Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 5/2004

Þriðjudaginn, 6. júlí 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur. 

Þann 23. janúar 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi 9. janúar 2004 um útreikning greiðslna í fæðingarorlofi.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Börnin fæddust fyrir tímann, þess vegna hlýtur tímabilið að eiga að byrja 14. mán. fyrir áætlaðan fæðingardag sem er 15.02.04. Ég er ekki með nein vottorð um það þar sem ég sótti ekki um fæðingarorlof fyrr en eftir fæðingu v/29 vikna meðgöngu.“

  

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 25. febrúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kært er viðmiðunartímabil útreiknings á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dags. 4. desember 2003 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá fæðingu barna sinna 28. nóvember 2003. Í meðfylgjandi tilkynningu um fæðingarorlof var sami upphafsdagur fæðingarorlofs tilgreindur.

Í kæru er farið fram á að viðmiðunartímabilið miðist við að börnin fæddust í 29 viku meðgöngu og verði því desember 2002 - nóvember 2003.

Upphafsdagur fæðingarorlofs konu er skilgreindur í 2. og 3. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) þar sem fram kemur að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns og að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í frumvarpi til laganna segir í athugasemdum við þetta ákvæði segir að hér sé átt við almanaksmánuði.

Vegna viðmiðunartímabils útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda var í samræmi við ákvæði 2. og 3. mgr. 8. gr. og 2. 3. mgr. 13. gr. ffl. litið til 12 mánaða tímabils sem lauk tveimur almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barna hennar. Þau fæddust 28. nóvember 2003 og viðmiðunartímabilið er því frá 1. september 2002 til 31. ágúst 2003.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. mars 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna í fæðingarorlofi.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að meðaltal heildarlauna skuli miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hafi sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi.

Börn kæranda fæddust 28. nóvember 2003. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá 1. september 2002 til 31. ágúst 2003.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði til þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar. Í athugasemdum um 13. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 er kveðið á um að átt sé við almanaksmánuði. Með hliðsjón af því skulu mánaðarlegar greiðslur til kæranda nema 80% af meðaltali heildarlauna fyrir tímabilið 1. september 2002 til og með 31. ágúst 2003.

Samkvæmt framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um ákvörðun viðmiðunartímabils við útreikning greiðslna staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um ákvörðun viðmiðunartímabils við útreikning greiðslna til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Ósk Ingvarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta