Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 81/2003

Þriðjudaginn, 17. ágúst 2004

   

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

   

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 21. nóvember 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 19. nóvember 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 10. nóvember 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Í ágúst 2003 fékk ég að vita frá fæðingarorlofssjóði að ef ég myndi skrá mig í fullt nám núna í haust fengi ég fæðingarstyrk námsmanna þar sem ég lauk 15 einingum í fjarnámi frá B-framhaldsskólanum vorið 2003. Ég fór því í fullan skóla í fjölbrautarskóla sem var alltaf planið enda ákváðum við að flytja heim til þess að ég gæti lokið mínu námi.

Síðar, þ.e. núna í nóvember fæ ég svo að vita að þar sem ég var launþegi í D-landi til 1. ágúst 2003 þá missi ég réttinn sem námsmaður! Þó vann ég einungis í 9 tíma á viku við íslenskukennslu íslenskra barna við D-lenskan barnaskóla í 4 mánuði. Ég tók einungis að mér þetta starf vegna þess að ég stefni á íslensku og D-lenska kennarann í háskólanum eftir stúdentspróf. Því taldi ég þetta vera góða reynslu fyrir komandi nám (fæ tímana metna í náminu) og einnig sárvantaði þeim kennara. Hefði alls ekki tekið starfið að mér ef ég hefði vitað hvaða afleiðingar það hefði í för með sér því þetta var lítil vinna og lág launuð enda öðlaðist ég engin réttindi í D-landi eins og t.d. rétt til fæðingarorlofs þar.

Fékk einnig að vita að ég gæti flutt tímana mína til Íslands til að öðlast réttindi til greiðslu úr fæðingarorlofssjóði en þar sem vinna mín var einungis 23% vinna í 4 mánuði og ég var ekki fastráðin heldur að leysa af þá uppfylli ég ekki heldur skilyrðin um samfellda vinnu í 6 mánuði hvorki þegar ég hringdi til TR eftir að ég vissi að ég væri ólétt, það kemur ekki fram í upplýsingum TR á netinu né fékk ég að vita það þegar ég leitaði eftir upplýsingum varðandi þetta mál eftir að ég flutti heim.

Ég fór aldrei af landi brott í atvinnuskyni heldur til að fylgja mínum manni enda stundaði ég fjarnám héðan frá Íslandi eftir að dóttir okkar varð nógu gömul til að fara til dagmömmu. Ég vann með námi þegar mér bauðst hlutastarf en ég var aldrei í fullu starfi eða fastráðin neins staðar heldur var ég alltaf námsmaður í hlutastarfi!!! Enda hafði ég aldrei rétt á neinu, hvorki atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofi né E sem er styrkur sem allir námsmenn sem stunda nám í D-landi (ég stundaði jú nám frá Íslandi en ekki D-landi) fá sem eru eldri en 18 og ekki eiga rétt á námsláni annarsstaðar frá. Þess vegna er mjög sárt að fá 11. gr. reglugerðar nr. 463/1999 í hausinn þar sem ég tel hana engan veginn eiga við mig! Ég var jú námsmaður í fullu námi allt árið. Með 15 einingar bæði vor og haustönn og því skil ég ekki hvernig ég afskrifast sem námsmaður bara við það að vinna hlutastarf í öðru landi tímabundið!

Ástæða fyrir því að ég og maðurinn minn fluttum út í júlí 1999 var sú að hann var að fara í nám þar. Upphaflega var mitt plan einnig að sækja nám þangað er ég varð ólétt sem breytti því plani. Þar með kemur skýring mín á dvöl minni í D-landi síðastliðin 4 ár. Samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 9092000 er þá ekki hægt að réttlæta það að ég var erlendis vegna náms eiginmanns míns?“

 

Með bréfi, dags. 2. desember 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 17. mars 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna og ákvörðun um greiðslu lægri fæðingarstyrks.

Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá flutti kærandi lögheimili sitt til D-lands 3. júlí 1999 og bjó þar til 1. ágúst 2003, er hún flutti aftur til Íslands. Barn hennar er fætt þann 21. október 2003. Kærandi starfaði í D-landi á búsetutíma sínum þar en stundaði fjarnám við íslenska skóla.

Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) segir að foreldrar í fullu námi eigi rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig og að sameiginlega eigi þau rétt á þremur mánuðum til viðbótar. Reglur um fæðingarstyrk námsmanna eru nánar útfærðar í 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 1. mgr:

„Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á sl. 12 mánuðum fyrir fæðingu barns ... Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. ...”

Í ljósi upplýsinga um búsetu og starf kæranda erlendis ákvað lífeyristryggingasvið að leita umsagnar alþjóðadeildar Tryggingastofnunar vegna kærunnar. Það var gert í desember 2003 en greinargerð alþjóðadeildar barst lífeyristryggingasviði þann 9. mars sl. og fylgir hjálögð.

Lífeyristryggingasvið tekur undir flest það sem fram kemur í greinargerð alþjóðadeildar. Sérstök ástæða þykir til að árétta annars vegar að samkvæmt 34. gr. ffl. ber við framkvæmd laganna að taka tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að, og hins vegar þá staðreynd að ESB reglugerð nr. 1408/71 mælir fyrir um að einstaklingur geti bara heyrt undir löggjöf eins aðildarríkis á hverjum tíma. Samkvæmt meginreglu er það löggjöf þess lands sem hann starfar í eða starfaði síðast, búi hann þar enn. Hætti einstaklingur að heyra undir löggjöf eins aðildarríkis án þess að löggjöf annars taki við er hann tryggður í því ríki sem hann er búsettur í. Ekki er samkvæmt samningnum hægt að undanskilja tiltekinn hluta trygginga þess lands sem einstaklingur er tryggður í og færa þær undir löggjöf annars aðildarríkis. Kærandi var sannanlega tryggð í D-landi fram til 1. ágúst sl. Líta verður svo á að fram til þess tíma hafi hún ekki getað áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður hér á landi, enda heyrði hún á þeim tíma ekki undir íslenska löggjöf vegna vinnu sinnar í D-landi.

Athugun á því hvort kærandi hafi öðlast rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði leiddi í ljós að skilyrði um sex mánaða samfellt starf og starfstíma hér á landi skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. voru ekki uppfyllt og réttur til greiðslna úr sjóðnum er því ekki fyrir hendi.

Samkvæmt 12. gr. rgl. nr. 909/2000 á foreldri utan vinnumarkaðar rétt á fæðingarstyrk að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Skilyrði um lögheimili er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan EES skal foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu sem sýnir tryggingatímabil sem foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir. Kærandi hefur lagt fram E-104 vottorð til staðfestingar á loknu tryggingatímabili í D-landi og á því rétt á fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. ffl.“

 

Greinargerð Alþjóðadeildar Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 8. mars 2004. Í greinargerðinni segir m.a.:

„Í máli þessu er kærður úrskurður fæðingarorlofssjóðs um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi en þess í stað hefur kæranda verið úrskurðaðar greiðslur sem foreldri utan vinnumarkaðar í minna en 25% starfi. Fyrir liggur í máli þessu að kærandi stundaði fjarnám frá D-landi við íslenskan skóla auk þess sem kærandi stundaði launaða vinnu í D-landi. Skv. Þjóðskrá flutti viðkomandi úr landi 03.07.1999 og flytur síðan til baka aftur til Íslands þ. 01.08.2003. Barn kæranda er síðan fætt á Íslandi 21.10.2003. Alls hefur því kærandi verið búsettur í D-landi í rúm 4 ár.

Alþjóðadeild kannaði hvort kærandi ætti rétt til töku orlofs á grundvelli vinnu þar sem kærandi stundaði launaða vinnu í D-landi auk þess sem kannaður var réttur til töku orlofs á grundvelli náms.

Skv. 13. gr. rg. ESB nr. 1408/71 skal einstaklingur sem ráðinn er til starfa í einu aðildarríki heyra undir löggjöf þess ríkis. M.ö.o. þá er það vinnulandið sem ræður því hvar viðkomandi telst tryggður. Ekki er um það deilt í máli þessu að vinna sú sem kærandi innti af hendi var öll framkvæmd í D-landi. Ekki liggur fyrir ráðningarsamningur né upplýsingar um réttindi og kjör viðkomandi starfsmanns og því einungis tekið mið af orðum kæranda hér til grundvallar. Fram kemur í máli kæranda að hann hafi einungis verið í 23% starfi í 4 mánuði. Skv. reglugerð nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks kemur fram í 2. mgr. 5. gr. að starfshlutfall skuli eingöngu taka mið af störfum sem unnin eru á innlendum vinnumarkaði. Kærandi uppfyllir ekki þetta skilyrði þar sem vinnuframlag var einungis í D-landi. Kærandi getur þar af leiðandi ekki sótt rétt sinn til orlofs á grundvelli vinnu þar sem vinnan fór öll fram erlendis.

Kærandi telur sig eiga rétt sem námsmaður til fæðingarstyrks foreldris í fullu námi sbr. 19. gr. l. nr. 95/2000. Með fullu námi er átt við 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns sbr. 14. gr. rg. nr. 909/2000. Kærandi stundaði ekki hefðbundið nám við B-framhaldsskólann sbr. vottorð frá skólanum heldur var um fjarnám að ræða við skólann.

Skv. 15. gr. rg. nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá kemur fram að sá sem er búsettur og tryggður hér á landi og dvelst erlendis við nám sé áfram tryggður meðan á námi stendur enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um aðstandendur hans sem með honum dveljast.

Kærandi var skráður með lögheimili í D-landi frá 03.07-1999 til 01.08.2003 eins og áður segir og er útgefið E104 frá D-landi (sem er vottorð um söfnun tryggingar-, starfs- eða búsetutímabila um bótatímabil þar í landi) því til staðfestingar. Á E 104 D vottorðinu kemur fram að kærandi er skráður sem launþegi í D-landi en ekki sem námsmaður.

Skv. 1. tl. 13. gr. rg. ESB nr. 1408/71 kemur fram að einstaklingar sem rg. nái til skuli aðeins heyra undir löggjöf eins aðildarríkis hverju sinni. Í því fellst að kærandi getur ekki fallið undir löggjöf tveggja landa samtímis. Auk þess kemur fram í 13. gr. f. sömu rg. að einstaklingur sem hættir að heyra undir löggjöf aðildarríkisins þar sem hann er búsettur í samræmi við ákvæði þeirrar löggjafar einnar.

Alþjóðamál telur að kærandi hafi fallið undir D-lenska löggjöf áður en hann flutti lögheimili sitt til Íslands og eigi þar af leiðandi einungis rétt til greiðslu fæðingarstyrks utan vinnumarkaðar þar sem kærandi var sannarlega tryggður í D-landi áður en hann flutti lögheimili sitt til Íslands þ. 01.08.03 s.l. sbr. upplýsingar frá Hagstofu Íslands.

Með vísan til þess sem að ofan greinir getur alþjóðadeild TR ekki fallist á að kærandi eigi frekari rétt til fæðingarorlofs.“

 

Framangreindar greinargerðir voru sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. júní 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. reglugerð 915/2002, skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75%-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Ennfremur segir þar að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 á rétt til fæðingarstyrks foreldri sem er utan vinnumarkaðar, í minna en 25% starfi eða í námi að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Ákvæði 13. gr. um undanþágu frá lögheimilisskilyrði hefur verið talið gilda um foreldri sem flytur lögheimili tímabundið vegna náms maka.

Kærandi ól barn 21. október 2003. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til D-lands 3. júlí 1999 vegna náms maka og er með lögheimili þar til 1. ágúst 2003 að hún flytur aftur til Íslands. Með hliðsjón af því telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi uppfylli skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði.

Kærandi stundaði fjarnám frá B-framhaldsskólanum á vorönn 2003 og lauk 15 einingum. Samkvæmt gögnum málsins var hún skráð í 15 einingar við F-framhaldsskólann á haustönn 2003.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. Um fullt nám sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

   

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta