Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 54/2003

Þriðjudaginn, 7. september 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

   

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur. 

Þann 28. júlí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 14. júlí 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 20. júní 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Mér hefur borist svar Tryggingastofnunar við umsókn minni fyrir ósk um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Mér er synjað um greiðslur á þeim forsendum að ég hef ekki verið á innlendum vinnumarkaði að undanförnu og þeir hafi aflað upplýsinga frá RSK til staðfesta það.

Ég skrifa bréf þetta sem kæru á niðurstöðu Tryggingastofnunar til að fá þann rétt sem ég tel mig hafa sem Íslenskur ríkisborgari starfandi sem B við D sem er stofnun sem Ísland hefur undirritað gagnkvæmt samkomulag á milli aðildarríkja og stofnunarinnar eins og ég hef kynnt mér hjá mínum vinnuveitanda.

1. Ég sendi skattaskýrslu til RSK eins og mér ber að gera ár hvert, þar kemur skýrt fram að ég sem Íslenskur starfsmaður D fell undir það ákvæði sem ritað var og samþykkt af E þann 13. febrúar 1946 og Ísland gerðist síðan aðili að og undirritaði þann 10. mars 1948.

2. Ég borga alla þá skatta og skyldur til Íslands eins og mér ber að gera og hef hingað til haft sama rétt og aðrir Íslenskir þjóðfélagsþegnar. Tekjuskattur er þó tekinn beint af launum mínum af D sem kemur síðan til frádráttar þeirra greiðslna sem Íslenska ríkinu ber að greiða til D. Launaseðlar mínir fylgdu með upphaflegri umsókn þar sem allar upphæðir koma fram miðað við þau laun sem ég var á er ég sótti um greiðslur úr sjóðnum.

3. Ég hef litið á þann möguleika að flytja aðsetur mitt erlendis til að fá sum fríðindi eins og til dæmis að flytja búslóð heim án tolla. En ekki viljað það vegna m.a. tapaðra réttinda heima fyrir, ég er hvort eð er á skammtíma samningum við D eins og RSK hefur verið upplýstur með fylgibréfum sem fylgt hefur með mínum skattaskýrslum á undanförnum árum. Þar að auki vissi ég ekki til hvaða lands ég ætti að flytja mín aðsetur til. Ef þið teljið mig vera íbúa í F-landi þar sem G-land tilheyrir undir eins og er, get ég ekki lengur talist hlutlaus B í héraðinu ef ég er ráðsettur þar auk þess sem starf mitt nær miklu víðar en bara um G-land.“

 

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 2. febrúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dagsettri 30. apríl 2003 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 1. júlí 2003 vegna fæðingar barns 4. janúar 2003. Með umsókninni fylgdu vottorð um fæðingu barns í H-landi, staðfesting á veitingu íslensks ríkisborgararéttar þess skv. 2. mgr. 2. gr. laga um ríkisborgararétt nr. 100/1952, sbr. 2. mgr. 2. gr. l. 62/1998 og ráðningarbréf vegna starfs hjá D tímabilið 1. janúar - 30. júní 2003. Í umsókninni tók kærandi fram að hann væri starfsmaður D og hefði undanfarið verið við störf í G-landi.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 20. júní 2003 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að af gögnum sem hann hafi lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK verði ekki séð að hann uppfylli það skilyrði 1. mgr. 13. gr laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) fyrir rétti til þeirra greiðslna að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns).

Með kæru fylgdu tvær staðfestingar um starf kæranda hjá D. Í þeirri fyrri dags. 19. mars 2002 kom fram að hann hefði hafið störf 18. júní 1999 og að ráðning hans væri í gildi til 30. júní 2002 auk þess sem tekið var fram að skv. 18. gr. (b) í samningi um réttindi og friðhelgi D dags. 13. febrúar 1946 væru starfmenn D undanþegnir sköttum af launum sínum og tekjum frá D. Íslandi hefði samþykkt samninginn 10. mars 1948 og laun kæranda væru því ekki skattskyld. Ensk útgáfa af samningnum fylgdi einnig með en hann var samþykktur með lögum nr. 13/1948. Í seinni staðfestingunni dags. 31. mars 2003 var staðfest að kærandi hefði unnið hjá D á tímabilinu 1. janúar 2002 – 31. desember 2002.

Kærandi starfar þannig erlendis og er undanþeginn sköttum af launum og tekjum frá vinnuveitanda sínum hér á landi. Í 1. mgr. 1. gr. ffl. segir m.a. að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Í athugasemdum við frumvarp til ffl. segir m.a. um 1. mgr. að þetta sé ekki breyting frá gildandi fæðingarorlofslögum nr. 57/1987, með síðari breytingum. Í 2. gr. þeirra laga segi: „Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingarorlofi í allt að sex mánuði...“ Fallið hafi verið frá búsetuskilyrðum og sé nægilegt að viðkomandi starfi á íslenskum vinnumarkaði. Sé þetta einkum gert með tilliti til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Skv. samningi um Evrópska efnahagssvæðið og a-lið 2.mgr. 13. gr. reglugerðar ESB nr. 1408/71 skal einstaklingur sem ráðinn er til starfa í einu aðildarríki heyra undir löggjöf þess ríkis, jafnvel þótt búseta hans sé skráð í öðru aðildarríki, þ.e. vinnulandsreglan sem gildir að öllu jöfnu nema aðrar undanþágur eigi við s.s. reglur um útsenda starfsmenn o.þ.h. Ekki er um að ræða undanþágu sem á við um kæranda, t.d. hefur hann ekki verið sendur til starfa erlendis fyrir íslenskt fyrirtæki. Skv. b-lið i. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar ESB 1408/71 skal einstaklingur sem starfar að jafnaði í tveimur eða fleiri aðildarríkjum heyra undir löggjöf þess aðildarríkis þar sem skráð skrifstofa eða vinnustöð þess fyrirtækis eða vinnuveitanda sem hann starfar hjá er, svo framarlega sem hann er ekki búsettur í neinu því aðildarríki sem hann starfar.

Greiðslur í fæðingarorlofi á grundvelli fæðingarorlofslaga nr. 57/1987 fóru fram skv. 15. og 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) nema þegar um var að ræða launagreiðslur í fæðingarorlofi frá vinnuveitanda á grundvelli laga eða kjarasamninga. Skilyrði fyrir greiðslum var að jafnaði að foreldri hefði búsetu hér á landi, sbr. I. kafla A., við fæðingu barns og hafi búið hér á landi síðustu 12 mánuðina fyrir fæðinguna. Umsækjandi um greiðslur þurfti því að uppfylla skilyrði fyrir því að teljast tryggður hér á landi skv. I. kafla A. atl. Í 9. gr. a. atl. (sem er fyrsta ákvæðið í I. kafla A. laganna) er kveðið á um að sá sem sé búsettur hér landi teljist tryggður, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Í 9. gr. d. atl. segir að ráðherra setji reglugerð um einstök atriði varðandi framkvæmd þessa kafla (þ.e. I. kafla A.), m.a. um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999 segir:

Íslenskir ríkisborgarar sem starfa erlendis hjá alþjóðastofnunum og launaðir eru af þeim teljast ekki tryggðir. Heimilt er að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur teljist tryggður á Íslandi þegar um er að ræða stofnun sem Ísland er aðili að og starfið telst þjóna hagsmunum Íslands erlendis. Skilyrði er að viðkomandi hafi verið tryggður á Íslandi við upphaf starfs og geti ekki notið trygginga á vegum starfs síns eða vinnuveitanda.

Kærandi vinnur erlendis hjá alþjóðastofnun, er launaður af henni og undanþeginn sköttum af launum sínum og tekjum hér á landi. Ekki hefur verið sótt um að hann teljist tryggður á Íslandi á grundvelli þess að starfið teljist þjóna hagsmunum Íslands erlendis og ekki liggja fyrir upplýsingar um að kærandi geti ekki notið trygginga á vegum starfs síns eða vinnuveitanda. Hann er því ekki á innlendum vinnumarkaði og uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 1. gr. ffl., ákvæði I: kafla A.. atl. og 1. mgr. 14. gr.reglugerðar 463/1999.

Auk þess sem kærandi uppfyllir ekki það skilyrði að vera á innlendum vinnumarkaði þá hafa hvorki borist upplýsingar um að kærandi hafi forsjá barns eða samþykki forsjárforeldris skv. 6. mgr. 8. gr. ffl. fyrir umgengni við barn í fæðingarorlofi né að hann taki sér launalaust leyfi frá störfum í fæðingarorlofi, sbr. 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr. ffl.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. febrúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir og rökstuðningur barst frá kæranda með tölvupósti þann 13. júlí 2004.

 

Með bréfi dags. 29. júní 2004 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð alþjóðadeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerð alþjóðadeildar er dags. 27. júlí 2004. Í greinargerðinni segir:

Úrskurðarnefnd fæðingarorlofsmála hefur óskað eftir greinargerð frá alþjóðadeild Tryggingastofnunar ríkisins vegna kæru A vegna synjunar á greiðslu fæðingarorlofs.

Kærandi í máli þessu er A með lögheimili að I en með aðsetur skráð í J-landi skv. upplýsingum úr þjóðskrá 21. júlí 2004.

Skv. gögnum sem liggja fyrir í máli þessu er kærandi starfsmaður D með starfsstöð í G-landi sbr. bréf frá D dagsettu 31. mars 2003.

Í reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá kemur fram í 1. mgr. 14. gr. að íslenskir ríkisborgarar sem starfa erlendis hjá alþjóðastofnunum og launaðir eru af þeim teljist ekki tryggðir. Ennfremur segir að heimilt sé að ákveða skv. umsókn að einstaklingur teljist tryggður á Íslandi þegar um sé að ræða stofnun sem Ísland er aðili að og starfið telst þjóna hagsmunum Íslands. Ekki hefur borist formleg umsókn frá kæranda til alþjóðadeildar Tryggingastofnunar um að fá að halda sínum tryggingum hér á landi vegna starfa hans hjá D né upplýsingar um að starfið sem hann innir af hendi þar þjóni hagsmunum Íslands á erlendri grundu. D falla undir hugtakið alþjóðastofnanir og svo virðist sem kærandi sé launaður beint af D skv. gögnum er fyrir liggja í málinu og greiði trygginga- og lífeyrisgjald til D skv. málskjali nr. 1.3 í máli þessu.

Kærandi hefur ráðið sig beint til starfans hjá D og verður þar af leiðandi að taka á sig þær skyldur og kvaðir sem starfinu fylgja þ.á.m. með tilliti til trygginga sem starfsmenn alþjóðastofnana verða í flestum tilvikum að taka sjálfir þátt í að greiða. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi sé að inna starf af hendi fyrir D sem þjónar hagsmunum Íslands s.s friðargæslustarf eða eitthvað þess háttar enda er kærandi ekki sendur út á vegum L né launaður af þeim á nokkurn hátt. Heimildarákvæðið í 14. gr. fyrrnefndrar rg. getur því ekki átt við í þessu tilviki og kærandi telst þar af leiðandi ekki á íslenskum vinnumarkaði miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja í máli þessu. En skv. 1. mgr. 1. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof taka lögin einungis til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði.

Kærandi er ekki heldur sendur út á vegum íslensks fyrirtækis sem útsendur starfsmaður þess sbr. ákvæði í 3. mgr. 11. gr. rg. 463/1999 og getur þar af leiðandi ekki talist á íslenskum vinnumarkaði þrátt fyrir starf erlendis. Eitt af skilyrðum þeim sem sett eru vegna slíkra starfa erlendis er að tryggingagjöld séu greidd hér á landi meðan á starfstíma stendur. Slíku er ekki fyrir að fara hjá kæranda þó svo að kærandi hafi talið fram tekjur sínar hér á landi. Ekkert tryggingagjald hefur verið innt af hendi hér á landi en tryggingagjald er m.a. notað til þess að fjármagna fæðingarorlofssjóð sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.

Ekki verður vikið sérstaklega að samningnum um Evrópska efnahagssvæði í greinargerð þessari þar sem starfssvið viðkomandi starfsmanns er alfarið í G-landi sem ekki telst til EES svæðisins. Engu breytir þar um þótt kærandi sé nú með skráð aðsetur í J-landi þar sem þau lönd urðu ekki fullgild aðildarríki að ESB fyrr en í maí 2004.

Skv. ofansögðu, þá fellur kærandi ekki undir þær reglur er fjalla um útsenda starfsmenn utan EES svæðisins þar sem kærandi er alfarið starfsmaður alþjóðastofnunar og getur þar af leiðandi ekki talist á íslenskum vinnumarkaði. Starfsmenn alþjóðastofnana sem alfarið eru launaðir af þeim teljast ekki tryggðir hér á landi sbr. 1. mgr. 14. gr. rg. nr. 463/1999.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. ágúst 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna þess að beðið var eftir athugasemdum frá kæranda svo og vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Í 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um gildissvið laganna. Þar segir í 1. mgr. að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs og þau eigi einnig við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Þá segir í 2. mgr. að lögin taki einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks. Í athugasemdum í greinargerð við 1. mgr. 1. gr. segir að fallið sé frá búsetuskilyrðum sem áður giltu og gert nægilegt að viðkomandi starfi á íslenskum vinnumarkaði. Sé þetta einkum gert með tilliti til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Lögheimili hérlendis hefur samkvæmt því ekki sjálfstæða þýðingu varðandi rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði ef foreldri starfar annars staðar.

Við gildistöku laga nr. 95/2000 var sérstakur sjóður stofnsettur, Fæðingarorlofssjóður, sbr. 4. gr. laganna. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof segir: „Lagt er til að sérstakur sjóður, Fæðingarorlofssjóður, verði stofnaður til að standa straum af kostnaði við greiðslur til foreldra á vinnumarkaði í fæðingarorlofi. Er það gert í samræmi við þær breytingar sem gerðar eru á greiðslufyrirkomulagi til foreldra er leggja niður launuð störf vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 13. gr. frumvarpsins.“ Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. ffl. skal Fæðingarorlofssjóður fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, auk vaxta af innistæðufé sjóðsins.

Í 1. mgr. 13. gr. ffl. er skýrt kveðið á um hverjir eigi rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og hvaða skilyrði þarf að uppfylla. Samkvæmt ákvæðinu öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins þegar meta skal hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, enda hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á þeim tíma, sbr. og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir að við ákvörðun á mánaðarlegri greiðslu til foreldris skuli eingöngu höfð hliðsjón af meðaltali heildartekna þann tíma sem foreldri hafi unnið á innlendum vinnumarkaði.

Barn kæranda er fætt 4. janúar 2003. Til þess að eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi að uppfylla skilyrði 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði frá 4. júlí 2002 fram að fæðingardegi barnsins, sbr. og 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. skal útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns úr staðgreiðsluskrá. Telji foreldri upplýsingar viðkomandi skrár ekki réttar skal viðkomandi leggja fram gögn því til staðfestingar. Þegar staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra var skoðuð voru engin laun gefin upp á kæranda á framangreindu sex mánaða viðmiðunartímabili.

Það liggur fyrir að á viðmiðunartímabilinu starfaði kærandi sem „K“ hjá D. Ekki var greitt tryggingagjald eða aðrir skattar af launum hans hér á landi. Þá er staðfest að hann starfaði alfarið utan vinnumarkaðar á Íslandi.

Ákvæði 13. gr. ffl. mælir með ótvíræðum hætti fyrir um að foreldri þurfi að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs til að öðlast rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir ekki það skilyrði og ekki hefur verið greitt tryggingagjald eða aðrir skattar af launum hans hér á landi. Hann hefur því ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta