Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 41/2010

Fimmtudaginn 6. janúar 2011

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 3. desember 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 30. nóvember 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. september 2010, um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi, dags. 3. desember 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 13. desember 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 15. desember 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um fæðingarstyrk sem námsmaður í haust þar sem hún hafi átt von á sínu öðru barni í lok september. Umsókn hennar hafi verið synjað á þeim forsendum að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám síðustu tólf mánuði fyrir fæðingu barnsins. Kærandi greinir frá því að samkvæmt upplýsingum sem hún hafi fengið frá Fæðingarorlofssjóði teljist 22 ECTS einingar á önn vera fullt nám. Hún hafi lokið 20 ECTS einingum á haustönn 2009 og 23 ECTS einingum á vorönn 2010.

Kærandi kveðst hafa sótt um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar eftir að hafa fengið synjun um fæðingarstyrk sem námsmaður. Henni hafi á hinn bóginn einnig verið synjað um þann styrk þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um að hafa verið með skráð lögheimili á Íslandi síðustu tólf mánuði fyrir fæðingu barnsins, þar sem hún væri búsett í X og í fjarnámi frá E-háskóla. Jafnframt hafi henni verið bent á að ef hún myndi sækja um sem námsmaður væri veitt undanþága frá lögheimilisskilyrðinu.

Kærandi telur að þetta sé óviðunandi og fer fram á að fá annaðhvort fæðingarstyrk sem námsmaður eða sem foreldri utan vinnumarkaðar. Hvað varðar fyrra atriðið krefst hún að litið verði fram hjá því að það vanti tvær einingar. Í því samhengi bendir hún á að þetta hafi verið á tíma þar sem ekki hafi verið vitað um þungunina og hún hefði bætt við sig einingum til að ná tilskildum fjölda eininga ef hún hefði vitað af henni. Þar sem ekki megi miða við meðaltal eininga tveggja anna hafi hún ekki heldur getað bætt einingarnar upp með meira námi á vorönn. Að lokum greinir kærandi jafnframt frá því að hún eigi ekki rétt á greiðslum frá yfirvöldum í X- landi.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 26. ágúst 2010, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 22. september 2010. Með umsókn kæranda hafi fylgt vottorð um áætlaðan fæðingardag, yfirlit um námsárangur frá E-háskóla og bréf frá E-háskóla, dags. 9. júní 2010. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá Íslands.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með bréfi, dags. 9. september 2010, hafi kæranda verið sent bréf þar sem henni var synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni þar sem hún hafi ekki uppfyllt almenna skilyrðið um fullt nám og einnig hafi henni verið synjað um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar þar sem hún hafi ekki uppfyllt ekki lögheimilisskilyrði laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.).

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Fæðingarorlofssjóður bendir á að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að barn kæranda sé fætt Y. september 2010 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins og sýnt viðunandi námsárangur, að horfa til tímabilsins frá Y. september 2009 fram að fæðingardegi barnsins.

Jafnframt bendir Fæðingarorlofssjóður á að samkvæmt yfirliti um námsárangur frá E-háskóla komi fram að kærandi hafi lokið 20 ECTS einingum á haustönn 2009 og á vorönn 2010 hafi kærandi lokið 23 ECTS einingum. Á staðfestingu frá E-háskóla, dags. 9. júní 2010, komi fram að kærandi sé skráð í leyfi skólaárið 2010–2011.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22–30 ECTS einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem liggi fyrir um námsframvindu kæranda lítur Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem hún hafi einungis staðist 20 ECTS einingar á haustönn 2009.

Þá vísar Fæðingarorlofssjóður til þess að í 18. gr. ffl. sé kveðið á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Í 2. málsl. 3. mgr. sé sett það skilyrði fyrir fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir þann tíma. Í 4. mgr. 18. gr. ffl. sé að finna undanþágu frá framangreindu tólf mánaða lögheimilisskilyrði en þar komi fram að hafi foreldri haft lögheimili hér á landi a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt sé, taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu þegar metið sé hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 3. mgr. enda hafi foreldri verið tryggt á sama tíma í því ríki og ekki hafi liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis hafi lokið. Foreldri skuli láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skv. 23. gr.

Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að þegar barn kæranda fæddist þann Y september 2010 hafi kærandi verið með lögheimili í X-landi. Þegar af þeim ástæðum uppfylli kærandi ekki tólf mánaða lögheimilisskilyrði 2. málsl. 3. mgr. 18. gr. ffl. og framangreind undanþága frá lögheimilisskilyrði eigi ekki við.

Með vísan til framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi og fæðingarstyrks til foreldris utan vinnumarkaðar með bréfi, dags. 9. september 2010.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður og sem foreldri utan vinnumarkaðar með bréfi, dags. 9. september 2010.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands fæddist barn kæranda hinn Y. september 2010. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. september 2009 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt vottorði frá E-háskóla, dags. 9. júní 2010, var kærandi skráð stúdent við E-háskóla háskólaárið 2009–2010. Samkvæmt yfirliti frá skólanum, dags. 30. desember 2009, lauk kærandi 20 ECTS einingum á haustönn 2009 og var skráð í 30 ECTS einingar á vorönn 2010. Samkvæmt gögnum málsins og upplýsingum frá E-háskóla lauk kærandi 23 ECTS einingum á vorönn 2010.

Fullt nám við E-háskóla er 30 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Þegar af þeirri ástæðu að kærandi lauk ekki fullu námi á haustönn 2009 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Því kemur ekki til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði 3. mgr. 19. gr. ffl. fyrir undanþágu frá lögheimilisskilyrði.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

Í 1. mgr. 18. gr. ffl. er kveðið á um að foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eigi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. ffl., sbr. b-lið 8. gr. laga nr. 90/2004, sbr. b-lið 15. gr. laga nr. 74/2008, skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir þann tíma.

Þar sem kærandi átti ekki lögheimili á Íslandi við fæðingu barnsins á hún ekki rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar, sbr. 1. mgr. 18. gr. ffl. Þá er hvorki að finna undanþágu í ffl. né reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem átt geta við um tilfelli kæranda.

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi því hvorki skilyrði um rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður né fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar. Með vísan til þess ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni og um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta