Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 66/2003

Þriðjudaginn, 29. júní 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. október 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B, hdl. f.h. A, dags. 6. október 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 29. júlí 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 20. maí 2003, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Kærandi eignaðist barnið D, þann 14.12. 2002. Þann 20. maí 2003 staðfesti Tryggingastofnun ríkisins (TR) með bréfi móttöku á umsókn kæranda um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Í bréfi TR var bent á að samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra komu ekki fram tekjur í maí og júní mánuði 2002. Ákvörðun TR var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 26. maí 2002, þess efnis að hann ætti ekki rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði vegna þess að hann uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 95/2000 og reglugerðar nr: 909/2000, þar sem skv. gögnum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi hann verið launalaus í maí og júní mánuði 2002 og mæti þannig ekki kröfum laga nr. 95/2000 reglugerðar nr. 909/2000 um a.m.k. 25% starfshlutfall síðustu 6 mánuðina fyrir fæðingu barns. Í tilefni fyrrnefndrar ákvörðunar TR sendi kærandi inn reikning fyrir þjónustu í þágu verkkaupans E, fskj. 5, að fjárhæð kr. F sem gefinn var út vegna 180 klst. vinnu kæranda í þágu verkkaupa á tímabilinu 18. apríl til 18. júní 2002. Endanleg ákvörðun TR var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 29. júlí 2002, þess efnis að framlögð viðbótargögn myndu ekki breyta fyrri afgreiðslu.

Samkvæmt skattframtali kæranda vegna ársins 2002 kemur fram að árslaun hans voru kr. G, en á meðal uppgefinna launatekna hans er kr. F greiðsla sú sem áður var getið. Árslaun kæranda teljast venjuleg verkamannalaun miðað við 100% starf. Á því tveggja mánaða tímabili sem áðurnefndur reikningur tekur til vann kærandi 180 klst. eða 90 klst. á mánuði. Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 909/2000 eru 86-172 vinnustundir á mánuði 50-100% starfi. Út frá gögnum málsins að dæma er því vart hægt að draga aðra ályktun en að kærandi hafi verið í 100% starfi allt árið 2002.

Í 2., 3. og 4. mgr. reglugerðar nr. 909/2000 eru ákvæði um hver fjárhæð greiðslu til foreldra skal vera og við hvað skuli miða. Í 2. mgr. er fjallað um starfsmenn í 3. mgr. um sjálfstætt starfandi foreldra og í 4. mgr. um þegar foreldrar eru hvoru tveggja starfsmenn og sjálfstætt starfandi. í tilvitnuðum greinum segir:

Mánaðarleg greiðsla til foreldris skv. 1. mgr, sem er starfsmaður og leggur niður störf, skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt teljast til launa þær greiðslur sem koma til skv. b-d.-lið 4. gr.

Mánaðarleg greiðsla til foreldris skv. 1. mgr., sem er sjálfstætt starfandi og leggur niður störf, skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og í 2. mgr.

Mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi nema 80% af meðaltali heildartekna skv. 2. og 3. mgr. á tímabilinu.

Af meðferð TR á umsókn kæranda má ráða að þar sem kærandi reiknaði sér ekkert endurgjald og skilaði ekki inn tryggingagjaldi fyrir maí og júní 2002 hafi TR dregið þá ályktun að kærandi hafi ekki verið á vinnumarkaði á því tímabili og því ekki samfellt eins og áskilið er í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Ekki breytti það ákvörðun TR þótt kærandi hafi lagt fram reikning fyrir vinnu sem innt var af hendi í maí og júní 2002.

Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skal maður, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi reikna sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starfið en hann hefði haft sem laun fyrir það hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Hjá kæranda er ekki svo háttað að hann vinni við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi heldur nýtti hann sér heimild í 3. tl. 1. 4. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en þar segir:

4. gr. Undanþegnir skattskyldu skv. 3. gr. eru:

1. Aðilar sem eingöngu selja vöru eða þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti.

2. Listamenn, að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000, svo og uppboðshaldarar að því er varðar sölu þessara verka á listmunauppboðum, sbr.

3. Þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en [220.000 kr.]3) á ári.

4. Skólamötuneyti. 2)

Ef heimild 3. tl. 4. gr. laga nr. 50/1988 er nýtt þarf viðkomandi ekki að skila virðisaukaskatti af seldri vöru eða þjónustu, enda er það beinlínis forsenda fyrir þessari heimild að hana geta nýtt aðilar sem ekki vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þess vegna ber skattgreiðendum ekki að reikna sér endurgjald þegar þessi heimild er nýtt heldur ber þeim einungis að gefa fjárhæð seldrar vöru eins og háttar með aðrar tekjur. Kærandi gaf fjárhæðina F sem hann vann sér inn á tímabilinu 18.04.02-18.06.02 upp til skatts eins og sjá má á meðfylgjandi framtali hans. Því ber miklu fremur að líta á títtnefndar kr. F sem launatekjur en ekki verktakagreiðslu sem aflað var á fyrrgreindu tímabili þó ekki hafí verið skilað af henni tekjuskatti fyrr en við álagningu 2003. Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 er skilgreint hugtakið sjálfstætt starfandi einstaklingur, þ.a. það sé einstaklingur sem starfar við eigin rekstur án tillits til félagsforms í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Kæranda hefur aldrei verið gert að standa skil á tryggingagjaldi, enda ekki í svo umfangsmiklum rekstri.

Markmið laga nr. 95/2000 er samkvæmt 2. gr. nefndra laga, að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður og gera konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu og atvinnulíf. Tilgangur laganna er m.ö.o sá að gera foreldrum fjárhagslega kleift að eiga samvistir við barnið fyrstu mánuðina eftir fæðingu þess með því að tryggja þeim 80% af launum á meðan fæðingarorlofi stendur. Fyrir liggur að kærandi var á vinnumarkaði í maí og júní mánuði árið 2002 þó ekki hafi verið gerð skil á tryggingagjaldi eða staðgreiðslu á því tímabili. Kærandi hefur gefið á því viðhlítandi skýringar og með heimild í lögum skrifað reikning, sem hann gaf upp til skatts við framtalsgerð.

Óeðlilegt verður að telja miðað við tilgang laganna og skýringu þeirra á launatekjum og tekjum sjálfstætt starfandi einstaklinga, einkum með hliðsjón af 3. tl. 4. gr. laga nr. 50/1988, líta svo á að kærandi hafi ekki verið á vinnumarkaði í maí og júní mánuði 2002 og því er farið fram á það að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og úrskurðað að kærandi skuli fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í samræmi við umsókn sína og framlögð gögn.“

 

Með bréfi, dags. 13. október 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 29. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

Með ódagsettri umsókn sem barst 22. október 2002 sótti A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en tekið var fram í umsókninni að tilkynning um töku orlofs bærist síðar vegna þess að ekki væri ákveðið hvenær það yrði tekið. Barnið fæddist 14. desember 2002 og tilkynning um töku fæðingarorlofs tímabilið 1. júní - 31. júlí 2003 dags. 6. maí 2003 þar sem starfshlutfall síðustu 6 mánaða var einungis tilgreint fyrir 6. mánuðinn (100%) barst með faxi 19. maí 2003.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 20. maí 2003 var A tilkynnt að skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sé að foreldri hafi verið í sex mánaða samfelldu starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns), að starfshlutfall hvers mánaðar megi ekki vera minna en 25%, að skv. staðgreiðsluskrá RSK komi ekki fram tekjur fyrir maí og júní mánuð árið 2002, að ef þessar upplýsingar séu ekki réttar geti hann sent staðfestar upplýsingar um launatekjur fyrir þessa mánuði og að ef ekki berist gögn frá honum verði umsókninni synjað.

21. maí 2003 mun A hafa haft samband símleiðis við þjónustufulltrúa og tilkynnt að hann hafi ekki verið í vinnu í maí og júní 2002. Þjónustufulltrúi kom þeim upplýsingum áfram með tölvupósti til starfsfólks Fæðingarorlofssjóðs. Honum var síðan með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 26. maí 2006 synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að hann uppfyllti ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns) og í a.m.k. 25% starfshlutfalli. Af gögnum sem hann hafi lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hann hafi ekki verið á vinnumarkaði í maí og júní mánuði 2002.

9. og 14. júlí 2003 bárust á faxi skilagreinar vegna launagreiðslna mótteknar án greiðslu af sýslumanninum á H 7. júlí 2003 þar sem uppgefið var reiknað endurgjald fyrir apríl, maí og júní 2002.

Í 3. mgr. 7. gr. ffl. er að finna skilgreiningu á því hver teljist vera sjálfstætt starfandi einstaklingur sem er svohljóðandi:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur er sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.“

Í lokamálslið 1. mgr. 13. gr. ffl. er í framhaldi af því að kveðið er á um að skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sé að foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfshlutfall að finna svohljóðandi fyrirmæli um það hvernig vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli metið:

„Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.“

Í skrám RSK er ekki að finna upplýsingar um að A hafi gert grein fyrir sér sem sjálfstætt starfandi einstaklingur eða greitt tryggingagjald vegna reiknaðs endurgjalds. Í kæru er viðurkennt að hann hafi ekki greitt tryggingagjald. Skilyrðum 3. mgr. 7. gr. og lokamálsliðs 1. mgr. 13. gr. ffl. fyrir því að meta vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris er því ekki fullnægt

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 29. júlí 2003 var synjað að breyta fyrri afgreiðslu á grundvelli viðbótargagna, þ.e. skilagreinanna.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. febrúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sagði fyrir breytingu þá sem gerð var á henni með reglugerð nr. 186/2003 að til samfellds starfs teljist ennfremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Barn kæranda er fætt 14. desember 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 14. júní 2002 til fæðingardags barns.

Samkvæmt 3. mgr. 15. ffl. byggja útreikningar greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á upplýsingum er Tryggingastofnun ríkisins aflar, úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda, um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris. Jafnframt segir í ákvæðinu að telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skuli það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Upplýsingar sem aflað var úr staðgreiðsluskrá í tilefni af umsókn kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfestu ekki sex mánaða samfellt starf hans á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þann 14. desember 2002. Af hálfu kæranda var síðan skilað inn viðbótargögnum, þ.e. reikningi vegna starfa kæranda sem verktaki tímabilið 18. apríl til 18. júní 2002. Skilagreinum vegna launagreiðslna var skilað inn til sýslumannsins á H 7. júlí 2003.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um að kærandi hafi verið á vinnumarkaði frá 18. júní 2002 til loka mánaðarins. Samkvæmt staðgreiðsluskrá fékk hann aðeins greiddar 22.958 kr. fyrir júlí sama ár. Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála fela gögn málsins því ekki í sér staðfestingu á því að uppfyllt sé skilyrði laganna um sex mánaða samfellt starf.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Ósk Ingvarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta