Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 34/2007

Fimmtudaginn, 18. október 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. júlí 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 25. júlí 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 12. júlí 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Með bréfi dags. 12. júlí var umsækjanda hafnað um afgreiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Vísað er til l. mgr. 19.gr. 1. nr. 95/2000 og l. mgr. 18.gr. rgl. nr. 1056/2004 þar sem fram kemur að skilyrði séu að viðkomandi hafi stundað 75-100% nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum.

Umsækjandi eignaðist barn 16. júní 2007. Hann var skráður í 15. ein. á haustönn 2006 í meistaranámi við B-háskóla. Vegna sjúkrahúsvistar lauk hann þó aðeins við 9. ein. Á vorönn 2007 var hann skráður í 18. ein. og lauk þeim öllum.

Orðalag reglugerðar og laganna er skýrt. Þar kemur fram að ljúka þurfi a.m.k. 75% námi í a.m.k. 6 á síðastliðnu 12 mánaða tímabili. Ef litið er yfir síðastliðið 12 mánaða tímabil (frá 17. júní 2006-16. júní 2007) reiknast umsækjandi hafa lokið 27 af 30 ein sem telst vera 90% nám. Ef litið er á síðastliðna 6 mánuði, (frá 16. des 2006-16. júní 2007) hefur umsækjandi lokið 18. ein. sem telst vera 120% nám.

Með símtali upplýsir fæðingarorlofssjóður að þeir túlki lögin á þann veg að miðað sé við a.m.k. 75% nám á hverri önn. Slík túlkun er ekki í samræmi við skýran texta laganna og reglugerðarinnar og er til þess fallinn að valda misskilningi og ósanngirni. Ef fæðingarorlofssjóður hefði í það minnsta sett þessa túlkun sína fram á heimasíðu sinni væri það a.m.k. til þess fallið að minnka þann misskilningi sem þessi túlkun veldur.

Foreldrar eiga ekki að þurfa að lenda í því að opinberar stofnanir túlki lögin andstætt því sem lagatexti og reglur kveða á um. Ef um óskýran texta er að ræða á að túlka það neytanda í hag, sérstaklega með hliðsjón af möguleikum sjóðsins til þess að gera grein fyrir þessari túlkun sinni heimasíðu sinni.

Ef litið er til úrskurða þar sem reglurnar hafa verið túlkaðar foreldrum í hag á sambærilegan hátt má benda á úrskurði Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála nr. 27/2006 og 36/2006.

Ef ekki verður fallist á að nota eigi skýrt orðalag textanna er þess óskað að 19. gr. rgl nr. 1056/2004 verði túlkuð vítt eða lögjafnað á þann veg að veikindi föður á haustönn verði látin vinna upp á móti þeim 2 ein. sem vantar á vorönninni til að uppfylla skilyrði um 75% nám. Nefna má í því sambandi úrskurð nr. 2/2006 þar sem veikindi móður voru virt föður til hagsbóta við útreikning á námi.“

 

Með bréfi, dagsettu 7. september 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 2. október 2007. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. júlí 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Jafnframt var kæranda bent á að hann ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist 16. júní 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 16. júní 2006 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsyfirliti frá B-háskóla, ódagsett, stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2006 og vorönn 2007. Var kærandi skráður í 9 einingar á haustönn 2006 og lauk þeim öllum eða 60% nám. Haustönn stendur frá september – desember eða í fjóra mánuði. Á vorönn var kærandi skráður í 18 einingar og lauk þeim öllum. Vorönn stendur yfir í fimm mánuði eða frá janúar – maí.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11 – 15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Engin undanþága er í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, og reglugerð er fylgir lögunum til að víkja frá framangreindum skilyrðum í þeim tilvikum er feður veikjast og þurfa að segja sig frá námi. Ekki er að finna neina undanþágu þess efnis að hægt sé að leggja saman meðaltal tveggja anna við mat á fullu námi.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 12. júlí 2007 en að kærandi eigi þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 4. október 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 16. júní 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. sbr. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er því frá 16. júní 2006 fram að fæðingu barns.

Hjá B-háskóla er almennt miðað við að 100% nám sé 15 eininga nám á misseri. Fullt nám samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. telst því vera 11-15 eininga nám á misseri sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt ódagsettu yfirliti um námsferil kæranda við skólann lauk kærandi 9 einingum á haustmisseri 2006 og 18 einingum á vormisseri 2007. Kærandi lauk ekki fullu námi á haustmisseri 2006 en lauk fullu námi á vormisseri 2007. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Engin ákvæði eru í ffl. eða reglugerð nr. 1056/2004 sem heimila undantekningu frá því skilyrði vegna veikinda föður eða heimila samlagningu eininga á tveimur misserum.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta