Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 83/2003

Þriðjudaginn, 1. júní 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. nóvember 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. nóvember 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 20. nóvember 2003 um að krefja kæranda um endurgreiðslu þess sem greitt var umfram það sem kærandi átti rétt á úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Eftirfarandi er í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000:

„Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil“.

„Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda.“

Úrskurður Tryggingastofnunar byggist á gögnum úr skattaskýrslu en ekki staðgreiðslu- og tryggingagjaldsskrá frá Sýslumanni á B eins og segir í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá frá Sýslumanninum á B eru heildartekjur umsækjanda fyrir árið 2001 kr. D sem dreifist yfir 12 mánuði og eru því meðal mánaðartekjur kr. E og 80% af þeirri upphæð er kr. F.

Þetta er sú upphæð sem umsækjandi hefur greitt af tryggingagjald og staðgreiðslu eins og sjá má á meðfylgjandi kvittun frá Sýslumanninum á B. Ástæða þess að skattaskýrslu og staðgreiðsluskrá ber ekki saman er sú að umsækjandi var með endurskoðanda sem fylgdi ekki þeim gögnum sem honum voru afhent við gerð skattaskýrslu fyrir árið 2001 og skrifaði einhverja allt aðra tölu en þá sem umsækjandi hafði sannanlega greitt tryggingagjald af til ríkisins á undangengnu ári. Endurskoðandinn skilaði skýrslunni seint og illa þrátt fyrir að hafa verið afhent öll gögn á réttum tíma eins og sjá má í gögnum skattstjóra.

Umsækjandi hefur hvergi séð það í lögum um fæðingarorlof að byggja skuli útreikninga fæðingarorlofs eingöngu á skattaskýrslu. Hvernig horfir þá við ef endurskoðandi umsækjanda hefði sett inn hærri tölu á launum umsækjanda en raunin er – hefði umsækjandi þá fengið greidda út inneign á fæðingarorlofi Tryggingastofnun þrátt fyrir að staðgreiðsluskrá stemmdi ekki við skattaskýrsluna?

Umsækjandi viðurkennir að einhverjar ofgreiðslur hafi átt sér stað þar sem honum hefur verið tjáð að við útreikning á fæðingarorlofi hafi verið gerð smá mistök hjá Tryggingastofnun. Þessi mistök voru á þann veg að greiðslur umsækjanda voru reiknaðar út frá tryggingagjaldi hans sem launagreiðanda (þ.e.a.s tryggingagjald sem reiknast samtals á alla hans launamenn). En ekki notað tryggingagjald af hans eigin reiknaða endurgjaldi til útreiknings.

Umsækjandi vill einnig koma því á framfæri að ef þetta hefði verið raunin, og hefði verið tilkynnt fyrr að réttur hans hefði ekki verið til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði hefði móðir barnsins að sjálfsögðu nýtt sér þeirra sameiginlega rétt til greiðslna ekki faðirinn. Og móðirin hlýtur því að eiga inni þann rétt miðað við þennan úrskurð.

Umsækjandi getur á engan hátt sætt sig við þennan úrskurð þar sem hann lagði fram gögn í upphafi og engin lög eða reglugerðir virðast vera til um að hægt sé að líta fram hjá staðgreiðsluskrá við útreikning á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði. Vinsamlega er krafist rökstuðnings og vísan til þeirra laga eða reglugerða úrskurður lífeyristryggingasviðs byggir á.“

 

Með bréfi, dags. 2. desember 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 16. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Þar sem mál þetta er nokkuð flókið verður byrjað á að rekja málavexti stuttlega.

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns f. 2001 og fékk að heildargreiðslu G kr. (H kr. brúttó) vegna fjögurra mánaða langs orlofs. Í júlí 2002 uppgötvaðist að greiðslurnar höfðu ekki verið reiknaðar með réttum hætti og var óskað endurgreiðslu frá kæranda á I kr. Sú krafa er óumdeild í máli þessu en hún er ógreidd.

Kærandi sótti svo aftur um fæðingarorlof þann 14. ágúst sl. vegna barns sem væntanlegt var í heiminn í nóvember 2003. Við afgreiðslu á þeirri umsókn uppgötvaðist að kærandi hafði, samkvæmt skattframtali 2002 er sýnir tekjur ársins 2001, ekki uppfyllt skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í fyrra fæðingarorlofi sínu. Ástæða þess er eftirfarandi:

Samkvæmt 1. mgr 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samfellt starf er skilgreint í 4. gr. rgl. nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, eða ígildi starfs sbr. 2. mgr. 4. gr.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur 2 mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr.

Ekki er ágreiningur um að kærandi, sem var á þessum tíma sjálfstætt starfandi, hafði áætlað á sig tekjur vegna ársins 2001 og greiddi tryggingagjald miðað við þá áætlun. Samkvæmt henni voru meðal mánaðartekjur hans á 12 mánaða viðmiðunartímabilinu J kr. Aftur á móti kom í ljós við endurskoðun á afgreiðslu máls hans að skattframtal ársins var ekki í nokkru samræmi við áætlunina. Meðal mánaðartekjur ársins samkvæmt framtalinu voru lægri en K kr. og þar sem kærandi var skráður í flokk C2 hjá RSK, þar sem miðað er við að reiknað endurgjald skuli vera L kr. á mánuði árið 2001, uppfyllti hann ekki skilyrðið um 25% samfellt starf í 6 mánuði fyrir fæðingardag barns, sbr. áðurnefnda 4. gr. rgl. nr. 909/2000. Því var litið svo á að ofgreiðsla hefði myndast og að hún næmi mismuninum á því sem upphaflega var greitt (G kr.) og fjárhæð lægri fæðingarstyrks (M kr.) eða samtals N kr. Annars vegar er um að ræða óumdeilda kröfu að fjárhæð I kr. sem áður er minnst á og hins vegar þá kröfu sem mál þetta snýr að og er að fjárhæð O kr.

Samkvæmt 1. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 er staðgreiðsla opinberra gjalda bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars launamanna á tekjuári og tryggingagjalds launagreiðenda á því ári. Samkvæmt lögunum ber sjálfstætt starfandi aðila að áætla á sig tekjur í upphafi tekjuárs miðað við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra (6. gr.) og að tekjuári loknu skal fara fram ákvörðun og álagning tekjuskatts og tryggingagjalds. Mismun, sem fram kann að koma milli staðgreiðslu og álagningar, skal krefja eða endurgreiða, eftir því sem við á (8. gr.).

Eins og þarna kemur fram liggja endanlegar upplýsingar um tekjur og greitt tryggingagjald ekki fyrir fyrr en að álagningu skattstjóra lokinni. Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur ofáætlað tekjur sínar og því greitt of hátt tryggingagjald fær hann endurgreiðslu þess hluta gjaldsins sem umfram er.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof kemur m.a. fram að það sé tilgangur laganna að bæta foreldrum það tekjutap sem þeir verða fyrir þegar þeir leggja niður störf vegna barnsfæðingar. Því var sú leið valin að reikna greiðslur í fæðingarorlofi sem hlutfall af raunverulegum tekjum foreldra á ákveðnu tímabili fyrir fæðingu barns. Skv. 3. mgr. 15. gr. ffl. var ákveðið að notast við þær upplýsingar sem fyrir hendi eru þegar útreikningurinn á sér stað, þ.e. staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra.

Áreiðanlegasta leiðin til að finna upplýsingar um tekjur er sú að skoða skattframtöl foreldra, sem yfirfarin hafa verið af skattstjóra. En þar sem þau liggja ekki fyrir vegna viðmiðunartímabils fyrr en löngu eftir fæðingu barns hefði það valdið foreldrum gríðarlegu óhagræði ef sú leið hefði verði farin. Engu að síður hlýtur það að vera tilgangur laganna að sérhvert foreldri fái réttar greiðslur miðað við þau skilyrði sem lögin setja. Það er jafnframt eitt af meginmarkmiðum Tryggingastofnunarinnar að inna af hendi þær greiðslur sem umsækjendur eiga tilkall til, hvorki hærri né lægri.

Með vísun til ofangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að í þeim tilvikum þegar endanlegar upplýsingar skattyfirvalda liggja fyrir um tekjur foreldris á því tímabili sem notað er til viðmiðunar við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, beri fremur að miða við þær heldur en óáreiðanlegri gögn, s.s. upplýsingar úr staðgreiðsluskrá. Telji foreldrar framtal sitt eða álagningu skattstjóra ranga ber þeim að leita leiðréttinga hjá skattyfirvöldum.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. janúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 5. mars 2004 með bréfi ódags. í mars sama ár, þar sem hann ítrekar fyrri sjónarmið.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja kæranda um endurgreiðslu þess sem stofnunin telur að greitt hafi verið umfram það sem kærandi átti rétt til úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Vegna fæðingar barns kæranda í desember 2001 fékk hann greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Þegar kærandi óskar eftir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns í nóvember 2003 uppgötvast að tekjur hans samkvæmt tryggingagjaldsskrá sem voru grundvöllur útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði voru mun lægri en tekjur ársins 2001 samkvæmt skattframtali. Óskaði Tryggingastofnun ríkisins eftir því að hann endurgreiddi fjárhæð sem talið var að hann hefði ranglega fengið greidda úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrri barnsfæðingarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Í lögum nr. 95/2000 er eigi kveðið á um heimild Tryggingastofnunar ríksins til endurskoðunar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við endanlega álagningu skattyfirvalda eða til endurkröfu á þeim grundvelli. Samkvæmt því er eigi um ágreiningsefni að ræða sem fellur undir valdsvið nefndarinnar að úrskurða um. Ágreiningur um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og endurkröfu á öðrum grundvelli en lögum nr. 95/2000 fellur utan valdsviðs nefndarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu er málinu vísað frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kæru A er vísað frá þar sem úrlausnarefnið á ekki undir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta