Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 495/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 495/2023

Þriðjudaginn 19. desember 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. október 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. september 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið febrúar til maí 2023.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu janúar til maí 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. september 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir tímabilið febrúar til maí 2023. Honum bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 431.196 kr., að meðtöldu 15% álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. október 2023. Með bréfi, dags. 19. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 3. nóvember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. nóvember 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. nóvember 2023 og voru þær kynntar Fæðingarorlofssjóði með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. nóvember 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærð sé ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs frá 25. september 2023 um endurgreiðslu á meintri ofgreiðslu úr sjóðnum. Til vara fari kærandi fram á niðurfellingu 15% álags.

Þegar kærandi hafi sótt um fæðingarorlof hafi hann bent Fæðingarorlofssjóði á að á viðmiðunartímanum hafi hann verið með óvenju lág laun miðað við það sem hann hafi áður haft og myndi án efa fá aftur eftir Covid. Þessu til staðfestingar hafi kærandi sent launaseðla og skattframtöl fyrir og eftir Covid, sbr. meðfylgjandi skjöl. Fyrirtækið sem kærandi hafi unnið hjá hafi þurft að lækka laun hans á Covid tímanum. Þá hafi hann farið í úrræði sem ríkið hafi boðið upp á um skert starfshlutfall og því verið með óvenju lág laun á viðmiðunartímanum. Að lokum hafi kæranda þó verið sagt upp vegna Covid ástandsins og hann hafi þurft að vinna tímabundið sjálfstætt. Kærandi hafi stofnað sitt eigið fyrirtæki en verið launalaus í nokkra mánuði á meðan hann hafi komið því á koppinn. Kærandi hafi ekki farið á atvinnuleysisbætur þar sem hann hafi verið að vinna í því að stofna sitt eigið fyrirtæki en samt fengið staðfestingu frá Vinnumálastofnun um að hann hefði átt rétt á bótum á tímabilinu. Sú upphæð hafi verið notuð til að reikna út viðmiðunartímabilið og kærandi ítrekað bent á að þetta hafi verið óeðlileg upphæð miðað við tímabilin áður og þau laun sem hann myndi hafa í framtíðinni. Um leið og hlutirnir hafi aftur farið í eðlilegt horf eftir faraldurinn hafi kærandi verið ráðinn aftur í gamla starfið sitt hjá sama fyrirtæki og þar af leiðandi hækkað aftur upp í eðlileg laun.

Kærandi hafi látið vita þegar hann hafi sótt um fæðingarorlof að laun hans á viðmiðunartímabilinu hefðu verið mjög lág og ekki þau laun sem hann yrði síðar með. Þegar hann hafi verið ráðinn aftur inn í gamla starfið sitt hafi hann aftur haft samband og látið vita hvaða laun hann yrði með því að hann hafi þurfti að breyta fæðingarorlofstímabilinu. Í öll skiptin hafi kæranda verið tjáð að upplýsingar hefðu verið mótteknar, ekkert vesen og að hann þyrfti ekki að hafa meiri áhyggjur af þessu. Aldrei í samskiptum kæranda við Fæðingarorlofsjóð hafi honum verið sagt eða hann upplýstur um að með því að fara í 50% fæðingarorlof í hærra launuðu starfi gæti hann verið rukkaður um endurgreiðslu frá sjóðnum. 

Vegna þess hversu erfitt sé að fá leikskólapláss og komast inn hjá dagforeldri í dag hafi þau hjónin þurft að brúa bilið með því að taka 50% fæðingarorlof til skiptist og lengja þannig tímann sem þau hafi getað verið heima með barninu. Hefði kærandi ekki þurft að taka 50% fæðingarorlof á móti vinnunni hefði þetta ekki verið vandamál. Þetta þýði að verið sé að mismuna foreldrum sem ekki fái leikskólapláss/dagforeldrapláss.

Grundvöllur reglnanna um viðmiðunartímabil sé að koma í veg fyrir að fólk misnoti fæðingarorlofið og sé í raun að vinna í orlofinu og dreifa síðar greiðslum. Kærandi hafi sannarlega verið í 50% fæðingarorlofi með barni sínu og hafi upplýst Fæðingarorlofssjóð um allt tengt nýrri vinnu.

Í fæðingarorlofslögunum sé heimild til að taka tillit til launabreytinga. Kærandi telji að hann eigi að falla undir þá heimild með því að skoða launaseðla fyrir og eftir Covid og taka sem viðmiðunartímabil eðlilegt launatímabil en ekki skrýtið skert ástand í miðjum heimsfaraldri. Þetta hafi kærandi ítrekað bent á.

Kærandi bendi einnig á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7775/2013 hvað þetta varði. Þar sé um að ræða sambærilegt mál og mál kæranda þar sem aðili hafi látið vita af því að hann væri kominn í nýja betur launaða vinnu en hafi verið á viðmiðunartímabilinu og yrði í 50% vinnu á móti fæðingarorlofi. Umboðsmaður Alþingis hafi í því áliti hvatt til þess að málið yrði endurskoðað af Fæðingarorlofssjóði, í fyrsta lagi þar sem sjóðurinn hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni og í öðru lagi þar sem heimild væri til að taka tillit til launabreytinga.

Kærandi vonist því til að ákvörðun Fæðingarorlofssjóð verði endurskoðuð.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. nóvember 2023, kemur fram að kærandi geti ekki sent nein gögn til að sanna að sjóðurinn hafi brugðist upplýsingaskyldu sinni þar sem öll hans samskipti við sjóðinn hafi verið í gegnum síma. Kærandi hafi sérstaklega spurt að öllu þessu í símtölum og fengið þau svör að þetta væri í lagi og að hann ætti bara að senda tölvupóst með breytingu á fæðingarorlofi sem hann hafi gert. Fæðingarorlofssjóður hljóti að geta séð það hjá sér að hann hafi hringt og beðið um þessar upplýsingar. Kærandi spyrji hvort símtölin séu ekki hljóðrituð. Sé svo geti Fæðingarorlofssjóður sannreynt þetta en kærandi hafi auðvitað ekki aðgang að þeim gögnum.

Einnig geri kærandi athugasemd við að greinargerð Fæðingarorlofssjóðs hafi borist úrskurðarnefndinni degi eftir veittan frest. Þá óski kærandi enn og aftur eftir því að málið verði skoðað frekar.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir febrúar til maí 2023 þar sem hann hafi fengið of háar greiðslur frá sínum vinnuveitanda á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni sem hafi fæðst X.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. september 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir febrúar til og með maí 2023. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið. Skýringar ásamt launaseðlum hafi borist frá kæranda 4. september 2023. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 25. september 2023, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu á hluta af útborgaðri fjárhæð, ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og innsendum skýringum að kærandi hefði fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof og 2. mgr. 41. gr. laganna.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 144/2020 sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá komi fram í 7. og 8. málsl. sömu greinar að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr.

Með umsókn, dags. 23. nóvember 2021, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4,5 mánuði vegna barns sem hafi fæðst X. Tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, auk breytinga, hafi borist frá kæranda og hann verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun, dags. 30. nóvember 2022.

Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23 gr. laga nr. 144/2020 hafi viðmiðunarlaun hans verið 409.645 kr. sem tekið hafi verið mið af við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna, enda hafi þau lækkað í 402.048 kr. frá því að viðmiðunartímabilinu hafi lokið og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs kæranda, þ.e. á tímabilinu júlí 2021 til og með maí 2022. Þannig hafi verið kannað hvort viðmiðunarlaun kæranda hefðu tekið breytingum til hækkunar, kæranda til hagsbóta, við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu í samræmi við 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020. Á þessu tímabili hafi kærandi verið í launalausu leyfi tímabilið 1. desember 2021 til 12. janúar 2022 og því ekki unnt að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020, sbr. a-liður 2. mgr. 22. gr. laganna.

Tímabilið 1. til 28. febrúar 2023 hafi kærandi fengið greiddar 163.858 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 409.645 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 245.787 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir febrúar 2022 hafi kærandi þegið 390.954 kr. í laun. Í skýringum kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í febrúar 2023. Hann hafi því fengið 145.167 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir febrúar 2023 sé því 93.738 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 31. mars 2023 hafi kærandi fengið greiddar 163.858 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 409.645 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 245.787 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir mars 2023 hafi kærandi þegið 390.954 kr. í laun. Í skýringum kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í mars 2023. Hann hafi því fengið 145.167 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir mars 2023 sé því 93.738 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 30. apríl 2023 hafi kærandi fengið greiddar 163.858 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 409.645 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 245.787 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir apríl 2023 hafi kærandi þegið 390.954 kr. í laun. Í skýringum kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í apríl 2023. Hann hafi því fengið 145.167 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir apríl 2023 sé því 93.738 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 31. maí 2023 hafi kærandi fengið greiddar 163.858 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 409.645 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 245.787 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir maí 2023 hafi kærandi þegið 390.954 kr. í laun. Í skýringum kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í maí 2023. Hann hafi því fengið 145.167 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir maí 2023 sé því 93.738 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 41. gr. laga nr. 144/2020 sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd, að viðbættu 15% álagi, óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt skýringum kæranda sé um að ræða greiðslu launa fyrir vinnu í febrúar til og með maí 2023. Í samræmi við það sé ekki tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Í kæru geri kærandi athugasemd við mat Fæðingarorlofssjóðs á launahækkunum fram að upphafi fæðingarlofs hans. Samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 komi eins og áður segi skýrt fram með hvaða hætti og fyrir hvaða tímabil sé heimilt að taka tillit til breytinga á launum. Það hafi verið gert í máli þessu eins og að framan hafi verið rakið. Enga heimild sé að finna í lögunum til að framkvæma matið með öðrum hætti eða fyrir önnur tímabil en leiði af tilhögun fæðingarorlofs foreldris og ákvæðum laganna. 

Þá geri kærandi athugasemd við að Fæðingarorlofssjóður hafi brugðist leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af gögnum málsins verði hvorki séð að Fæðingarorlofssjóði hafi borist upplýsingar frá kæranda varðandi breytingu á launum þegar tilkynnt hafi verið um tímabil fæðingarorlofs með dreifðum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði né í kjölfar greiðsluáætlunar, dags. 30. nóvember 2022. Í greiðsluáætluninni sé þó vakin sérstök athygli á mikilvægi þess að tilkynna um breytingar sem kunni að verða á t.d. tekjum og geti haft áhrif á rétt til greiðslna og/eða leitt til ofgreiðslna.

Loks vísi kærandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7775/2013. Frá því að álitið hafi verið kveðið upp hafi verið sett ný heildarlög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, en álitið hafi fallið í tíð eldri laga, nr. 95/2000. Með nýju lögunum hafi meðal annars verið brugðist við framangreindu áliti eins og fram komi í athugasemdum við 25. gr. frumvarps þess er hafi orðið að lögum nr. 144/2020. Þannig sé nú skýrt kveðið á um það í 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna að heimilt sé að taka tillit til tiltekinna breytinga sem verði frá því að viðmiðunartímabili 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris og að taka skuli tillit til breytinganna með sama hætti og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 en samkvæmt því ákvæði skuli meðal annars miða við almanaksmánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna sem hafi verið gert í máli þessu.    

Því liggi það fyrir að kærandi hafi fengið greitt frá vinnuveitanda fyrir sama tímabil og greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði eigi við um. Þar sem greiðslur frá vinnuveitanda hafi verið hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.–3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli þær koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt skýrum fyrirmælum í 25. gr. laganna og athugasemdum við þá grein.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 374.953 kr. útborgað að viðbættu 15% álagi, 56.243 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 431.196 kr., sbr. greiðsluáskorun til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 25. september 2023.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið febrúar til maí 2023.

Í 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um viðmiðunartímabil og útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 er réttur foreldris sem er starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá kemur fram í 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 að þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. Foreldri skuli sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launabreytingar samkvæmt 7. málsl. séu byggðar og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4,5 mánuð vegna barns síns sem fæddist X. Kærandi var afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs frá 24. nóvember 2022 eða 100% fæðingarorlof í janúar 2023 og 50% á tímabilinu febrúar til maí 2023. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi þegar tekið 1,5 mánuð í fæðingarorlof á árinu 2022. Í greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. nóvember 2022 kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili, frá júlí 2020 til og með júní 2021, hafi verið 409.645 kr. og áætluð greiðslufjárhæð miðað við 80% af meðaltali heildarlauna væri því 327.716 kr. miðað við 100% fæðingarorlof. Frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að upphafi fæðingarorlofs höfðu viðmiðunarlaun kæranda lækkað í 402.048 kr. en miðað var við hærri fjárhæðina við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu. Á tímabilinu febrúar til maí 2023 fékk kærandi greiddar 163.858 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og var á þeim tíma einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hans og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, án þess að greiðslur frá vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, eða samtals 245.787 kr. Samhliða fæðingarorlofsgreiðslum fyrir þetta tímabil var kærandi í 50% starfi og fékk greiddar 390.954 kr. á mánuði fyrir það starf, eða 145.167 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu.

Kærandi hefur greint frá ástæðu þess að laun hans á árinu 2023 hafi verið hærri en á viðmiðunartímabili og að hann hafi látið Fæðingarorlofssjóð vita af því, bæði þegar hann hafi sótt um fæðingarorlof og síðar þegar hann hafi breytt fæðingarorlofstímabilinu. Það hafi hann gert með símtölum til sjóðsins. Þá hefur kærandi gert athugasemd við skort á upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði varðandi mögulega ofgreiðslu úr sjóðnum færi hann í 50% fæðingarorlof í hærra launuðu starfi.

Fæðingarorlofssjóður hefur vísað til þess að hvorki hafi borist upplýsingar frá kæranda varðandi breytingu á launum þegar tilkynnt hafi verið um tímabil fæðingarorlofs með dreifðum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði né í kjölfar greiðsluáætlunar, dags. 30. nóvember 2022. Í greiðsluáætluninni sé þó vakin sérstök athygli á mikilvægi þess að tilkynna um breytingar sem kunni að verða á t.d. tekjum og geti haft áhrif á rétt til greiðslna og/eða leitt til ofgreiðslna.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála gefa gögn málsins ekki til kynna að kæranda hafi ekki verið leiðbeint með fullnægjandi hætti en samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði eru símtöl ekki hljóðrituð.

Í 41. gr. laga nr. 144/2020 er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að kærandi fékk ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið febrúar til maí 2023 þar sem hann fékk of háar greiðslur frá vinnuveitanda samhliða greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. það sem að framan er rakið. Fjárhæð endurgreiðslukröfu á hendur kæranda nemur 431.196 kr., að meðtöldu 15% álagi, en ákvæði 41. gr. laga nr. 144/2020 er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysis foreldris. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 41. gr. laganna skal fella niður álagið sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem slík gögn hafa ekki verið lögð fram er ekki fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. september 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið febrúar til maí 2023 því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. september 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið febrúar til maí 2023, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta