100% starfi eða meira en fullu námi, sbr. 6. mgr. 13. gr. ffl. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Í ljósi þess og með vísan til þess sem að framan greinir telur úrskurðarnefndin að líta skuli framhjá því að kærandi hafi verið í hlutastarfi samhliða fullu námi sínu. Aðra mánuði áranna 2005 og 2006, þ.e. mánuðina júní til desember bæði árin, var kærandi í starfi á vinnumarkaði og skal því við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi leggja laun hans þá mánuði til grundvallar, sbr. 3. málsliður 2. mgr. 13. gr. ffl. Ákvæði ffl. heimila ekki frávik í því efni.

Með hliðsjón af framangreindu er útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði staðfestur

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta