Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 89/2003

Þriðjudaginn, 13. maí 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 5. nóvember 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 3. nóvember 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku á umsókn um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 10. september 2003, var kæranda tilkynnt um synjun á endurupptöku á umsókn um greiðslur í fæðingarorlofi.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Í október 2002 var umsókn minni um fæðingarorlof hafnað með þeim rökum að þar sem B greiddi laun mín fyrir hönd D hf þá væri ekki hægt að líta svo á að ég hefði starfað á innlendum vinnumarkaði.

Óskaði ég í september 2003 um að umsókn mín um fæðingarorlof yrði tekin upp á ný þar sem í öðru máli nr. 48/2002 fellst úrskurðarnefndin á greiðslur frá B sem laun greidd á innlendum vinnumarkaði. Umsókn minni um endurupptöku var hafnað.

Það er ljóst að ekki er lengur grundvöllur til að hafna umsókn minni um fæðingarorlof með þeim rökum sem gert var í október 2002 sbr. úrskurð í máli nr. 48/2002.

Krefst ég þess að umsókn mín um fæðingarorlof verði tekin til efnislegrar meðferðar á ný.“

Með bréfi, dags. 8. janúar 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

   

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 19. janúar 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurupptaka mál kæranda sem var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með ákvörðun dags. 24. október 2002.

Um skilyrði fyrir endurupptöku máls segir í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.):

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggt á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Í 10. gr. stjórnsýslulaga segir varðandi hina s.k. rannsóknarreglu:

„Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“

Með beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram úrskurð Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 48/2002, en það mál taldi hann sambærilegt máli sínu. Í þessum úrskurði er fjallað um rétt flugmanns er þáði launagreiðslur frá fyrirtæki utan EES til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Í úrskurðinum segir m.a.:

„Þegar meta skal hvað skuli telja til samfellds starfs og launa kæranda samkvæmt 1. og 2. mgr. 13. gr. ffl., verður m.a. að líta til 6. og 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald (tgl.) Kærandi fær laun frá erlendu félagi, B, vegna starfa sinna sem flugmaður á íslenskri flugvél í eigu flugfélagsins D. Vegna þeirra greiðslna reiknar hann sér endurgjald sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og greiðir af því endurgjaldi tryggingagjald með samþykki skattyfirvalda. Með hliðsjón af því skal taka til greina starfstíma hans sem flugmanns hjá D þegar metið er hvort hann uppfylli það skilyrði að hafa verið sex mánuði samfellt á vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.“

Þegar fram kom ósk kæranda um endurupptöku máls hans var lagt á það mat hvort ákvörðun hefði byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. ssl. Svo var ekki talið vera þar sem atvik í máli kæranda voru ljós er ákvörðun var tekin og hafði hann hvorki dregið það í efa né lagt fram frekari gögn um málsatvik. Var þá athugað hvort uppfyllt væru skilyrði 2. tl. 1. mgr. 24. gr. ssl. Lífeyristryggingasvið telur ekki að ákvörðun um greiðslurétt vegna barnsfæðingar feli í sér íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann í skilningi ákvæðisins. Engu að síður var ákveðið að skoða ofangreindan úrskurð í kærumáli nr. 48/2002 og þau gögn er að baki honum lágu til að ganga úr skugga um hvort hann gæfi tilefni til endurskoðunar á niðurstöðu í máli kæranda. 

Eins og fram kemur í niðurstöðu kærumáls nr. 48/2002 hafði aðili þess máls reiknað sér endurgjald sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og gefið tekjur sínar frá B upp til skatts með þeim hætti hér á landi. Kærandi í því máli sem hér er til umfjöllunar greiddi tryggingagjald af tekjum hér á landi en á skattframtali hans fyrir tekjuárið 2002 eru gefnar upp launatekjur, dagpeningar og fleiri tekjur en ekkert reiknað endurgjald af eigin atvinnurekstri. 

Því verður ekki séð að um sambærileg tilvik sé að ræða í málunum tveimur og ekki grundvöllur fyrir endurupptöku máls kæranda á þeirri forsendu.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. janúar 2004 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 8. febrúar 2004. Þar segir m.a.

„Aðalaðriðið í þessu máli er að ég stóð skil á öllum mínum gjöldum en var synjað um fæðingarorlof á þeirri forsendu að ég hefði fengið laun mín greidd í gegnum B. Í máli 48/2002 úrskurðaði úrskurðarnefndin að greiðslur frá B skuli teknar gildar. Að halda því fram að mál mitt og mál nr. 48/2002 séu ekki sambærileg á þeirri forsendu að annar okkar gaf upp sínar tekjur sem laun og dagpeninga en hinn reiknaði sér endurgjald af eigin atvinnustarfsemi er hreinn og beinn útúrsnúningur. Við stóðum báðir skil á því sem okkur bar þótt við færum kannski ekki eins að því og var synjun Tryggingastofnunar á sínum tíma ekki byggð á því hvernig ég stóð skil á mínum gjöldum.“

    

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku máls hjá stofnuninni. 

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkur m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Kærandi málsins hafði kært niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins á sínum tíma til úrskurðarnefndarinnar með bréfi sem móttekið var 10. febrúar 2003. Málinu var vísað frá nefndinni með úrskurði 20. maí 2003, þar sem kæran var of seint fram komin.

Þann 29. apríl 2003 úrskurðaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 48/2002 þar sem kærandi hafði fengið laun frá B, en það fyrirtæki hafði ekki aðsetur á Íslandi. Viðkomandi starfaði sem flugmaður á íslenskri flugvél í eigu flugfélagsins D en fékk laun frá framangreindu fyrirtæki. Tryggingagjald var greitt af laununum á Íslandi með samþykki skattyfirvalda. Niðurstaða málsins var sú að reikna ætti starfstíma kæranda hjá fyrirtækinu, þegar metið yrði hvort viðkomandi uppfyllti það skilyrði að hafa verið sex mánuði samfellt á vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Með vísan til úrskurðarins fer kærandi máls þessa fram á að mál hans verði endurupptekið. 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins dags. 19. janúar 2003 (á að vera 2004) er tekið á beiðni kæranda um endurupptökuna. Tryggingastofnun ríkisins hafnar endurupptöku en segir síðan orðrétt: „Eins og fram kemur í niðurstöðu kærumáls nr. 48/2002 hafði aðili þess máls reiknað sér endurgjald sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og gefið tekjur sínar frá B upp til skatts með þeim hætti hér á landi. Kærandi í því máli sem hér er til umfjöllunar greiddi tryggingagjald af tekjum hér á landi en á skattframtali hans fyrir tekjuárið 2002 eru gefnar upp launatekjur, dagpeningar og fleiri tekjur en ekkert reiknað endurgjald af eigin atvinnurekstri.

Því verður ekki séð að um sambærileg tilvik sé að ræða í málunum tveimur og ekki grundvöllur fyrir endurupptöku máls kæranda á þeirri forsendu.“

Kærandi starfaði sem flugmaður á íslenskri flugvél í eigu flugfélagsins D. Vegna starfans komu greiðslur frá B. Samkvæmt skattframtali kæranda eru greiðslur taldar fram sem laun, og var greitt tryggingagjald af þeim launum. Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála leiðir önnur aðferð við framtalsgerð ekki til þess að mál kæranda sé ekki sambærilegt við mál nr. 48/2002. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku á þeim grundvelli er því hafnað. Með hliðsjón af því og á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) telur nefndin ekki forsendur til annars en að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóðnum til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. ffl.

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri þurfi að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. 

Barn kæranda er fætt 11. september 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 11. mars 2002 til fæðingardags barns. 

Þegar meta skal hvað skuli telja til samfellds starfs og launa kæranda samkvæmt 1. og 2. mgr. 13. gr. ffl., verður m.a. að líta til 6. og 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald (tgl.) 

Kærandi fær laun sem tryggingagjald er greitt af, vegna starfa sinna sem flugmaður á íslenskri flugvél í eigu flugfélagsins D. Með hliðsjón af því skal taka til greina starfstíma hans sem flugmanns hjá D þegar metið er hvort hann uppfylli það skilyrði að hafa verið sex mánuði samfellt á vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. 

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum uppfyllir hann því skilyrði um sex mánaða samfellt starf fyrir upphaf fæðingarorlofs. 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku máls er því hafnað. Greiða ber kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um endurupptöku máls er hafnað. Greiða ber kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta