Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 411/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 411/2017

Mánudaginn 29. janúar 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. nóvember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. október 2017, um synjun á umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, móttekinni 11. september 2017, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hennar X 2017. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. september 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún hefði ekki verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingu barns. Kærandi lagði fram frekari gögn vegna umsóknarinnar en með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. október 2017, var umsókn hennar synjað á ný.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 3. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 14. nóvember 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. nóvember 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verði felld úr gildi og að umsókn hennar um greiðslu fæðingarstyrks á grundvelli 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof verði samþykkt. Kærandi krefst þess einnig að haustönn 2016 verði lögð til grundvallar í stað haustannar 2017 við ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi tekur fram að skólaárið 2016-2017 hafi hún verið skráð í fullt nám við B. Vegna veikinda hafi hún hins vegar ekki náð fullnægjandi árangri. Í apríl 2016 hafi kærandi verið greind með [...] og hafið lyfjameðferð við því. Í X 2016 hafi hún þurft að hætta lyfjameðferð vegna þungunar en í X sama ár hafi hún misst fóstur. Það hafi haft áhrif á námsárangur kæranda og hún hafi því einungis lokið 18 ECTS-einingum haustið 2016. Kærandi bendir á að LÍN hafi samþykkt að veita henni námslán þá önn vegna veikindanna þrátt fyrir að lágmarkið sé 22 ECTS-einingar.

Kærandi vísar til þess að í X 2017 hafi hún orðið þunguð á ný og þar af leiðandi ekki getað hafið lyfjameðferð aftur en einnig hafi hún enn verið að vinna úr afleiðingum fósturmissisins. Slíkur missir geti haft slæmar andlegar afleiðingar sem valdið geti hræðslu þegar kona verði þunguð á ný. Á vorönn 2017 hafi kærandi því ekki náð að ljúka nema 12 ECTS-einingum af 30. LÍN hafi aftur tekið tillit til veikinda kæranda og veitt henni undanþágu þannig að 12 ECTS-einingar jafngiltu 22 ECTS einingum. Á haustönn 2017 hafi kærandi verið skráð í 12-ECTS-einingar eða í þá áfanga sem hún hafi átt ólokið frá hausti 2016 auk þess sem settur dagur hafi verið X. Þar sem settur dagur hafi verið á miðri önn hafi kærandi ekki skráð sig í fullt nám og því óskað eftir að haustönn 2016 yrði lögð til grundvallar við ákvörðun um fæðingarstyrk námsmanna. Fæðingarorlofssjóður hafi hafnað því en kærandi þá lagt fram læknisvottorð, annars vegar vegna andlegrar heilsu í kjölfar fósturmissis og hins vegar vegna [...] greiningar, bæði fyrir haustönn 2016 og vorönn 2017. Kærandi bendir á að veikindi hennar hafi stafað af fósturmissi sem teljist til meðgöngu þótt ekki sé um sömu meðgöngu að ræða. Kærandi tekur fram að hún sé ekki sátt við ákvörðun og starfshætti Fæðingarorlofssjóðs þegar fyrir liggi gögn um aðstæður hennar á síðastliðnu tólf mánaða tímabili. Einnig þyki kæranda sérkennilegt að LÍN hafi veitt henni undanþágu þannig að þær einingar sem hún hafi lokið hafi jafngilt fullu námi en Fæðingarorlofssjóður taki ekki haustönn 2016 til greina. Um tvær ríkisreknar stofnanir sé að ræða og því þyki varhugavert að önnur stofnunin veiti undanþágu til fulls náms á meðan hin hafni því.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldrar, sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda hafi fæðst þann X 2017. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins sé horft til tímabilsins frá X 2016 fram að fæðingardegi þess. Á vottorðum um skólavist frá B, dags. 23. ágúst 2017, komi fram að á framangreindu tólf mánaða tímabili hafi kærandi lokið 18 ECTS-einingum á haustmisseri 2016 sem telji frá X til 31. desember 2016 (skráð í 30 ECTS-einingar á því misseri), 12 ECTS-einingum á vormisseri 2017 (skráð í 30 ECTS-einingar á því misseri) og síðan verið skráð í 12 ECTS-einingar á haustmisseri 2017 sem telji frá 1. ágúst til X 2017. Á háskólastigi jafngildi 30 einingar á önn 100% námi og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda uppfylli hún ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að í 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 sé að finna undanþágu frá framangreindu skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um viðunandi námsárangur. Þar komi fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr. þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Því til staðfestingar skuli leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hafi móður á meðgöngu ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Þá komi fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni. Þar sem réttur kæranda til greiðslna verði leiddur af fæðingu barns þann X 2017 verði, við mat á 13. mgr. 19. gr. laganna, að afmarka heilsufarsástæður við meðgöngu sem hafi leitt til þeirrar fæðingar. Þá taki ákvæðið einungis til heilsufarsástæðna á meðan meðganga vari. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 3. nóvember 2017, sé óumdeilt að heilsufarsástæður kæranda á meðgöngu barns, sem hafi fæðst X 2017, gefi tilefni til að víkja frá skilyrðum um viðunandi námsárangur og/eða ástundun á vormisseri 2017. Ákvæðið heimili hins vegar ekki að litið sé til heilsufarsástæðna fyrir meðgöngu og geti því ekki tekið til haustmisseris 2016. Þá hafi kærandi ekki verið skráð í fullt nám á haustmisseri 2017 og ákvæðið geti því ekki tekið til þess misseris.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað en kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Almennt teljast 30 ECTS-einingar á önn því vera 100% nám við háskóla og fullt nám í skilningi laganna því 22–30 einingar.

Barn kæranda fæddist X 2017. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2016 fram að fæðingardegi barnsins. Á þeim tíma stundaði kærandi nám við B og stendur námið yfir í þrjú ár. Fullt nám á hverri önn nemur 30 ECTS-einingum eða samtals 180 ECTS einingum í heild. Samkvæmt yfirlitum frá B, dags. 23. ágúst 2017, lauk kærandi 18 ECTS-einingum á haustönn 2016 sem telur frá X til 31. desember 2016, 12 ECTS-einingum á vorönn 2017 og var skráð í 12 ECTS-einingar á haustönn 2017. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki fullnægt hinu almenna skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Við þær aðstæður skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting frá B þess efnis að kærandi hafi verið skráð í fullt nám skólaárið 2016-2017. Í læknisvottorði C, dags. 3. október 2017 er sjúkdómi kæranda lýst á eftirfarandi hátt:

„Á við [...] að stríða og hefur þurft lyfjameðferð til að geta stundað nám, án lyfjameðferðar er ómögulegt að geta stundað fullt. Var þunguð haust 2016, missti fóstur eftir rúmmar 11 vikur. Einnig þunguð aftur vorönn 2017, áætluð fæðing X 2017. Hefur ekki getað notað [...] lyf meðan hún var þunguð og hefur það valdið henni miklum vandræðum með námið og útskýrir að hún náði ekki fullum námsárangri.“

Líkt og Fæðingarorlofssjóður hefur vísað til verður réttur kæranda til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði leiddur af fæðingu barns þann X 2017 en ekki fyrri meðgöngu. Undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 verður því ekki beitt um haustönn 2016 þar sem meðgangan var ekki hafin á þeirri önn. Engin heimild er fyrir hendi, hvorki í lögum nr. 95/2000 né reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, til að taka tillit til atvika sem gerast fyrir það tímamark.

Fæðingarorlofssjóður hefur fallist á að heilsufarsástæður kæranda gefi tilefni til að víkja frá skilyrðum um viðunandi námsárangur og/eða ástundun á vormisseri 2017. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði um skólavist, dags. 23. ágúst 2017, stóð vorönn 2017 frá 2. janúar til 31. maí 2017. Í öðru vottorði um skólavist, einnig dags. 23. ágúst 2017, kemur fram að kærandi var einungis skráð í 12 ECTS-einingar á haustönn 2017. Að því virtu kemur undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 ekki til skoðunar á þeirri önn, enda stundaði kærandi ekki fullt nám á þeim tíma. Á framangreindu tólf mánaða tímabili fyrir fæðingu barns kæranda var hún einungis í fullu námi á vorönn 2017, eða í rétt tæplega fimm mánuði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur nefndin óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um að hafa verið í fullu námi í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. október 2017, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta