Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 36/2010

Miðvikudaginn 1. desember 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 8. september 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 7. september 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. júlí 2010, um að samþykkja greiða honum fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með bréfi, dags. 20. september 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 23. september 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. september 2010, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Niðurstaða.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Í 1. mgr. 6. gr. ffl. segir að kæra skuli berast skriflega innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Í 4. mgr. 6. gr. ffl. segir að öðru leyti en því sem fram kemur í lögum um fæðingar- og foreldraorlof um málsmeðferð skuli fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.

Í 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) er kveðið á um að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. ssl. er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Þá segir í 2. mgr. 26. gr. ssl. að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Kæran barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hinn 8. september 2010. Í henni kemur fram að kærandi kærir þá ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs að hann fái einungis lágmarksgreiðslur úr sjóðnum. Af kærunni má þannig ráða að kærandi vilji kæra niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs um að hann eigi ekki rétt til hærri greiðslna úr sjóðnum en sem nemi fæðingarstyrk foreldris utan vinnumarkaðar, þ.e. að hann eigi ekki rétt til greiðslna sem foreldri á vinnumarkaði eða í námi.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. ffl., sbr. 3. gr. laga nr. 155/2006, skal foreldri sækja skriflega um greiðslur í fæðingarorlofi sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, á þar til gerðu eyðublaði. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 23. gr. ffl. skal foreldri sækja skriflega um fæðingarstyrk þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

Af gögnum málsins og greinargerð Fæðingarorlofssjóðs má ráða að kærandi hefur ekki sótt um greiðslur í fæðingarorlofi, sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. ffl. Á hinn bóginn sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar, sbr. 1. og 2. mgr. 23. gr. ffl. með umsókn, dags. 16. júní 2010, og var umsókn hans samþykkt með fyrrnefndu bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. júlí 2010.

Með hliðsjón af því að kærandi hefur ekki sótt um greiðslur í fæðingarorlofi til Fæðingarorlofssjóðs verður ekki hjá því komist að vísa kæru hans frá þar sem ekki verður séð að fyrir liggi kæranleg ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um það efni sem kæran virðist lúta að. Komi upp ágreiningur þegar fyrir liggur ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um rétt kæranda á grundvelli ffl. er sú ákvörðun kæranleg til nefndarinnar.

Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verður að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta